Hoppa yfir valmynd
19. maí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna um stöðu miðaldra á vinnumarkaði

Ráðstefnustjóri – ágætu ráðstefnugestir

Inngangur

Ráðstefnan sem hér hefur verið kallað til er að stórum hluta til komin vegna frumkvæðis einstaklinga sem orðið hafa fyrir sárri reynslu af því að missa vinnuna og átt erfitt með að finna nýtt starf við hæfi þrátt fyrir víðtæka reynslu og góða menntun.   Upplifun þeirra er sú að þar hafi aldurinn verið eini þröskuldurinn. 

Þessi áhugahópur um málefnið kom á samræðum við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið og saman hafa þessir aðilar skipulagt þessa ráðstefnu með dyggum stuðningi Samtaka atvinnulífsins, Verslunarmannafélags Reykjavíkur, Félags bókagerðarmanna, Eflingar stéttarfélags, Rafiðnaðarsambandsins, Landssambands lífeyrissjóða, Sambands bankamanna og BSRB.  Hér er því um að ræða frumkvæði úr grasrótinni ef svo má segja,  í samvinnu við frjáls félagasamtök og opinberar stofnanir og   þakka ég  öllum þessum aðilum  liðveisluna. 

Sú tilfinning er því miður rík meðal marga sem missa starf sitt eða hafa áhuga á að breyta til og eru komnir á miðjan aldur að þar ráði aldurinn því fyrst og fremst hvort væntingar um frama á vinnumarkaði verði að veruleika.   Það hlýtur að vera skylda okkar sem komum að stefnumótun á vinnumarkaði að grennslast nákvæmlega  fyrir um það hvort þetta sé viðvarandi vandamál. Hvort það geti raunverulega verið svo að hæfni og reynsla séu víkjandi þættir þegar fyrirtæki skipa starfslið sitt en aldurinn ráði þar mestu.  Og þegar menn séu komnir yfir ákveðinn aldur verði hann fólki verulegur fjötur um fót. Hér hefur spurningamerkið verið sett við 45 ára og eldri.

Við erum hingað komin til þess að fara yfir þessi mál og varpa fram spurningum og e.t.v svara hluta þeirra einnig. 

Samhliða undirbúningi þessarar ráðstefnu og samræðu um hana á vettvangi Vinnumálastofnunar hefur nefnd um stöðu miðaldra á vinnumarkaði tekið til starfa á vegum félagsmálaráðuneytisins, á grunni samþykktar þingsályktunartillögu frá Ögmundi Jónassyni alþingismanni formanni BSRB.  Nefndinni sem er undir forystu Elínar R.  Líndal formanns byggðaráðs Húnaþings vestra,   er ætlað að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur með uppsögnum eða mismunun í starfi. 

Starf nefndarinnar hefur farið vel af stað og það verður forvitnilegt að heyra hér á eftir niðurstöður úr viðhorfskönnun um málefnið sem nefndin lét vinna fyrir sig nú á dögunum. 

Staðan í dag

Atvinnuþátttaka er í dag um 83 % á Íslandi og það telst með því hæsta sem þekkist í heiminum.  Styrkur Íslands sem velferðarsamfélags byggist á því að viðhalda þessari miklu þátttöku í verðmætasköpuninni.  Það er þörf fyrir hverja vinnandi hönd og hverri þeirri krónu sem greidd er í atvinnuleysisbætur væri gott að geta varið til annarra þátta velferðarkerfisins. Svona er þessu þó ekki alltaf farið og atvinnuleysi hefur því miður  verið meira nú undanfarið en við getum sætt okkur við. 

Hækkun atvinnuleysisbóta nú nýverið sýnir viðleitni af hálfu stjórnvalda til að bregðast við þessu og gera fólki lífið bærilegra meðan á þessu millibilsástandi stendur.  

Atvinnuleysi hefur ekki verið meira meðal eldra fólks á vinnumarkaði en í öðrum aldurshópum.  Kannarnir sýna þó að það er erfiðara fyrir eldra fólk að komast aftur í vinnu ef það hefur á annað borð orðið atvinnulaust.  Þetta leiðir hugann að þeirri spurningu hvort það sé einmitt aldurinn sem þar sé helsta fyrirstaðan.  Vonandi fáum við svar við þeirri spurningu hér á þessum fundi.  

Álitamál

Aukin krafa um hagræðingu og ráðdeild í atvinnulífinu hefur lagt ríkari skyldur á vinnuaflið um framleiðni og afköst jafnt á almennum vinnumarkaði sem í opinberum rekstri.  Þessi þróun getur haft tvenns konar ásýnd.  Annars vegar hefur hún leitt til þess að fyrirtækin ná betri tökum á rekstri sínum, þau vaxa og dafna og eru betur í stakk búin til þess að stuðla að enn frekari útrás og uppbyggingu sem skapar fleiri atvinnutækifæri. 

Hins vegar getur þessi þróun leitt af sér of miklar kröfur til vinnuaflins, vinnugleði dofnar og fólk heltist úr lestinni.

Skipulag vinnunnar þarf að geta mætt báðum þessum sjónarmiðum. Einn mikilvægasti liðurinn  í því að mæta auknum kröfum eða breytingum á vinnuferlum og skipulagi felst í því að gefa starfsfólki kost á markvissri endurmenntun og starfsmenntun sem miðast við þarfir vinnustaðaðarins eða stuðla að almennri vellíðan í starfi.   Um þetta eru allir sammála og undanfarin ár hefur verið lyft Grettistaki í starfsmenntunarmálum í landinu og nú síðast með samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins með kjarasamningum við verkafólk sem undirritaðir voru nú í mars

En eftir hverju eru þeir að sækjast sem ráða til sín starfsfólk? Ef aldurinn er sá þröskuldur sem kemur í veg fyrir að fólk finni starf við hæfi – hvað þá með alla aðra kosti sem viðkomandi hefur til að dreifa.  Norræn vinnumarkaðsrannsókn sem nýlega var unnin á vegum norrænu ráðherranefndarinar  leiðir í ljós að eldri starfsmenn búa jafnan yfir þeirri lykilþekkingu sem hver vinnustaður þarf á að halda.  Þeir eru minnst frá vegna veikinda,  sýna mestu trúmennskuna gagnvart vinnustaðnum,  eru ábyrgðarfullir og sýna mestu framleiðnina. 

Ef að þetta liggur fyrir - eftir hverju meiru eru þá menn að slægjast.  Er þá ekki það sem eftir stendur einhverskonar viðhorf sem hefur skotið rótum um að ung ásýnd sé heilladrýgri fyrir fyrirtæki á markaði en hæfni og reynsla.  Ég el með mér þá von að þetta sé ekki raunin og að í þessum efnum  ráði skynsemin ferðinni. Hér verður að fara bil beggja.

Framtíðin

Eins og ég sagði áðan þá er það eitt af verkefnum þeirrar nefndar sem nú starfar á vegum ráðuneytisins að kanna hvort bregðast þurfi við aldursmismunun á vinnumarkaðnum með lagasetningu.  Íslendingar hafa þróað með sér það hegðunarmynstur á vinnumarkaði að útkljá ágreiningsmál með samningum og ég vil halda í það fyrirkomulag.  Lagasetningar eru góðar og gildar út af fyrir sig en þær leysa ekki allan vanda. Og  sérstaklega held ég að erfitt sé að breyta viðhorfum fólks með lögum.  Til þess þarf annars konar aðferðir.  Það er jafnframt æskilegt að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur og geti brugðist við efnahagsaðstæðum hverju sinni. 

Málefnaleg umræða og upplýsingamiðlun um styrkleika þess aldurshóps á vinnumarkaði sem við erum hér að fjalla um er mjög mikilvæg í þessu samhengi.  Jafnframt þarf að greina hvort fyrir hendi séu  tæknilegar hindranir  t.d. í almannatryggingakerfinu, atvinnuleysistryggingakerfinu eða lífeyrissjóðakerfinu sem valda því að miðaldra fólk verði ekki eins aðlaðandi vinnuafl og ella vegna þess að það sé kostnaðarsamara að hafa það í vinnu en þá sem yngri eru.  Margskonar greiningarvinnu af þessu tagi og vinnumarkaðsrannsóknir um málaflokkinn þarf að vinna og koma á framfæri út í samfélagið.  Niðurstaðan af slíku geta menn í sjálfu sér séð fyrir – hún mun leiða enn betur í ljós styrkleika okkar fólks.

Með þessum orðum segi ég þessa ráðstefnu setta.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta