Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2010 Forsætisráðuneytið

A 327/2010. Úrskurður frá 28. janúar 2010

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 28. janúar 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-327/2010.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 21. janúar 2010, kærði [...] þá ákvörðun sveitarfélagsins Borgarbyggðar að synja honum um afhendingu afrita tölvupósta er fóru á milli [A] og [B] héraðsdómslögmanns og dagsettir eru 10. desember 2008 til 2. júní 2009.

Kærandi fór fram á það með bréfi til sveitarfélagsins Borgarbyggðar, dags. 20. desember 2009, að fá afrit þeirra gagna sem kæran lýtur að. [A] hafnaði afhendingu gagnanna með bréfi, dags. 27. desember 2009, þar sem eftirfarandi kom meðal annars fram:

,,Umbeðnir tölvupóstar voru hluti af þeim gögnum sem sendir voru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál í kjölfar kæru [C] hrl. eftir að Borgarbyggð hafnaði því að afhenda þér gögn er varða lóðarmál við [fasteign X] í Borgarnesi. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar er afrit af áðurnefndum tölvupóstum ekki meðal þeirra gagna sem Borgarbyggð bar að afhenda þér. Því er beiðni þinni um afrit af tölvupóstum undirritaðs og [B] hdl. frá 10.12 2008 og 02.06 2009 hafnað með hliðsjón af áðurnefndum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.“

 

Málsatvik og málsmeðferð

Forsaga máls þessa er sú að með bréfi, dags. 24. júlí 2009, kærði [C] hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd kæranda, þá ákvörðun sveitarfélagsins Borgarbyggðar, dags. 8. júlí 2009, að synja honum um aðgang að gögnum sem varpað geti ljósi á lóðarmörk sem kærandi telur að samið hafi verið um, enda væru þau gögn þýðingarmikil í dómsmáli nr. 180/2009 sem biði úrlausnar Hæstaréttar Íslands. Meðal þeirra gagna sem sveitarfélagið Borgarbyggð synjaði um afhendingu á eru þau gögn sem kæra þessi lýtur að.

Í niðurstöðum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-315/2009 sem kveðinn var upp 10. nóvember 2009 vegna fyrri kærunnar frá 24. júlí 2009 kemur eftirfarandi fram um þau gögn sem kæra þessi lýtur að:

,,Sveitarfélagið Borgarbyggð hefur, auk framangreinds, synjað kæranda um aðgang að nokkrum gögnum sem geyma upplýsingar um samskipti sveitarfélagsins Borgarbyggðar við [B] hdl. Þessi gögn lýsa annars vegar samskiptum lögmannsins og [A] vegna dómsmáls sem nú er rekið á milli sveitarfélagsins og kæranda máls þessa og tengjast ákvörðun sveitarfélagsins um eignarnám lóðarinnar að [fasteign X] í Borgarnesi. Hins vegar er um að ræða gögn sem tengjast máli því sem matsnefnd eignarnámsbóta hafði til meðferðar vegna ákvörðunar um eignarnámsbætur fyrir umrædda lóð og lokið var með ákvörðun matsnefndarinnar nr. 1/2008.

Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur réttur til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum segir um skýringu þessa ákvæðis að því til grundvallar liggi það sjónarmið að hið opinbera, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, geti leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar, sem þannig er aflað, komist til vitundar gagnaðila. Undanþágunni verði aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og hún taki því t.d. ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt.

Orðalag ákvæðisins og lögskýringargögn benda ekki til þess að gerð sé krafa um að umrædd bréfaskipti eigi sér stað eftir að dómsmál er höfðað eða beinlínis í tilefni af ákvörðun um að höfða eða taka til varna í slíku máli. Samkvæmt sjónarmiðum sem fram koma í bréfi umboðsmanns Alþingis frá 13. desember 2002, í máli nr. 3643/2002, sem lýtur að skýringu sambærilegs ákvæðis í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, og þeim athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga ber að skýra ákvæðið með það fyrir augum að tryggja jafnræði á milli aðila máls og viðkomandi stjórnvalds ef til dómsmáls kemur. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að nauðsynlegt sé að bréfaskipti stjórnvalds við sérfróðan aðila standi í beinum tengslum við mál sem þegar hefur verið höfðað eða þegar hefur verið tekin ákvörðun um að höfða. Undir undanþáguna falla einnig bréfaskipti sem til koma vegna könnunar stjórnvalds á réttarstöðu sinni í tengslum við nærliggjandi möguleika á slíkri málshöfðun, enda lúti þau ekki með beinum hætti að meðferð stjórnsýslumála, sbr. hér einnig úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-300/2009.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir fyrirliggjandi tölvupóstssamskipti [A] við [B] hdl. Lítur úrskurðarnefndin svo á að tölvupóstar sem fóru á milli [A] og [B] hdl. dags. 10. desember 2008 til 2. júní 2009 séu gögn sem varði fyrirliggjandi dómsmál og séu því undanþegin rétti kæranda til aðgangs skv. 2. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds verður sveitarfélaginu Borgarbyggð ekki gert að afhenda þá tölvupósta.“

Í fyrirliggjandi kæru, dags. 21. janúar 2010, er vísað til þess að máli nr. 180/2009 lauk með dómi Hæstaréttar Íslands frá 17. desember 2009 og því beri að afhenda kæranda umbeðin gögn.

Þar sem sveitarfélagið Borgarbyggð hefur fengið að koma að athugasemdum vegna fyrri synjunar þess á afhendingu umbeðinna gagna telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál óþarft að kynna sveitarfélaginu kæruna sérstaklega og gefa því færi á að koma að athugasemdum eins og nefndinni er heimilt að gera á grundvelli 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga.

 

Niðurstöður

Eins og fram hefur komið lýtur kæra máls þessa að synjun Borgarbyggðar um að afhenda kæranda tölvupósta er fóru á milli [A] og [B] héraðsdómslögmanns dagsettra 10. desember 2008 til 2. júní 2009. Synjun Borgarbyggðar á því að afhenda framangreind gögn staðfesti úrskurðarnefnd um upplýsingamál, með úrskurði nr. A-315/2009 sem kveðinn var upp 10. nóvember 2009.

Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, eins og fram kemur í niðurstöðum úrskurðar nr. A-315/2009 að framan, tekur réttur til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga á almenningur ekki rétt til aðgangs að gögnum sem falla undir 2. tölul. 4. gr. laganna fyrr en að þrjátíu árum liðnum frá því að þau urðu til. Af þessum sökum gildir undanþága á því að veita aðgang að gögnum samkvæmt 2. tölul. 4. gr. upplýsingalaga áfram enda þótt kveðinn hafi verið upp dómur í máli þar sem málsaðili hefur notfært sér þau gögn sem undanþágan nær til. Af þessum sökum ber að staðfesta synjun Borgarbyggðar á því að afhenda kæranda umbeðin gögn.

 

Úrskurðarorð

Synjun sveitarfélagsins Borgarbyggðar á því að afhenda [...] afrit tölvupósta sem fóru á milli [A]og [B] hdl. 10. desember 2008 til 2. júní 2009 er staðfest.

 

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 

                         Sigurveig Jónsdóttir                                           Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta