Brjóstamiðstöð Landspítala formlega opnuð
Ný brjóstamiðstöð Landspítala var formlega opnuð í gær. Í brjóstamiðstöðinni er heildstæð heilbrigðisþjónusta og öflug þverfagleg teymisvinna. Þar á sér meðal annars stað brjóstaskimun, brjóstamyndgreining, greiningar á sjúkdómum og öflug göngudeildarþjónusta. Miðstöðin heldur utan um fjölbreytta þjónustu tengdum ýmsum sjúkdómum í brjóstum, sinnir þjónustu úti á landi og fólki sem er í áhættuhópi á að fá krabbamein vegna stökkbreytinga í genum.
Undirbúningur að opnun brjóstamiðstöðvarinnar hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Ráðast þurfti í húsnæðisbreytingar, breytingar á vinnulagi og flutning á fyrri starfsemi undir sama þak. Þetta hefur verið gert í skrefum og fjöldi fólks hefur lagt hart að sér við að gera brjóstamiðstöðina að raunveruleika. Þessi formlega opnun var því hátíðleg stund.
Samfelld en fjölbreytt þjónusta á einum stað
Þetta nýja fyrirkomulag stuðlar að betri samfellu í þjónustunni og felur í sér margvísleg samlegðaráhrif. Gagnreynd og einstaklingsmiðuð nálgun, teymisvinna og stöðug umbótavegferð gerir brjóstamiðstöð Landspítala vel til þess fallna að framkvæma skimanir fyrir krabbameini í brjóstum og sinna metnaðarfullri þjónustu.
Þar er einnig starfrækt öflugt nýsköpunar- og brautryðjendastarf og voru ýmsar metnaðarfullar tæknilausnir sem nú þegar eru komnar í notkun kynntar á opnunarhátíðinni. Nýtt Landspítala smáforrit verður einnig tekið til notkunar á brjóstamiðstöðinni fljótlega og verður það bylting í stafrænni upplýsingagjöf og öllu utanumhaldi fyrir einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.
Að mæta í brjóstaskimun er lífsnauðsynlegt
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá konum hér á landi. Því fyrr sem sjúkdómurinn finnst því betri eru lífslíkurnar. Skipuleg skimun er því afar mikilvæg til þess að finna og greina sjúkdóminn snemma. Mikil ánægja hefur verið með skimunaraðstöðuna og þjónustuna í heild og vonast því heilbrigðisráðuneytið til þess að fyrirkomulagið hvetji konur til að mæta í ríkara mæli í skimun.