Hoppa yfir valmynd
21. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Staða aðgerða stjórnvalda gegn mansali og félagslegu undirboði

  - myndStjórnarráðið

Forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra kynntu sameiginlega stöðu aðgerða stjórnvalda gegn mansali og félagslegu undirboði á ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamningana var áréttað mikilvægi aðgerða gegn mansali og félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Aðgerðirnar lúta meðal annars að því að efla lagaumgjörðina og eftirlitsheimildir og að tryggja viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu.

Mansal heyrir að mestu leyti undir dómsmálaráðuneytið, ef frá er talin félagsþjónusta við þolendur og meinta þolendur mansals, en verkefni sem lúta að félagslegum undirboðum og brotum á vinnumarkaði heyra undir félagsmálaráðuneytið. Forsætisráðuneytið kemur að þessari vinnu í krafti forystu- og samhæfingarhlutverks síns og í samhengi við aðgerðir stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningum, en í yfirlýsingu þess efnis var skýrt kveðið á um aðgerðir gegn mansali, félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Meðal þess sem forsætisráðuneytið hefur haft forgöngu um er að óska eftir ráðgjöf frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Stofnunin hefur víðtæka reynslu af stefnumótun gegn mansali og alþjóðlega sérþekkingu á brotaflokknum sem mun nýtast stjórnvöldum þar sem mansal er alþjóðlegur vandi og oft tengt fjölþjóðlegum, skipulögðum glæpasamtökum.

Á vettvangi dómsmálaráðuneytisins er nú unnið að eftirfylgni með áhersluskjali stjórnvalda um aðgerðir gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Í tengslum við þá vinnu mun dómsmálaráðherra skipa samráðshóp sem verður í senn ætlaður til eftirfylgni með aðgerðum stjórnvalda gegn mansali og til frekari stefnumótunar eftir því sem þörf krefur. Auk viðeigandi ráðuneyta og ábyrgðaraðila einstakra aðgerða verður óskað eftir tilnefningum frá aðilum sem hafa innsýn, þekkingu og reynslu á þessu sviði, s.s. ASÍ, heildarsamtökum starfsmanna á opinberum vinnumarkaði, Samtökum atvinnulífsins, Reykjavíkurborg (velferðarsviði), Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Rauða krossi Íslands, Mannréttindaskrifstofu, Bjarkarhlíð og Stígamótum.

Samstarfshópur félags- og barnamálaráðherra um aðgerðir gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði skilaði skýrslu í janúar sl. þar sem tilgreind voru tíu lykilverkefni sem þyrfti að ráðast í. Félags- og barnamálaráðherra hefur falið Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi ráðherra sem leiddi vinnu samstarfshópsins, að hafa yfirumsjón með því að framfylgja aðgerðunum, sem og þeim aðgerðum sem snerta félagsleg undirboð í stuðningi stjórnvalda við lífskjarasamninga.

Ljóst er að þótt mansal annars vegar og brotastarfsemi á vinnumarkaði og félagsleg undirboð hins vegar séu eðlisólík viðfangsefni, þá er mikil skörun á milli málaflokkanna, sem og þeirra aðila sem eiga að sinna stefnumótun og eftirfylgni. Ráðuneytin munu vinna að því í sameiningu að tryggja samfellu milli þessara málaflokka svo nýta megi fjármagn og mannafla með sem bestu móti í því skyni að sporna gegn mansali, félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta