Raforkubúnaður af ýmsu tagi til Úkraínu
Íslensk dreifi- og veitufyrirtæki hafa sent nauðsynlegan raforkubúnað af ýmsu tagi til Úkraínu. Með sendingunni er brugðist við þörf landsins fyrir ýmsan búnað sem mun nýtast til uppbyggingar á raforkukerfinu eftir árásir rússneska hersins.
Sendiráð Úkraínu gagnvart Íslandi óskaði eftir því við utanríkisráðuneytið í lok nóvember að Ísland aðstoðaði við að útvega nauðsynlegan raforkubúnaði til að bregðast við rafmagnsleysi vegna árása rússneska hersins á orkuinnviði. Utanríkisráðuneytið kannaði möguleikana á að verða við beiðni Úkraínu með því að setja sig í samband við m.a. Landsnet og Landsvirkjun. Í framhaldinu hófst vinna við að kortleggja hvaða búnaður væri til á Íslandi sem samræmdist þörfum Úkraínu. Landsnet hélt utan um verkefnið hér á landi í samstarfi við RARIK, Veitur, Norðurorka og HS Veitur og góðu samráði við utanríkisráðuneytið. Ráðuneytið hefur haldið utan um samskipti við stjórnvöld í Úkraínu og önnur samskipti í gegnum m.a. almannavarnakerfi Evrópusambandsins (ERCC).
„Árásir Rússlands á orkuinnviði í Úkraínu hafa sett samfélagið úr skorðum og bitnað hart á saklausum borgurum. Við höfum því talið mjög mikilvægt að leggja okkar af mörkum í þessum efnum og bregðast þannig við þörfum og óskum Úkraínumanna sjálfra. Rétt er að nefna að það er fyrst og fremst vilja Landsnets og flutnings- og dreifiveitna til að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu á raforkuinnviðum í Úkraínu að þakka að verkefnið hefur gengið eins vel og raun ber vitni,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
„Við tókum meðal annars saman varahluti sem vöntun er á í Úkraínu, búnað eins og rofa, varnarbúnað, spenna, varaafl og bíla sem hægt er að nota til viðgerða. Við hjá Landsneti erum stolt yfir að geta lagt eitthvað af mörkum til að byggja upp raforkuinnviði landsins og vonumst til að sendingin komi að góðum notum og veiti íbúum í landinu ljós“ segir Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets.
Til viðbótar við þennan stuðning á sviði orkumála hafa íslensk stjórnvöld lagt 1,5 milljónir bandaríkjadala í orkusjóð fyrir Úkraínu (Ukraine Energy Support Fund) á vegum evrópsks samstarfsvettvangs um orkumál (Energy Community).