Fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu skilar árangri
Biðtími eftir sálfræðiþjónustu fyrir börn hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur styst um marga mánuði í kjölfar þess að fjármagn var aukið til að fjölga sálfræðingum í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum. Um þetta er fjallað í samantekt á vef stofnunarinnar.
Alþingi samþykkti vorið 2016 stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Þar er m.a. sett fram markmið um að fólk geti fengið meðferð og stuðning sálfræðinga á heilsugæslustöðvum vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíðaraskana. Í því skyni skuli ráðnir í meira mæli til heilsugæslunnar sálfræðingar með klíníska reynslu og þjálfun í gagnreyndri meðferð. Samkvæmt áætluninni er miðað við að aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 50% heilsugæslustöðva í árslok 2017 og á 90% heilsugæslustöðva í lok árs 2019.
Í samantekt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að með fjölgun sálfræðinga, aukinni áherslu á hópmeðferðir og skýrara verklagi hafi tekist að bæta aðgengi að þjónustunni til muna. Til að mynda hafi bið eftir því að komast með börn til sálfræðings verið allt að eitt ár hjá einstökum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en sé nú á bilinu tvær vikur upp í þrjá mánuði.
Námskeið og hópmeðferð
Hópmeðferð og námskeið eru liður í sálfræðiþjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fram kemur í samantekt stofnunarinnar að á tímabilinu september 2016 fram í maí á þessu ári hafi verið haldin 28 sex vikna löng námskeið byggð á hugrænni atferlismeðferð við þunglyndi og kvíða fyrir tæplega 600 fullorðna og unglinga, auk námskeiða fyrir börn með kvíðaeinkenni. Enn fremur hafi verið haldin námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður þar sem kennd voru undirstöðuatriði hugrænnar atferlismeðferðar ásamt fræðslu um geðvernd fyrir konur á meðgönguskeiði og eftir barnsburð.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur til þessa lagt áherslu á að bæta þjónustu við börn og unglinga að 18 ára aldri að því er fram kemur umfjölluninni. Næsta skref sé að auka sálfræðiþjónustu fyrir þá sem eldri eru, einkum aldurshópinn 18 – 30 ára þar sem brýn þörf sé á að geta boðið einstaklingsmeðferð. Ráðgert er að bæta við 2,8 stöðugildum sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfjuðborgarsvæðisins næsta haust.