Hoppa yfir valmynd
19. mars 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 13. - 19. mars

Stefnumótun fyrir íslenska heilbrigðisnetið árin 2004 - 2006

Verkefnisstjórn íslenska heilbrigðisnetsins hefur sent frá sér tillögur að stefnumótun og aðgerðaáætlun íslenska heilbrigðisnetsins fyrir árin 2004 - 2006. Í stefnumótuninni kemur fram að stefnt sé að því að heilbrigðisnet verði komið í fullan rekstur fyrir árslok 2006, en það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004-2007 sem kynnt var á dögunum. Í skýrslunni er skilgreind framtíðarsýn heilbrigðisnetsins og meginhlutverk þess auk þess sem útskýrt er í stuttu máli hvað heilbrigðisnetið er, notkunarsvið þess og umhverfi. Lögð er fram aðgerðaáætlun um uppbyggingu heilbrigðisnets næstu þrjú árin og settar fram tillögur um fyrirkomulag rekstrar þess.
Stefnumótun... (pdf-skjal)
Viðauki - rekstraráætlun... (pdf.skjal)

Styrkir vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra hækkuðu um hálfan milljarð milli ára

Þann 1. janúar 2003 tók gildi reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins (TR) til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða og leysti af hólmi eldri reglur og reglugerðir um bifreiðakaupastyrki til fatlaðra. Með nýju reglugerðinni var m.a. gerð sú breyting að nema úr gildi takmörk um fjölda uppbóta og styrkja á ári, auk þess sem tekju- og eignatengingar voru afnumdar. Með þessu hefur verulega fjölgað þeim sem fá styrki eða uppbætur vegna bifreiðakaupa. Árið 2003 fengu tæplega 1300 einstaklingar slíka styrki eða uppbætur á móti um 500 árið áður. Árið 2002 samþykkti TR umsóknir um styrki og uppbætur vegna bifreiðakaupa fyrir rúmar 180 milljónir króna. Árið 2003 námu þessir styrkir hins vegar um 700 milljónum króna sem er um hálfs milljarðs króna hækkun frá fyrra ári. Frá þessu er sagt á heimasíðu TR.
Nánar...

Þróun fjarlækninga milli stofnana

Notkun fjarlækninga hefur þróast ört undanfarin ár í samskiptum heilbrigðisstofnana. Hingað til hefur einkum verið um að ræða sendingar til myndgreininga á milli stofnana, bæði til Landspítala – háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um samstarf heilbrigðisstofnana. Ráðherra sagði fylgst með þessari þróun af miklum áhuga í heilbrigðisráðuneytinu, enda megi telja víst að þetta geti stutt verulega við stofnanir úti á landsbyggðinni.  Ráðherra nefndi ýmis dæmi um samstarf Landspítala - háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Slíkt samstarf hafi verið á fjöldamörgum sviðum, m.a. á sviði mönnunar, þjónustu, almennrar ráðgjafar og annars stuðnings sem stofnanir hafa haft þörf fyrir.
Svar ráðherra... (pdf.skjal)

 

Námsstefna um RAI mælitækið

Gæði og umönnun á hjúkrunarheimilum er yfirskrift námsstefnu sem haldin veður á Hótel Loftleiðum 24. mars 2004. Fjallað verður um n otkunm gæðavísa og matslykla RAI mælitækisins í starfi. Námsstefnan hefst með skráningu kl. 12:45 og lýkur kl. 17:00.
Dagskrá... (word-skjal) 

 

Góðar fyrirmyndir – ráðstefna um málefni fatlaðra

Föstudaginn 26. mars heldur félagsmálaráðuneytið ráðstefnu um málefni fatlaðra sem ber yfirskriftina Góðar fyrirmyndir. Ráðstefnan er lokaviðburður í skipulagðri dagskrá Evrópuárs fatlaðra. Á ráðstefnunni verður fjallað um hæfingu, endurhæfingu vinnu og menntun. Virkni, tækni, aðgengi og samfélag. Fjölskyldu og heimili og lífstíl, heilbrigði og hollustu.

 

 

 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
19. mars 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta