Hoppa yfir valmynd
27. júní 2022 Matvælaráðuneytið

Opnað fyrir rafrænar umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur

Opnað hefur verið fyrir rafrænar umsóknir í Afurð (www.afurd.is) fyrir jarðræktarstyrki og landgreiðslur vegna framkvæmda á yfirstandandi ári. Umsóknum skal skilað eigi síðar en mánudaginn 3. október nk. Til að geta sent inn umsókn í Afurð þarf einnig að liggja fyrir árleg skýrsla um ræktun ársins á jord.is. Umsóknarfrestur verður ekki framlengdur. Auglýsing um jarðræktarstyrki í garðyrkju verður birt síðar í vikunni.

Sérstakar álagsgreiðslu vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi eru reiknaðar á grunni hefðbundinni umsókna um jarðræktarstyrki og landgreiðslur. Þess vegna er mikilvægt að umsóknir liggi tímanlega fyrir svo greiða megi álagsgreiðslur vegna jarðræktarstyrkja og landgreiðslna í byrjun október 2022. Umsókn er forsenda fyrir álagsgreiðslu. 

Allar umsóknir skulu standast skilyrði skv. reglugerð. Þar sem úttekt umsókna verður ekki lokið fyrr en 15. nóvember 2022 eru álagsgreiðslur greiddar með fyrirvara um að standast úttekt. Tekið verður á misræmi milli umsókna og úttekta sem kann að koma upp við greiðslu á árlegum jarðræktarstyrkjum og landgreiðslum í byrjun desember 2022.
Framleiðendur sem uppfylla skilyrði 3. gr. reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað nr. 430/2021 geta sótt um jarðræktarstyrki og landgreiðslur. Skilyrði sem bændur skulu kynna sér fyrir eru fullnægjandi skil á skýrsluhaldi í jörð.

Jarðræktarstyrkir

Styrkhæf ræktun er ræktun grass, korntegunda til dýrafóðurs og manneldis, ræktun olíujurta, þar með talin ræktun jurta til framleiðslu á lífdísil, enda sé hratið nýtt til fóðurs, og ræktun grænfóðurs til beitar og uppskeru á því ári sem uppskorið er. Beit búpenings telst vera uppskera og nýting kornhálms og annarra jurta til uppræktunar jarðvegs í útiræktun grænmetis telst styrkhæf. Ræktun vetraryrkja sem sáð er um mitt sumar og endurræktun túna er tekin út á ræktunarári. Ekki telst styrkhæf ræktun ef kornrækt er eingöngu ætluð til að draga að gæsir til skotveiði, nema ef kornhálmur er sannarlega hirtur eða plægður niður. Önnur ræktun sem ekki er nytjuð til búskapar, þar með talin sáning í golfvelli, tjaldstæði o.s.frv. er ekki styrkhæf.

Landgreiðslur


Framlögum til landgreiðslna skal ráðstafa á ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar og framleiðanda er heimilt að nýta. Framlög eru ekki greidd út á land sem eingöngu er nýtt til beitar. Þegar uppskorinn er hluti lands, sem sækja á um styrk út á, skal skrá sérstaklega þann fjölda hektara sem er uppskorinn.

Umsónir berist á https://afurd.bondi.is/

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta