Heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum efld vegna aukins atvinnuleysis
Fjöldi fólks missti vinnuna við gjaldþrot flugfélagsins WOW og ljóst er að samfélagslegar afleiðingar af falli félagsins eru miklar á Suðurnesjum. Atvinnuleysi var mikið á Suðurnesjum um árabil en síðustu árin hafa einkennst af miklum uppgangi og örri fólksfjölgun. Þessum aðstæðum hefur fylgt margvísleg þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og kallað á umtalsverðan sveigjanleika til að mæta breytilegum þörfum.
Úttektir Embættis landlæknis á heilsugæsluþjónustu á Suðurnesjum hafa sýnt að hana þarf að bæta og Lýðheilsuvísar sem Embætti landlæknis birtir reglulega sýna að ýmsir þættir í daglegu lífi sem hafa áhrif á líðan og heilsu fólks eru óhagstæðari á Suðurnesjum en annars staðar á landinu.
Þar sem gera má ráð fyrir að aukið atvinnuleysi á Suðurnesjum hafi í för með sér aukna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á svæðinu óskaði ráðuneytið eftir ráðgjöf Embættis landlæknis og áliti stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á því hvaða þætti heilbrigðisþjónustu á svæðinu væri mikilvægast að efla. Á grunni þess lagði heilbrigðisráðherra tillögu fyrir ríkisstjórnina sem kveða á um aukna fjármuni til að efla þá þjónustuþætti sem stofnunin telur mikilvægasta.
Samkvæmt áherslum stofnunarinnar verður geð- og sálfélagsleg þjónusta efld með bættri mönnun og sömuleiðis skólaheilsugæslan og þjónusta mæðra- og ungbarnaverndar. Búist er að auknu álagi á slysa og bráðadeild þar sem þegar er skortur á læknum og hjúkrunarfræðingum og verður auknum fjármunum varið til að bregðast við því. Einnig verður áhersla lögð á að auka samstarf við félagsþjónustu sveitarfélaga á svæðinu, Vinnumálastofnun og VIRK vegna starfsendurhæfingar.