Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 202/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 202/2024

Miðvikudaginn 10. júlí 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. apríl 2024, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 3. apríl 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. apríl 2024, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hann hefði ekki starfað í að minnsta kosti 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann sætti viðurlögum á grundvelli 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. maí 2024. Með bréfi, dags. 23. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. júní 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi veikst í starfi hjá fyrrum vinnuveitanda sökum þess að yfirmaður fyrirtækisins hefði ekki farið eftir öryggisreglum með þeim afleiðingum að eldur hafi komið upp. Vitni hafi verið að atvikinu. Kærandi skilji ekki hvers vegna hann hafi verið beittur viðurlögum og hann hafi verið skilinn eftir án lífsviðurværis.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið skráður atvinnulaus á árunum 2022 og 2023. Þann 31. ágúst 2023 hafi kæranda verið synjað um frekari greiðslur atvinnuleysistrygginga á grundvelli 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þriðja brot kæranda hafi varðað 1. mgr. 59. gr. laganna og hafi verið vegna ótilkynntra tekna og vinnu samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Ákvörðun stofnunarinnar hafi verið kynnt kæranda með bréfi sama dag, þann 31. ágúst 2023. Áður hafi kærandi sætt viðurlagaákvörðun vegna þess að hann hefði ekki sinnt boðun í viðtal, á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, dags. 21.  mars 2023. Þá hafi kæranda verið gert að sæta þriggja mánaða bið eftir greiðslum þann 25. maí 2023 vegna starfsloka hans hjá B á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur þann 3. apríl 2024. Með bréfi. dags. 19. apríl 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað á grundvelli þess að kærandi hefði ekki starfað að lágmarki í 24 mánuði frá 31. ágúst 2023. Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á máli sínu með bréfi, mótteknu 7. maí 2024, og hafi kæranda verið send niðurstaða stofnunarinnar þann 15. maí 2024 þar sem fyrri ákvörðun hafi verið staðfest.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um  atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi ekki áunnið sér rétt á nýju bótatímabili í kjölfar viðurlagaákvarðana á grundvelli 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fjallað sé um ítrekunaráhrif í 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. ákvæðisins segi að sá sem hafi áður sætt viðurlögum samkvæmt 57. til 59. gr. laganna og eitthvert þeirra tilvika endurtaki sig á sama bótatímabili skuli önnur viðurlög vera þrír mánuðir. Í 4. mgr. 61. gr. laganna sé fjallað um ítrekunaráhrif þegar atvinnuleitandi sæti viðurlögum eða biðtíma í þriðja sinn. Í ákvæðinu segi:

„Endurtaki atvik sig sem lýst er í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili skv. 29. gr. skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um skilyrði þess að atvinnuleitandi samkvæmt lögunum geti öðlast nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. laganna áður en fyrra tímabili sé lokið. Samkvæmt orðalagi 4. mgr. 61. gr. laganna þurfi atvinnuleitandi að hafa starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann eigi rétt á greiðslum á ný. Ákvæði 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda. Hann eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Kærandi hafi sætt viðurlögum í þriðja sinn og niðurfellingu bótaréttar þann 31. ágúst 2023. Þegar hann hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur þann 3. apríl 2024 hefðu ekki verið liðnir 24 mánuðir frá því að viðurlagaákvörðun hafi verið birt kæranda. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. apríl 2024, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til þess að hann hefði ekki starfað í að minnsta kosti 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann sætti viðurlögum á grundvelli ákvörðunar stofnunarinnar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a. liður 3. gr. laganna.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2023, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar á grundvelli 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006.

Í 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 segir að endurtaki atvik sig sem lýst sé í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. Í því ákvæði kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Fyrir liggur að kæranda var synjað um frekari greiðslur atvinnuleysisbóta með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2023. Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá C í sjö mánuði frá því að hann sætti viðurlögum á grundvelli ákvörðunar stofnunarinnar. Þar sem kærandi hafði ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 3. apríl 2024, starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann sætti viðurlögum hafði hann ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. apríl 2024, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta