Friðlýsing Búrfellsgjár og nágrennis undirrituð í göngu um svæðið
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár, Selgjár og nágrennis ofan Garðabæjar í gær. Undirritunin fór fram í fræðslugöngu um svæðið sem Ferðafélag Íslands skipulagði undir leiðsögn Snæbjörns Guðmundssonar jarðfræðings.
Búrfellsgjá og umhverfi hennar er vinsæl útivistarparadís í túnfæti höfuðborgarsvæðisins þar sem ungir sem aldnir geta meðal annars gengið, skokkað, hjólað og riðið út í stórbrotnu landslagi.
Gjáin varð til í miklu eldgosi fyrir um átta þúsund árum í litlum eldgíg, sem nefnist Búrfell. Í eldgosinu flæddi hraun úr gígnum niður á láglendið og út í sjó. Hraunin í miðbæ Hafnarfjarðar, Garðabæ og Gálgahraun á Álftanesi eiga þannig öll uppruna sinn í Búrfelli og Búrfellsgjá.
„Þetta er svæði er stórkostleg náttúruperla og eins og kennslubók í jarðfræði,“ segir Guðmundur Ingi. „Það felast í því mikil lífsgæði að eiga slíka útivistarparadís í bakgarði höfuðborgarsvæðisins og hingað er gott að koma og hlaða batteríin. Enda nýta sér mörg svæðið til útivistar og fjölbreyttrar hreyfingar. Mér finnst Garðbæingar eiga hrós skilið fyrir loftsvert frumkvæði þegar kemur að friðlýsingum og með þessari ákvörðun verndum við svæðið fyrir komandi kynslóðir til að njóta.“
Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Innan svæðisins er einnig talsvert af menningarminjum s.s. fjárrétt og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum.
Hópur fólks tók þátt í fræðslugöngunni í gær en í henni voru m.a. fulltrúar Garðabæjar, landeigenda og Umhverfisstofnunar.