Reglur um vottorð utan Schengen taka gildi 26. mars
Dómsmálaráðuneytið hefur birt breytingar á reglugerð um för yfir landamæri. Gildistaka breytinganna er 26. mars næstkomandi.
Reglugerðin kveður á um takmarkanir ónauðsynlegra ferðalaga yfir landamæri vegna Covid-19 faraldursins. Áfram eru verulegar takmarkanir á ferðalögum til landsins, en helsta breytingin snýr að því að farþegar utan Schengen sem geta framvísað vottorðum sem íslensk stjórnvöld telja gild um bólusetningu eða vottorð um fyrri sýkingu eru undanþegnir reglum um sóttkví, en sú regla hefur hingað til einungis gilt innan Schengen svæðisins.
Eins og fyrr segir tekur reglugerðin gildi 26. mars og er unnið að nánari skilgreiningu og kröfum um áreiðanleika bólusetningar- og vottorð um fyrri sýkingu í heilbrigðisráðuneyti eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis, auk þess sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur að reglum sem lúta að eftirlitsskyldu flugrekanda gagnvart þeim farþegum sem hyggja á för til landsins.