Nr. 308/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 308/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20080016
Beiðni […] um endurupptöku
I. Málsatvik og málsmeðferð
Þann 16. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2019, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Gana um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. apríl 2020. Þann 27. apríl 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 187/2020, dags. 12. maí 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 25. ágúst 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku.
Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Ráða má af beiðni kæranda að hann byggi beiðni sína um endurupptöku á því að hann telji að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp í máli hans.
Fram kemur í beiðni kæranda um endurupptöku að kærandi hafi nú dvalið hér á landi í 15 mánuði og óski af þeim sökum eftir vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 16. apríl 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að hann hafi nú dvalið hér á landi í 15 mánuði. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við frumvarp til laga kemur fram að: „[þ]essi grein kveður á um heimild til að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða. Er hér um að ræða endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum.“
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. maí 2019. Úrskurður kærunefndar í máli kæranda var birtur fyrir honum þann 20. apríl 2020. Er því ljóst að málsmeðferðartími stjórnvalda í máli kæranda var um 11 mánuðir. Var máli kæranda því lokið á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem fram koma í ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af því leiðir að ljóst er að kærandi uppfyllir ekki skilyrði ákvæðis 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki hans hafi að öðru leyti breyst þannig að hægt sé að fallast á beiðni um endurupptöku af þeim sökum.
Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 16. apríl 2020 var birtur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Samantekt
Að framangreindu virtu ert það því mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.
Úrskurðarorð
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine the case is denied.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir