Nr. 102, 13. desember 2000. Nefnd um endurskoðun á starfsháttum öryggisráðs S.þ.
Utanríkisráðuneytið |
Fréttatilkynning |
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 102
Þorsteinn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, var í gær skipaður annar tveggja varaformanna nefndar sem vinnur að endurskoðun á starfsháttum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann var útnefndur af Harri Holkeri, forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
Endurskoðun á starfsháttum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hefur verið meðal stærri mála á dagskrá Sameinuðu þjóðanna undanfarin ár en hægt hefur gengið að sætta mismunandi sjónarmið og hagsmuni aðildarríkjanna. Almennt samkomulag er um nauðsyn þess að aðlaga starfshætti öryggisráðsins að breyttum tímum og fjölga þeim ríkjum sem sæti eiga í ráðinu. Ágreiningur er hins vegar um hve mikið fjölga eigi í ráðinu, um fjölda ríkja sem þar ættu að hafa fast sæti, hvort þau eigi að hafa neitunarvald og hvort breyta eigi heimildum um beitingu neitunarvaldsins. Þátttaka í störfum endurskoðunarnefndarinnar er opin öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 13. desember 2000.