Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Viðbrögð við ákvörðun ESA um ríkisaðstoð við fjármálafyrirtæki

Stjórnvöld munu senda Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) skriflegt svar fyrir lok ágúst vegna ákvörðunar stofnunarinnar um að heimild sem veitt var Íbúðalánasjóði til þess að endurfjármagna skuldabréf fjármálafyrirtækja með veði í íbúðarhúsnæði hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Ákvörðun ESA mun ekki hafa áhrif á fjárhagslega stöðu sjóðsins.

Mál ESA varðar V. kafla svokallaðra Neyðarlaga sem voru sett 6. október 2008. Með lögunum voru heimildir Íbúðalánasjóðs rýmkaðar þannig að sjóðnum var heimilt að kaupa eða endurfjármagna skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð voru með veði í íbúðarhúsnæði. Þessi ráðstöfun var þáttur í nauðsynlegum aðgerðum við endurskipulagningu rekstrar fjármálafyrirtækja. Enn fremur var tilgangurinn að gæta að hagsmunum lántakenda þannig að unnt væri að koma til móts við aðstæður þeirra kæmi til greiðsluerfiðleika.

Eftirlitsstofnun EFTA telur að við þær aðstæður sem voru á fjármálamörkuðum í kjölfar fjármálakreppunar þyki ólíklegt að einkafjárfestir hefði tekið þátt í sambærilegum eignaskiptum. Er það mat Eftirlitsstofnunarinnar að það kunni að leiða til þess að þessi ákvæði feli í sér ríkisaðstoð til fjármálastofnana.

Velferðarráðherra mun leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðismál þar sem lagt verður til að framangreind heimild Íbúðalánasjóðs verði felld úr gildi. Jafnframt verður þegar felld úr gildi reglugerð sem byggir á lögunum. Þá munu fjármálaráðuneyti, velferðarráðuneyti og Íbúðalánasjóður hefja samráðsferli við Eftirlitsstofnun EFTA vegna kaupa Íbúðalánasjóðs á fasteignaveðlánum sem byggðust á framangreindri heimild. Munu stjórnvöld svara stofnuninni skriflega fyrir lok ágúst næstkomandi. Þess ber að geta að þessi ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA mun ekki hafa áhrif á fjárhagslega stöðu Íbúðalánasjóðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta