Nr. 225/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 25. maí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 225/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21040017
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 7. apríl 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. mars 2021, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi hinn 20. október 2005 með gildistíma til 12. ágúst 2006. Þann 19. maí 2014 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið með gildistíma til 30. apríl 2015. Var leyfið endurnýjað, síðast með gildistíma til 29. september 2017. Kærandi sótti að nýju um dvalarleyfi á sama grundvelli þann 8. febrúar 2018 og fékk það útgefið með gildistíma frá 25. júní 2018 til 6. október 2018. Hefur leyfið verið endurnýjað, síðast með gildistíma til 26. febrúar 2021. Þann 4. nóvember 2020 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. mars 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 7. apríl 2021 og greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 21. apríl 2021.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um ákvæði 58. gr. laga um útlendinga. Væri ljóst að kærandi hefði ekki dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Þá ættu aðstæður kæranda ekki undir undanþáguákvæði 3. mgr. 58. gr. Var umsókn kæranda því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kemur m.a. fram að mannleg mistök hafi orðið til þess að ekki var sótt um endurnýjun dvalarleyfis í tæka tíð þegar fyrra leyfi kæranda rann út hinn 29. september 2017. Beri að líta til þess að kærandi hafi dvalist hér á landi frá 2014 við mat á því hvort hann uppfylli skilyrði til útgáfu ótímabundins dvalarleyfis.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a - e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá skilyrðum um fjögurra ára samfellda dvöl, sbr. b-lið 2. mgr. og 3. mgr. 58. gr.
Dvalarleyfissaga kæranda á Íslandi er rakin í II. kafla úrskurðarins. Kærandi var með útgefið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, á tímabilinu 19. maí 2014 til 29. september 2017 og að nýju frá 25. júní 2018 til 26. febrúar 2021. Frá þeim tíma hefur kærandi dvalið samkvæmt heimild 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.
Þar sem rof kom í samfellda dvöl kæranda á tímabilinu 29. september 2017 til 25. júní 2018 reiknast samfelldur dvalartími hans frá síðastnefndri dagsetningu. Með hliðsjón af því er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. um samfellda dvöl síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis en uppfyllir það skilyrði að óbreyttu þann 25. júní 2022. Þá eiga þau undantekningartilvik sem fram koma í b-lið 2. mgr. og 3. mgr. 58. gr. laganna um fyrri dvöl útlendings ekki við í máli hans.
Með vísan til framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Kærandi var síðast með útgefið dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga með gildistíma til 26. febrúar 2021. Frá þeim tíma hefur kærandi haft heimild til dvalar samkvæmt 6. mgr. 58. gr. á meðan á málsmeðferð umsóknar hans um ótímabundið dvalarleyfi stóð. Eins og að framan greinir hefur málsmeðferðinni nú verið lokið með synjun umsóknarinnar og hefur kærandi því ekki lengur heimild til dvalar hér á landi. Kæranda er leiðbeint um að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli en ótímabundins dvalarleyfis, s.s. á grundvelli sérstakra tengsla við landið, innan 15 daga frá móttöku úrskurðar þessa eða að öðrum kosti yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann sækir ekki um dvalarleyfi á öðrum grundvelli eða yfirgefur ekki landið kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. og 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares