Fréttaannáll háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis 2022
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hóf störf 1. febrúar 2022. Árið var viðburðaríkt í starfsemi nýs ráðuneytis en hlutverk þess er að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast við samþættingu háskóla, vísinda, rannsókna, iðnaðar, upplýsingasamfélags, hugverka, fjarskipta, netöryggis og nýsköpunar. Þar með skapast grundvöllur fyrir markvissari stefnumótun og stjórnsýslu á þessum sviðum með aukinn vöxt, verðmætasköpun og velsæld að markmiði.
Líkt og sjá má í meðfylgjandi annál var háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið ekki lengi að komast á fullt flug. Á vormánuðum voru framlög til rannsókna, þróunar og nýsköpunar hækkuð um rúmlega 30 ma.kr. í nýrri fjármálaáætlun. Vinna hófst við fyrstu aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í netöryggi sem kynnt var að hausti auk þess sem ný lög um fjarskipti voru samþykkt á Alþingi í júní. Þá var áframhaldandi stuðningur stjórnvalda við nýsköpun staðfestur í formi 35% endurgreiðslu skatta til rannsókna- og þróunarverkefna, en fjölbreytt íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa notið góðs af skattahvötum síðustu ár.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti megináherslur nýs ráðuneytis fyrir fullu húsi í Nýsköpunarvikunni sem fram fór í Grósku í maí, en hátt í 500 manns fylgdust með kynningunni. Ráðherra fjallaði þar m.a. um mikilvægi þess að fjölga stoðum samfélagsins til að tryggja að íbúar landsins búi áfram við ein bestu lífskjör í heimi. ,,Það þarf að styðja frekar við og efla mikilvægustu auðlind okkar Íslendinga; hugvitið,” sagði ráðherra. ,,Lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum er að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.”
Ráðherra kynnti einnig Fléttuna, styrki til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Mikill fjöldi umsókna barst og fljótt varð ljóst að mikill áhugi var á verkefninu. Í lok árs var átta verkefnum boðið að ganga til samninga um styrki. Styrkir úr Fléttunni verða einnig veittir árið 2023 og verður það auglýst síðar.
Í haust kynnti ráðherra einnig verkefnið Samstarf háskóla sem ætlað er að ýta undir öflugt samstarf íslensku háskólanna og þar með auka nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Allir háskólarnir sjö sóttu um styrki í verkefnið, en allt að einum milljarði króna verður veitt í styrki til samstarfsverkefna.
Greitt aðgengi að sérfræðiþekkingu var eitt af megináherslum ráðuneytisins á árinu sem leið. Í því samhengi voru fyrstu aðgerðir til að greiða leið alþjóðlegra sérfræðinga til landsins kynntar að hausti. ,,Ef okkur tekst að greiða aðgang að sérhæfðri þekkingu getum við aukið nýsköpun, hagvöxt, fjölgað störfum og aukið útflutningstekjur,” sagði Áslaug Arna af því tilefni.
Í byrjun sumars kvaddi ráðuneytið stimpilklukkuna, fyrst ráðuneyta. Þá hefur ráðuneytið einnig verið opið fyrir störfum án staðsetningar frá upphafi og sýndi ráðherra það í verki með því að staðsetja skrifstofu sína víðs vegar um landið á haustmánuðum. Á hverri starfsstöð ráðherra var öllum áhugasömum boðið í opna viðtalstíma með ráðherra og vakti það mikla lukku meðal fólks utan höfuðborgarsvæðisins að hafa aðgengi að ráðherra í sinni heimabyggð. Ráðherra heldur áfram að staðsetja skrifstofu sína á mismunandi stöðum um landið allt út kjörtímabilið.
Allar helstu fréttir af málefnasviðum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins árið 2022 má finna hér. Ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins óska öllum gleðilegs nýs árs og hlakka til að vinna áfram að markmiðum ráðuneytisins á nýju ári.