Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2018

Eiríkur Rögnvaldsson handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2018, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sem tók við viðurkenningu vegna verkefnisins Skáld í skólum - mynd
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, í menningarmiðstöðinni Nýheimum á Höfn í Hornafirði og hlaut þau að þessu sinni Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Verðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.

„Það er með gleði og þakklæti sem ég afhendi Eiríki Rögnvaldssyni Verðlaun Jónasar á þessum hátíðisdegi íslenskrar tungu. Hann hefur með störfum sínum og ástríðu lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar til þess að tryggja þróun og framtíð tungumálsins okkar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Prófessor emeritus Eiríkur Rögnvaldsson hefur með frumkvæði, elju og ást á íslenskri tungu, verið í framlínu þeirra sem vekja athygli þjóðar og stjórnvalda á þeirri hættu sem steðjar að íslenskri tungu og hinu smáa málsamfélagi okkar. Af atorku hefur hann útskýrt og gert grein fyrir hvílík lífsnauðsyn það er að efla máltækni á íslensku, hvað í því felst og hvaða áhrif það getur haft sé það ekki gert með hraði.

Í umræðu um þetta málefni hefur Eiríkur sýnt víðsýni og verið opinn fyrir eðlilegri þróun tungumálsins en jafnframt sýnt fram á það af rökfestu að viðbúið sé, ef svo heldur fram sem horfir, að íslensk tunga sé farin að þróast óeðlilega og eigi á hættu að hverfa í gin enskunnar, og að nú séu síðustu forvöð að spyrna við fótum ef ekki á illa að fara.

Eiríkur hefur jafnframt verið óþreytandi að ítreka hve lífsnauðsynlegt það er fyrir tungumálið og vitund okkar sem þjóðar, að viðhalda tungunni, efla og styrkja móðurmálskennslu og vekja fólk til umhugsunar um að tungumálið sé sameiningartákn, sá strengur sem tengir okkur við söguna og lífið í landinu, bæði fyrr og nú, en ekki síður að sá strengur verði að ná til framtíðarinnar líka.

Eiríkur Rögnvaldsson kenndi málfræði og málvísindi við Háskóla Íslands frá því snemma á níunda áratugnum og var prófessor frá árinu 1993 og þar til nú í sumar. Hann hefur verið höfundur og meðhöfundur fjölda bóka, rita og fræðilegra greina um mál og máltækni. Þá hefur hann varið stórum hluta rannsóknartíma síns í ýmis verkefni á sviði máltækni og tungutækni; hefur hann verið í verkefnastjórn viðamikilla verkefna á því sviði og skrifað yfirlitsgreinar um íslenska máltækni, bæði á íslensku og á ensku.

Í umræðu um stöðu íslenskunnar á umbrotatímum, þegar áhrif ensku aukast sífellt í samfélaginu, hafa skynsamleg sjónarmið Eiríks, greining hans á stöðunni og vel hugsuð ráð vakið verðskuldaða eftirtekt. Í fullveldisávarpi sem hann flutti 1. desember í fyrra í Háskóla Íslands spurði hann stúdenta hvort þeir hefðu einhverja sérstaka ástæðu til að vilja halda í íslenskuna og hlúa að henni. Hann sagði alls ekki sjálfgefið að 340 þúsund manna þjóð ætti sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og margt benti til þess að ýmsar samfélags- og tæknibreytingar síðustu ára hafi valdið því að lífsskilyrði íslenskunnar séu nú verri og framtíðarhorfur hennar dekkri en áður. Við því þurfi að bregðast því að íslenskan er enn óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag og fyrir okkur sem eigum hana að móðurmáli. „Í sérhverju tungumáli felast menningarverðmæti,“ sagði Eiríkur og bætti við „… ef íslenskan breytist mjög mikið, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Völuspá og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kaldaljós, og meira að segja Arnald og Yrsu. Þar með væri hið margrómaða samhengi í íslenskum bókmenntum og menningu fokið út í veður og vind.“

Hann sagði íslenskuna vitanlega vera félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikilvægasta samskiptatæki okkar við annað fólk, og því mætti hún ekki staðna heldur vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. En síðast og ekki síst væri „… íslenskan útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar … Til að íslenskan lifi og geti þjónað margslungnu hlutverki sínu um ókomin ár er nauðsynlegt að efla hana og styrkja … einnig í samskiptum okkar við tölvur og hvers kyns tölvustýrð tæki í þeim stafræna heimi gervigreindar sem við erum á hraðri leið inn í. Það er að mínu mati eitt það mikilvægasta sem við getum gert íslenskunni til góða, og ein helsta forsendan fyrir því að börnin okkar og barnabörnin geti og vilji nota hana áfram.“

Að tillögu ráðgjafanefndarinnar var einnig veitt ein viðurkenning í tilefni dagsins.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, veitti verkefninu Skáld í skólum sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2018 og tók Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson rithöfundur og útgefandi við þeim fyrir hönd verkefnisins.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Verkefnið Skáld í skólum hefur verið starfrækt frá árinu 2006 á vegum Höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands. Þar hefur grunnskólum um allt land boðist að brjóta upp hefðbundna kennslu með heimsóknum frá rithöfundum, handritshöfundum, skáldum og myndasöguhöfundum. Dagskráin er ætíð fjölbreytt og eitthvað í boði fyrir hvert skólastig, bæði styttri fyrirlestrar og kveikjur en einnig ritsmiðjur sem geta spannað nokkra daga. Í dagskránni í ár má til dæmis finna fyrirlestur um „Veiðilendur ævintýranna“, þar sem nemendur í 1.-4. bekk fá hjálp við að veiða hugmyndir og kveikjuna „Ef ég mætti ráða …“ þar sem nemendur í 5.-7. bekk fá hjálp við að búa til sína eigin myndasögubók. Öll erindin byggja þó á sama grunni: Skáldin ræða sögur og lestur, sköpun og skrif og hjálpa nemendum að fá hugmyndir að sínum eigin sögum.

Það er skemmst frá að segja að Skáld í skólum hefur hlotið góðar viðtökur bæði nemenda og kennara. Skemmtilegt, fróðlegt og gagnlegt eru orð sem kennarar nota í umsögnum um verkefni.
Skáldin eiga því sannarlega erindi í skólana. Hæfileikinn til að segja og skrifa sögur er nátengdur hæfileikanum til að setja sig í spor annarra, sem er mikilvægur hluti af þroska allra ungmenna. Á tímum þar sem bóklestur á undir högg að sækja hlýtur einnig að vera hvetjandi fyrir unga lesendur að komast í beint samband við höfunda, en eitt af markmiðum verkefnisins er einmitt að „smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði!“ Sú sköpunargleði er eldsneyti fyrir unga málnotendur og lífsnauðsynleg tungumáli sem þarf að vaxa og dafna andspænis nýjum áskorunum.

Ráðgjafanefnd vegna Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar skipuðu að þessu sinni Ingunn Ásdísardóttir, formaður, Einar Falur Ingólfsson og Dagur Hjartarson.

Á vef dags íslenskrar tungu er að finna yfirlit um þá sem hlotið hafa hin árlegu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu allt frá upphafi (1996).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta