Hoppa yfir valmynd
15. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2014

Miðvikudaginn 15. október 2014

 A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

 Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Með kæru, dags. 28. janúar 2014, kærir B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Sjúkratrygginga Íslands um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi varð fyrir slysi á leið til vinnu þann 16. desember 2011. Sjúkratryggingar Íslands samþykktu bótaskyldu í málinu en með bréfi, dags. 29. október 2013, synjaði stofnunin umsókn kæranda um slysabætur. Í bréfinu kom fram að varanleg slysaörorka kæranda hafi verið metin 5% en þar sem örorkan hafi verið minni en 10% greiðist ekki örorkubætur.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar segir svo:

 

„Til mín hefur leitað A vegna umsóknar um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga skv. lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir þann 16. desember 2011 á leið til vinnu sinnar hjá C. Slysið varð með þeim hætti að umbj. minn rann í hálku, datt og fékk slæman hnykk á bakið. Í slysinu varð umbj. minn fyrir meiðslum, sbr. meðfylgjandi læknisfræðileg gögn.

 

Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og bótaskylda samþykkt. Með bréfi frá SÍ dags. 29. október 2013 sl., sem barst undirrituðum þann 1. nóvember 2013, var tilkynnt sú ákvörðun SÍ að ekki yrði  um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki umbj. míns, þar sem örorka hans vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 5%. Meðfylgjandi var matsniðurstaða D, tryggingalæknis SÍ.

 

Umbj. minn getur á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu SÍ og telur afleiðingar slyssins hafa verið of lágt metnar af tryggingalækni SÍ.

 

Þann 16. desember s.l. gekkst umbj. minn undir örorkumat hjá E bæklunarlækni vegna slysatryggingar sem umbj. minn var tryggður í vinnutíma hjá Sjóvá almennum tryggingu, hf. Með matsgerð E, dags. 21. desember 2013, var umbj. minn metinn til 10% læknisfræðilegrar örorku. Um er að ræða ítarlega og vel rökstudda matsgerð. Við matið var lagt til grundvallar að umbj. minn hafi hlotið tognun í mjóbaki sem valdi bakverkjum með útgeislum í ganglimi.

 

Með matsgerð D tryggingalæknis SÍ, dags.18. október 2013 var varanleg læknisfræðileg örorka umbj. míns hins vegar aðeins metin 5%. Í niðurstöðu þess mats segir að matsmaður telji líklegt umbj. minn hafi einkenni frá mjóbaki sem samrýmst geti „áverkamekanisma“ eins og hann lýsi, um sé að ræða verki og hreyfiskerðingu á baki en ekki brottfallseinkenni tauga og telur matsmaður hæfilegt að meta hæfilegan miska til 5% vegna þessa slyss og vísar í töflur örorkunefndar kafla VIAc og telur sig hafa tekið tillit til fyrri mjóbaksverkjavandamála.

 

Umbj. minn telur niðurstöðu matsins ranga og byggir á því að læknisfræðileg örorka hans hafi verið of lágt metin í matsgerð tryggingalæknis SÍ. Miða beri við forsendur og niðurstöður þær sem fram koma í matsgerð E læknis. Í matsgerð E byggir niðurstaðan á því að umbj. minn hafi dofatilfinningu niður í ganglim og stundum alveg niður í tær og miðast niðurstaða matsgerðarinnar við það að umbj. minn búi við bakverki með útgeislun í ganglim. Mat læknis SÍ tekur hins vegar einungis mið af því að umbj. minn hafi verk í baki og hreyfiskerðingu en ekki brotfallseinkenni tauga og tekur niðurstaða hans mið af því. Að mati umbj. míns heimfærir hann því afleiðingar umbj. míns ranglega undir kafla VIAc lið tvö í miskatöflu Örorkunefndar þegar ljóst er að afleiðingarnar eiga heima undir lið VIAc lið þrjú, sem gæfi niðurstöðu um 10% örorku.

 

Með vísan til ofangreinds telur umbj. minn óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats tryggingalæknis SÍ. Frekar skuli taka mið af matsgerð E læknis, við mat á læknisfræðilegri örorku umbj. míns, þ.e. 10 %.

 

Með vísan til þessa sem og gagna málsins kærir umbj. minn ákvörðun SÍ á varanlegri læknisfræðilegri örorku hans skv. lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 og krefst þess að tekið verði mið af matsgerð E læknis við mat á læknisfræðilegri örorku sinni.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands með bréfi, dags. 31. janúar 2014. Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 20. febrúar 2014, segir svo:

 

„Þann 7. mars 2012 barst Sjúkratryggingum Íslands (hér eftir SÍ) tilkynning um vinnuslys sem kærandi varð fyrir 16. desember 2011. Með bréfi dags. 19. júní 2012 samþykkti stofnunin að um bótaskylt slys væri að ræða. Með ákvörðun dags. 29. október 2013 var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins metin 5%. Ákvörðun SÍ er nú kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

 

Gildissvið

Bætur úr slysatryggingu almannatryggingalaga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 31. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum.

 

Ákvörðun SÍ um varanlega læknisfræðilega örorku er sjálfstætt mat sem stofnuninni er falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 2. gr. almannatryggingalaga. Stofnunin byggir ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið er svo á að mál sé að fullu upplýst og er ekki bundin af niðurstöðu annarra sérfræðinga. Þá tekur SÍ sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu milli einkenna og hins tilkynnta slyss.

 

Örorka sú sem metin er samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga, með síðari breytingum, er læknisfræðileg örorka þar sem metin er skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafa fyrir líkamstjóni. Við matið er stuðst við miskatöflur Örorkunefndar þar sem afleiðingar líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til þess hvaða áhrif örorkan hefur á getu til öflunar atvinnutekna.

 

Um greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku gilda reglur 34. gr. almannatryggingalaga. Í 6. mgr. ákvæðisins segir að örorkubætur greiðast ekki ef orkutapið er metið minna en 10%. Í 2. gr. reglugerðar nr. 187/2005 um eingreiðslu örorkubóta Tryggingastofnunar ríkisins (nú Sjúkratryggingar Íslands) segir að hafi hinn slasaði hlotið örorku vegna tveggja eða fleiri slysa sem bótaskyld eru samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga er heimilt að greiða bætur ef samanlögð örorka vegna slysanna er 10% eða meiri.

 

Ákvörðun SÍ

Í hinni kærðu ákvörðun var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda réttilega metin 5% (fimm af hundraði). Við ákvörðunina var stuðst við fyrirliggjandi gögn og var matið byggt á tillögu D sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, CIME, að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku kæranda, dags. 18. október 2013. Tillagan byggir á skoðun læknisins sem fór fram 7. október 2013.

 

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafði lent í umferðarslysum í október 2007, janúar 2008 og september 2008 þar sem hann hlaut tognunaráverka mest á hálshrygg og brjóstbak. Vegna afleiðinga slysanna hafði hann verið metin til 10 stiga miska. Hann kveðst hafa verið þokkalega heilsuhraustur í mjóbaki en eftir þessi bílslys hafi hann verið reglulega í sjúkraþjálfun. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi kvartað yfir mjóbaksverkjum í maí 2010 en kærandi tók fram að aðal vandamál hans fyrir slysið 16. desember 2011 hafi verið tengd hálshrygg og brjóstbaki en ekki mjóbaki.

 

Slysið 16. desember 2011 varð með þeim hætti að kærandi rann á hálkubletti og við fallið greip hann í handrið og fékk við það snúning og hnykk á bakið. Hann kveðst strax hafa fengið mikla verki í mjóbak og verið frá vinnu fram yfir áramót. Hann leitaði fyrst til læknis 2. janúar 2012 og byrjaði að vinna eftir þá skoðun. Hann leitaði næst til læknis þremur vikum síðar og var þá send beiðni um sjúkraþjálfun. Næsta læknisskoðun var hálfu ári síðar þar sem kærandi kvartaði yfir bakverkjum og var send önnur beiðni um sjúkraþjálfun. Þann 14. nóvember 2012 fór kærandi í sneiðmyndatöku af mjóbaki. Niðurstöður sneiðmynda sýndu slitbreytingar en ekki áverkamerki.

 

Við ákvörðun um varanlega læknisfræðilega örorku var miðað við miskatöflur Örorkunefndar (2006), nánar tiltekið lið V.I.A.c. Í kaflanum samantekt og tók matslæknir SÍ fram að líklegt sé að einkenni kæranda frá mjóbaki geti samrýmst áverkamekanisma eins og hann lýsir þeim. Hann er með verki og hreyfiskerðingu í  baki en ekki brottfallseinkenni tauga. Varðandi nánari umfjöllun um atvik málsins og rökstuðning niðurstöðu vísast í hina kærðu ákvörðun og gögn sem ákvörðunin byggir á. 

 

Að mati SÍ hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að rétt sé að miða við að kærandi sé með brottfallseinkenni tauga. Að öllu virtu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun um varanlega læknisfræðilega örorku.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. febrúar 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki. Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 26. mars 2014. Ákveðið var að fresta ákvörðun í málinu og óska eftir utanaðkomandi áliti á því hversu mikil varanleg læknisfræðileg örorka kæranda væri vegna slyssins að undangenginni skoðun þar sem sérstaklega væru könnuð taugaviðbrögð kæranda. Þann 28. ágúst 2014 barst nefndinni álitsgerð F heila- og taugaskurðlæknis, dags. 21. ágúst 2014.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir þann 16. desember 2011. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku kæranda 5% en þar sem örorkan var minni en 10% greiðast ekki örorkubætur.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga er greint frá því að kærandi hafi runnið í hálku þann 16. desember 2011 og fengið slæman hnykk á bakið. Vísað er til örorkumats E bæklunarlæknis, dags. 21. desember 2013, þar sem kærandi var metinn til 10% læknisfræðilegrar örorku. Lagt hafi verið til grundvallar að kærandi hafi hlotið tognun í mjóbaki sem valdi bakverkjum með útgeislun í ganglimi. Kærandi telur að læknisfræðileg örorka hans hafi verið of lágt metin í matsgerð tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Mat hans taki einungis mið af því að kærandi hafi verk í baki og hreyfiskerðingu en ekki brottfallseinkenni tauga. Telji kærandi að frekar skuli taka mið af matsgerð E og meta örorku hans 10%.

 

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að við ákvörðun um varanlega læknisfræðilega örorku hafi verið miðað við miskatöflur örorkunefndar, nánar tiltekið lið VI.A.c. Matslæknir hafi talið að líklegt sé að einkenni kæranda frá mjóbaki geti samrýmst áverkamekanisma eins og hann lýsi þeim. Hann sé með verki og hreyfiskerðingu í baki en ekki brottfallseinkenni tauga. Þá segir að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að rétt sé að miða við að kærandi sé með brottfallseinkenni tauga. Að öllu virtu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Í áverkavottorði undirrituðu af G lækni, dags. 27. apríl 2012, er sjúkdómsgreining kæranda tognun á lendhrygg. Í vottorðinu segir m.a. svo:

 

„A leitaði til slysastofu H þann 26.12. sl. Hafði honum skrikað fótur á götu 10 dögum áður. Ekki kemur fram hvort slysið varð á vinnutíma eða frítíma. Hann datt ekki í götuna en náði að grípa í húsvegg. Fékk við það hnykk á bakið. Leitaði því á slysastofu þar sem honum batnaði ekki.

 

Við komu kvartaði hann um verki neðarlega í baki. Verkir voru verri á kvöldin og eins eftir langar setur. Fannst verkurinn versna við að beygja sig í bakinu.

 

Við skoðun komudag var hann ekki mjög meðtekinn að sjá og gekk eðlilega. Það voru þreifieymsli hliðlægt við lendhrygg. Taugaskoðun var eðlileg. Fékk lyfseðil á verkjalyf. Niðurstaða var tognun á lendhrygg.“

 

Þann 18. október 2013 mat D bæklunarskurðlæknir örorku kæranda að beiðni Sjúkratrygginga Íslands. Í tillögu hans að mati um örorku er niðurstaðan 5% varanleg læknisfræðileg örorka. Um skoðun á kæranda þann 7. október 2013 segir svo:

 

„A kveðst vera x cm á hæð, x kíló og rétthentur. Holning er ágæt, hann er fremur stirður almennt í baki. Standandi á gólfi getur hann lyft sér tær, hann getur lyft sér á hæla, sest á hækjur og staðið upp, fær verki í mjóbak við það. Aðspurður um verkjastað bendir hann á neðst í mjóbaki og þvert yfir spjaldliði beggja vegna. Standandi á gólfi við frambeygju nær hann höndum niður að hnjám. Hliðarhreyfingar eru mýkri og nær hann niður að hnjáliðum beggja vegna og fær verk í endapunkti. Bakfetta er þó nokkuð skert með verkjum. Liggjandi á skoðunarbekk er SLR 60° hægri, 60° vinstri. Skyn ganglima er metið eðlilegt og styrkur einnig. Liggjandi á maga ákveðin eymsli yfir L:5 og yfir í báða spjaldliði. Taugaviðbrögð í hnéskeljar og hásinum eru lífleg og eins í hægri og vinstri.“

 

Samantekt og álit í örorkumatstillögu D er svohljóðandi:

 

„A er ekki hraustur í baki þegar hann lendir í slysi því er hér er lýst þann 16.12. er hann mun hafa runnið í hálku og fengið hnykkáverka á bak þegar hann hékk á handriði. Hann leitar læknis 2 vikum síðar, er skoðaður og sendur í sjúkraþjálfun vegna mjóbaksverkja. Hann leitar aftur læknis stuttu síðar og svo aftur hálfu ári seinna með sömu kvartanir. Búið er að framkvæma sneiðmyndatöku sem sýnir fram á slitbreytingar en ekki áverkamerki. Í vottorði heimilislæknis og svo við yfirferð á matsgerð vegna umferðarslysa frá árinu 2009 virðist ekki vera um að ræða stærri eða stór vandamál frá mjóbaki. Undirritaður telur því líklegt að þau einkenni er A hefur í dag frá mjóbaki geti samrýmst áverkamerkanisma eins og hann lýsir, um er að ræða verki og hreyfiskerðingu á baki en ekki brottfallseinkenni tauga og telur undirritaður hæfilegt að meta hæfilegan miska til 5% vegna þessa slyss og vísar hér í töflur örorkunefndar kafli VIAc og telur undirritaður sig hafa tekið tillit til fyrri mjóbaksverkjavandamála.“

 

Í örorkumatsgerð E bæklunarlæknis, dags. 21. desember 2013, sem mat afleiðingar slyssins þann 16. desember 2011 að beiðni lögmanns kæranda, segir um skoðun á kæranda þann 16. desember 2013:

 

„Tjónþoli gefur skilmerkilegar upplýsingar. Hann situr á matsfundi að því er virðist án óþæginda. Hann getur gengið á tábergi og hælum, sest niður á hækjur sér og staðið rólega upp aftur. Við framsveigju er fingur-gólf fjarlægð 40 cm, takmörkuð af sársauka í mjóbaki. Aðrar hryggjarhreyfingar eru innan eðlilegra marka, en tjónþoli lýsir verk neðst í mjóbaki við allar ystu hreyfingar. Veruleg eymsli eru við mót mjóhryggjar og spjaldhryggjar. Við Laségue próf lýsir tjónþoli slæmum sársauka í mjóbaki þegar hægra eða vinstra fæti er lyft 45°. Hné- og hælviðbrögð fást vel fram, en þó er vinstra hælviðbragð greinilega daufara en það hægra. Húðskyn í ganglimum er eðlilegt. Kraftur í ganglimum er eðlilegur, sérstaklega uppsveigja stóru táa.“

 

Niðurstaða E er 10% varanleg læknisfræðileg örorka. Í samantekt og ályktunum framangreindrar örorkumatsgerðar E segir:

 

„Tjónþoli hefur orðið fyrir nokkrum fyrri slysum, en ekkert bendir til að hann hafi haft nein varanleg óþægindi frá mjóbaki sem afleiðingar þeirra slysa né af öðrum ástæðum. Eftir slysið 16.12. 2011 hefur hann samfellda sögu um mjóbaksverki með útgeislun ýmist út niður í hægri eða vinstri ganglim. Hann lýsir einnig dofatilfinningu niður í ganglimi, stundum alveg niður í tær.

 

Matsmaður telur að þessi einkenni orsakist af slysi því sem því sem lýst er 16.12. 2011, þegar tjónþola skrikaði fótur í hálku.

 

[…]

 

Varanleg læknisfræðileg örorka er vegna tognunar í mjóbaki sem veldur bakverkjum með útgeislun í ganglimi.“

 

F heila- og taugaskurðlæknir átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 14. ágúst 2014. Í greinargerð hans, dags. 21. ágúst 2014, er skoðun á kæranda lýst svo:

 

„Almennt: A er x ára, x cm og x kg. Hann er rétthentur.

Hann er þokkalegur af verkjunum, enda í fríi.

Bak: Eðlilegar hreyfingar í baki, nema við frambeygju með bein hné, þá vantar 40 cm upp á að fingur nemi við gólf og hann kvartar yfir slæmum mjóbaksverkjum. Við þreifingu yfir hryggjartindum eru veruleg eymsli yfir L5, neðsta tindi mjóbaksins og aðlægum mjúkvefjum og í vinstri rasskinn eru umtalsverð eymsli sem svara til legu peruvöðva (m. piriformis).

Neðri útlimir: Eðlileg skoðun.“

 

Samantekt og niðurstaða F er svohljóðandi:

 

„A fær hnykk á mjóbak við að renna í hálku. Eftir þetta þrálátir mjóbaksverkir, sem ekki láta undan langtíma sjúkraþjálfun, lyfjameðferð og minnkandi álagi. Setur eru honum erfiðar.

 

A hefur því hlotið tognunaráverka á mjóbakið. Fyrir er mjóbaksáverki árið 2007 sem samkvæmt matsgerð frá 2009 gekk til baka að fullu. Tognunin veldur viðvarandi verkjum í mjóbaki og útgeislun ýmist í hægri eða vinstri fót, þó alltaf meira vinstra megin. Hann getur ekki lengur sinnt erfiðri […]vinnu og hann á líka erfitt með að sitja á skólabekk.

 

Málið snýst um hvort sanngjarnt sé að meta læknisfræðilega örorku til 5 eða 10% með hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar.

 

Að mínu áliti fékk A áverka á mjóbak, líklegast á brjósk og smáliði á svokölluðu L4/5 bili. Þessi áverki skýrir þreytuverki í mjóbaki, verki við allt álag og setur. Skoðun sýnir ekki fram á hefðbundin taugaeinkenni í fótum, það er að segja einkenni um rótarklemmu í mjóbaki. Þau einkenni eru verkir, dofi og máttleysi, sem fylgja ákveðnu mynstri í fótunum, allt eftir því um hvaða taug er að ræða.

 

Miskatafla örorkunefndar gefa 10% miska fyrir lið VI.A.c. „Mjóbaksáverki eða tognun með rótarverk og taugaeinkennum“. Hér er ekki kveðið á um brjósklos eða klemmu á taug vegna slitbreytinga, heldur er opið fyrir allar tegundir af taugaertingum.

 

Mikill fjöldi baksjúklinga sem ég sinni eru með rótarverk og taugaeinkenni í fótum án þess að taugaklemma sé sýnileg á mjóbaksmyndatökum. Hér er þá í flestum tilfellum um að ræða taugaertingu frá ofspenntum vöðvum í rasskinn og grindarbotni. Flestir geta flokkast undir svokallað piriformis syndrom, en þá klemmist/ertist ischias taug djúpt í rasskinn og einkenni eru breytileg: dofi, verkir og máttleysistilfinning í fótum. Í alþjóðlegu sjúkdómaflokkuninni ICD-10 er piriformis sdr. kallað settaugarmeinsemd (lesion of sciatic nerve) með gildið G570.

 

Ég tel A tilheyra þessum hópi, hann er því með mjóbakstognun og breytileg taugaertingareinkenni frá fótum og

 

samkvæmt því telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin til 10%.

 

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga nr. 100/2007, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Við matið hefur úrskurðarnefndin til hliðsjónar örorkutöflur örorkunefndar frá 2006. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi læknis þann 26. desember 2011 vegna afleiðinga slyssins þann 16. desember 2011. Kærandi var með verki neðarlega í baki og var hann greindur með tognun á lendhrygg. Samkvæmt því sem fram kemur í matsgerð D læknis telur hann varanlegar afleiðingar vegna slyssins vera verki og hreyfiskerðingu á baki en ekki brottfallseinkenni tauga. Niðurstaða E læknis er að varanleg örorka kæranda sé vegna tognunar í mjóbaki sem valdi bakverkjum með útgeislun í ganglimi. F læknir, sem mat afleiðingar slyss kæranda að beiðni úrskurðarnefndar almannatrygginga, telur að kærandi sé með mjóbakstognun og breytileg taugaertingaeinkenni frá fótum. Með hliðsjón af framangreindu og læknisfræðilegum gögnum málsins lítur úrskurðarnefnd almannatrygginga svo á að afleiðingar slyssins séu mjóbaksáverki með taugaeinkennum. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi haft varanleg óþægindi frá mjóbaki vegna fyrri slysa. Kafli VI. í töflu örorkunefndar varðar áverka á hryggsúlu og mjaðmagrind. Undir staflið A er fjallað um áverka á hryggsúlu og c- liður í kafla A fjallar um áverka á lendhrygg. Þar kemur fram í lið VI.A.c.3 að mjóbaksáverki eða tognun með rótarverk og taugaeinkennum leiði til allt að 10% örorku. Með hliðsjón af lið VI.A.c.3 í örorkutöflum örorkunefndar telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að örorka kæranda sé hæfilega ákvörðuð 10%. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega læknisfræðilega örorku er hrundið.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um örorku A, vegna slyss þann 16. desember 2011 er hrundið. Varanleg læknisfræðileg örorka hans telst hæfilega ákveðin 10%.

 

 

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta