Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál  nr. 28/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 15. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 28/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 4. janúar 2013. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. janúar 2013, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði þann sama dag samþykkt umsókn hennar og væri útreiknaður bótaréttur hennar 100% samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hún ætti eftir að sæta viðurlögum vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta tímabilið 1.‒19. ágúst 2011 sem henni hafi verið tilkynnt um 7. október 2011. Eftirstöðvar viðurlaganna væru þrír mánuðir og greiðslur myndu hefjast er því tímabili væri lokið. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 27. febrúar 2013. Hún krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 8. desember 2008. Umsókn kæranda var samþykkt en með vísan til starfsloka hennar var henni gert að sæta niðurfellingu á bótarétti í tvo mánuði.

 

Kærandi sætti viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar 7. nóvember 2011 og þar sem um ítrekun var að ræða var bótaréttur hennar felldur niður í þrjá mánuði, sbr. 61. gr. laganna. Kæranda var tilkynnt um ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 7. október 2011. Í bréfinu var kæranda bent á rétt sinn til að óska eftir endurupptöku á máli sínu sem og kæruheimild til úrskurðarnefndar.

 

Kærandi óskaði eftir endurupptöku á máli sínu í október 2011. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju og fyrri ákvörðun staðfest. Með bréfi, dags. 17. október 2011, var kæranda tilkynnt að ákvörðunin hefði verið staðfest.

 

Kærandi var afskráð af atvinnuleysisskrá í september 2011 og því tók hún ekki út biðtímann. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 4. janúar 2013 eins og fram hefur komið. Henni var synjað með bréfi, dags. 31. janúar 2013, sem er hin kærða ákvörðun.

 

Kærandi greinir frá því í kæru að hún hafi verið að þiggja atvinnuleysisbætur 7. maí 2011 er hún varð fyrir slysi og fótbrotnaði. Hún hafi hringt í Vinnumálastofnun og látið vita af þessu og í kjölfarið hafi hún verið tekin af bótum frá og með 7. maí 2011. Kærandi greinir frá því að hún sé slysatryggð hjá VÍS og hafi fengið greiðslu þaðan í júní 2011 að fjárhæð 24.682 kr. Hún hafi fengið aðra greiðslu í júlí að fjárhæð 41.434 kr. Það hafi verið mat læknis að á þessum tímapunkti hafi hún verið fær um að fara að vinna aftur og því hafi kærandi skráð sig atvinnulausa. Kæranda hafi svo borist greiðsla frá VÍS í ágúst að fjárhæð 42.718 kr. sem hún hafi ekki átt að fá. Vinnumálastofnun hafi gert athugasemd við það að hún hafi fengið greiðslu frá VÍS á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Kæranda hafi verið gert að endurgreiða skuldina og hafi hún gert það. Kærandi fékk síðar tímabundna vinnu hjá Kópavogsbæ í ágúst 2011 til áramóta 2012‒2013. Þegar því lauk hafi kærandi skráð sig atvinnulausa 4. janúar 2013. Kærandi telur að greiðslurnar frá VÍS hafi verið til þess að mæta sjúkrakostnaði.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. júní 2013, vísar stofnunin til ákvarðana sinna frá 31. janúar 2013 annars vegar og um þriggja mánaða biðtíma frá árinu 2011 hins vegar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að upprunalega ákvörðunin í máli kæranda sé frá því í október 2011. Af þeim sökum muni stofnunin ekki fjalla sérstaklega um þann þátt kæru enda sé þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar liðinn. Því verði ekki séð að kærandi hafi sýnt fram á réttlætanlegar ástæður fyrir svo langvarandi töf á því að kæra ákvörðun stofnunarinnar.

 

Eftir standi ákvörðun stofnunarinnar frá 31. janúar 2013 um að samþykkja umsókn kæranda en að atvinnuleysistryggingar skyldu fyrst greiðast eftir að viðurlagatíma kæranda væri lokið.

Ljóst sé að kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum í október 2011 á grundvelli 59. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju í janúar 2013 hafi hún ekki verið búin að taka út biðtíma.

 

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þar sem kærandi hafi ekki tekið út fyrri viðurlagatíma hafi það verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skyldu ekki greiddar fyrr en kærandi hafi verið á skrá hjá Vinnumálastofnun án bóta í þrjá mánuði í samræmi við ákvæði 1. mgr. 61. gr.

 

Vinnumálastofnun bendir jafnframt á að viðurlög skv. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti aðeins fallið niður hafi atvinnuleitandi unnið sér inn rétt á nýju bótatímabili, en í 5. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að ítrekunaráhrif falli niður þegar nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það þegar nýtt bótatímabil hefst áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Nýtt tímabil hefjist þegar hinn tryggði sæki um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt framangreindu verði ekki séð að Vinnumálastofnun sé heimilt að fella niður útistandandi biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta í máli kæranda.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. júní 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var henni tilkynnt að afgreiðsla málsins myndi tefjast hjá úrskurðarnefndinni vegna mikils málafjölda.

 

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar á biðtíma kæranda í kjölfar umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur 4. janúar 2013. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 31. janúar 2013. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur hennar sé 100%. Jafnframt var kæranda tilkynnt að hún ætti eftir að sæta viðurlögum vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta tímabilið 1.‒19. ágúst 2011 sem henni hafi verið tilkynnt um 7. október 2011. Eftirstöðvar viðurlaganna væru þrír mánuðir og greiðslur myndu hefjast er því tímabili væri lokið.

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar byggir á tveimur eldri ákvörðunum stofnunarinnar. Annars vegar ákvörðun sem tilkynnt var kæranda 6. febrúar 2009 um 40 daga biðtíma vegna starfsloka og hins vegar ákvörðun Vinnumálastofnunar frá fundi 7. október 2011 og tilkynnt var með bréfi, dagsettu sama dag. Í bréfinu kemur fram kemur að bótaréttur kæranda hafi verið felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á þeirri ákvörðun og var mál hennar tekið upp að nýju hjá stofnuninni í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en með bréfi, dags. 17. október 2011, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest. Í bréfinu kemur skýrlega fram að kærufrestur vegna ákvörðunarinnar séu þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Það kemur fram í 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar stjórnsýslukæra skuli berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæran telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Líkt og fyrr greinir barst kæra kæranda til úrskurðarnefndarinnar 27. febrúar 2013. Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að koma þessum þáttum kærunnar að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að þessir þættir kærunnar verði teknir til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa þessum hluta kærunnar frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Af gögnum málsins er ljóst að þriggja mánaða biðtími samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2011, var ekki að fullu liðinn þegar kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur 4. janúar 2013 og var Vinnumálastofnun því rétt að fresta bótagreiðslum til kæranda. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. janúar 2013 staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. janúar 2013 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta