Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 29/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 29/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. janúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að skuldir sem urðu til hjá atvinnuleitendum á árunum 2009 og 2010 hafi að hluta verið felldar niður. Um sé að ræða skuldir sem mynduðust vegna minnkaðs starfshlutfalls, vegna tekna í hlutastarfi, vegna tilfallandi tekna og í afmörkuðum tilfellum vegna ákvarðana stofnunarinnar. Kæranda var tilkynnt um að heildarfjárhæð niðurfellingarinnar hjá henni hafi verið 75.464 kr. en að eftirstöðvar skuldarinnar væru 85.900 kr. Vakin var athygli á að eftirstöðvar skulda miðuðust við skuldastöðu 12. desember 2012 og þær kunni að hafa tekið breytingum síðan. Þá var tekið fram að skuldin yrði innheimt á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 26. febrúar 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um síðast um greiðslu atvinnuleysisbóta 2. febrúar 2009 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 18. mars 2011. Á tímabilinu 1. júní til 25. ágúst 2009 var kærandi skráð í 70% hlutastarf hjá B ehf. og frá 1. september 2009 til 18. mars 2011 var hún skráð með tilfallandi tekjur vegna starfs hjá B ehf. Vinnumálastofnun bárust ekki tilkynningar um tilfallandi tekjur kæranda vegna starfsins.

 

Við samkeyrslu við gagnagrunna ríkisskattstjóra fékk Vinnumálastofnun upplýsingar um tekjur kæranda vegna starfs hennar fyrir B ehf. en samkvæmt upplýsingunum var kærandi með mánaðarlegar tekjur á tímabilinu frá september 2009 til mars 2011, að undanskildum septembermánuði árið 2010. Launin voru mishá hverju sinni.

 

Þar sem tekjuáætlun kæranda lá ekki fyrir hjá Vinnumálastofnun fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur og það myndaðist skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar í þeim tilvikum sem tekjur kæranda voru ekki innan frítekjumarka skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skuld kæranda við stofnunina nam 335.571 kr. Kærandi var afskráð af atvinnuleysisbótum 18. mars 2011 en fram að þeim tíma var ofgreiddum atvinnuleysisbótum hennar skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, alls 174.206 kr.

 

Í kjölfar endurskoðunar Vinnumálastofnunarinnar á skuldastöðu kæranda var í janúar 2013 niðurfelldur sá hluti skuldar hennar sem átti rætur að rekja til greiðsluársins 2010 samtals að fjárhæð 75.465 kr. Niðurfellingin var gerð í samræmi við heimild Ríkisendurskoðunar frá desember 2012 til að afskrifa allar kröfur sem stofnast höfðu á árunum 2009 og 2010 vegna þeirra er fengu greiddar atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Kæranda var tilkynnt um niðurfellinguna og eftirstöðvarnar með hinni kærðu ákvörðun, dags. 11. janúar 2013, auk þess sem kæranda var kynnt að eftirstöðvar skuldar hennar við Vinnumálastofnun næmi 85.900 kr.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi haldið að Vinnumálastofnun væri upplýst um tekjur hennar. Hún hafi síðast verið á atvinnuleysisbótum í maí 2011 og hún hafi ekki haft hugmynd um skuldina fyrr en með bréfi Vinnumálastofnunar í janúar 2013. Kærandi kveðst hafa skilað öllum gögnum um þær tekjur sem hún hafi haft af afleysingarstarfinu og hún hafi talið að Vinnumálastofnun sæi um að hafa þetta allt á hreinu. Þá telur hún hart að fá endurkröfu tveimur árum eftir að hún hætti töku atvinnuleysisbóta.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. júní 2013, kemur fram að málið varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda sem fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 18. mars 2011. Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um frádrátt atvinnuleysisbóta vegna tekna. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið launagreiðslur frá B ehf. í janúar, febrúar og mars 2011 á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar og því hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á þessum tíma sem hafi numið 85.900 kr.

 

Í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum þegar atvinnuleitandi hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Vinnumálastofnun bendir á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010 og 21/2010 þessu til stuðnings.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. júní 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni sökum mikils málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í máli þessu liggur fyrir að með bréfi, dags. 11. janúar 2013, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun. Í bréfinu er hvorki greint frá kærufresti til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, né var kæranda veittur andmælaréttur, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í bréfinu er eingöngu tekið fram að ótilkynntri skuldamyndun yrði nánar sinnt í kjölfar bréfsins en andmæla- og kærufrestir vegna áður tilkynntrar skuldamyndunar séu óbreyttir. Ekki verður séð af gögnum málsins að kæranda hafi áður verið gefinn kostur á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Þessi annmarki á málsmeðferð Vinnumálastofnunar leiðir þó ekki til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, meðal annars með tilliti til hagsmuna kæranda af því að fá úr þessu álitaefni skorið sem fyrst og að kærandi hefur komið að sjónarmiðum sínum fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem kæra kæranda barst innan tímamarka 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistrygginga kom það ekki að sök í máli hennar.

 

Í gögnum máls þessa liggur fyrir hverjar tekjur kæranda voru í starfi hennar hjá B ehf. á tímabilinu janúar til mars 2011.

 

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

 

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

 

Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr., laga um atvinnuleysistryggingar er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur á tímabilinu janúar til mars 2011 og eru eftirstöðvar þeirra 85.900 kr. og er sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki véfengdur. Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að öðru leyti enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði.


 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A sem tilkynnt var henni í bréfi, dags. 11. janúar 2013, þess efnis að eftirstöðvar skuldar hennar væru 85.900 kr. er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta