Hoppa yfir valmynd
25. mars 2010 Forsætisráðuneytið

A 333/2010. Úrskurður frá 25. mars 2010

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 25. mars 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-333/2010.

 

Kæruefni og málsatvik

Með tölvubréfi, dags. 2. mars 2010, kærði [...] þá ákvörðun flugráðs að synja beiðni hans um aðgang að afriti reiknings gefnum út af [A] vegna jólveislu flugráðs 17. desember 2009.

 Í synjun flugráðs um framangreindan aðgang, dags. 26. febrúar, kom eftirfarandi fram:

 Þú óskaðir eftir fyrir [...] afriti af reikningi vegna kvöldverðar Flugráðs 17. des. s.l. í [A]. Fjármáladeild Flugmálastjórnar sér um bókhald og fjársýslu fyrir Flugráð og kom ég beiðni þinni á framfæri við deildina. [X], deildarstjóri fjármáladeildar, hafði samband við [Y] hjá [A] og óskaði eftir afstöðu hans til afhendingar. Hann mælti gegn birtingu reikninga frá þeim í blöð en staðfesti upphæð reikningsins kr. 207.110 -. Niðurstaða fjármáladeildar Flugmálastjórnar er því að afhenda ekki afrit af reikningnum.

 Ég hef nú veitt allar þær upplýsingar um málið sem ég get og minni á nákvæmar skýringar sem ég hef áður gefið þér.

 

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst kæra máls þessa til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með tölvubréfi, dags. 2. mars sl. Í kærunni kemur eftirfarandi m.a. fram:

 „Hér með er óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál leggi fyrir Flugráð að afhenda afrit reiknings sem gefin var út af [A] vegna jólaveislu Flugráðs 17. desember 2009.

 Fyrst var óskað eftir þessum gögnum frá samgönguráðuneytinu 7. janúar sl. Eftir margítrekaðar óskir vísaði ráðuneytið á Flugmálastjórn og Flugráð með tveimur tölvupóstum sendum 16. febrúar. Föstudaginn 26. febrúar barst síðan meðfylgjandi svar frá [Z], formanni flugráðs. Kemur fram að umbeðin gögn verði ekki afhent þar sem starfsmaður hjá [A] hafi „mælt gegn birtingu gagna frá þeim í blöð.“ Þessi synjun á afhendingu gagnanna er hér með kærður til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

 Í ljósi þess hversu mjög samgönguráðuneytið og nefndar undirstofnanir þess hafa tafið afgreiðslu erindis [...] er vinsamlegast óskað eftir því að úrskurðarnefndin hraði meðferð málsins eins og unnt er. “

Kæran var send flugráði með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. mars, og því veittur frestur til að gera athugasamdir við kæruna til föstudagsins 12. mars. Með tölvubréfi, dags. 10. mars, fór flugráð fram á framlengingu frestsins og var hann framlengdur til 18. mars. Með bréfi, dags. 17. mars, bárust athugasemdir flugráðs vegna kærunnar ásamt eftirfarandi gögnum:

 

  1. Reikningur, dags. 18. desember 2009.
  2. Kassakvittun, dags. 17. desember 2009.
  3. Greiðsluseðill, dags. 18. desember 2009.

 

Í athugasemdum flugráðs kom eftirfarandi m.a fram:

 „Þann 17. desember sl. bauð formaður flugráðs fulltrúum ráðsins og þeim starfsmönnum stjórnsýslunnar sem vinna fyrir ráðið, ásamt mökum, til kvöldverðar í [A] á kostnað ráðsins. Formaður flugráðs vildi með þessum gjörningi þakka þeim fulltrúum og starfsmönnum ráðsins sem ekki fá greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir ráðið. Í flugráði sitja 6 fulltrúar og þar af þrír sem tilnefndir eru af samtökum atvinnulífsins og fá þeir ekki greitt sérstaklega fyrir setu í ráðinu. Kvöldverðarboðið átti sér stað í framhaldi af fundi flugráðs fimmtudaginn 17. desember sl. Tuttugu manns sátu kvöldverðarboðið og var heildarkostnaður þess kr. 207.110.

 

[...]

 Varðandi afhendingu á reikningi hafði formaður flugráðs samband við fjármáladeild Flugmálastjórnar Íslands sem sér um bókhald og fjársýslu fyrir flugráð. Vegna beiðni kæranda óskaði fjármáladeildin eftir afstöðu framkvæmdarstjóra veitingarstaðarins [A], [Y], til beiðni kæranda. Í tölvupósti, dags. 19. febrúar sl., svarar [Y] því að kærandi gæti ekki fengið reikninginn frá þeim og að þeir væru ekki vanir því að reikningar frá þeim væru settir í blöðin.

 Með tölvupósti til kæranda, dags. 26. febrúar sl., upplýsti formaður flugráðs um framangreinda afstöðu framkvæmdarstjóra veitingarstaðarins og þá niðurstöðu fjármáladeildar Flugmálastjórnar að afhenda bæri ekki afrit af umræddum reikningi.

 II. Krafa og rökstuðningur

 Krafist er að beiðni kæranda um afhendingu á umræddum reikningi verði hafnað á þeim grundvelli að umræddur reikningur falli ekki undir upplýsingalög sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Með hliðsjón af úrskurðum úrskurðarnefndarinnar (Sjá m.a. úrskurði A-169/1998 og A-75/1999) verður að telja að bókhaldsgögn og fylgiskjöl þess, þ.á.m. reikningur, falli undir lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989 ásamt síðari breytingum sbr. 3. mgr. 1. gr. Þá liggur fyrir að eindregin afstaða útgefanda umrædds reiknings um að ekki beri að afhenda reikninginn og því verður að telja með vísan til 5. gr. laga nr. 121/1989 að ekki sé heimilt að afhenda kæranda umræddan reikning.

 Fallist úrskurðarnefndin ekki á framangreindan rökstuðning verður að telja með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar (Sjá úrskurð A-128/2001 frá 6. september 2001) að aðili geti ekki fengið aðgang að umbeðnum reikningi nema ef um er að ræða beiðni frá aðila máls eða aðila sem hefur ótvírætt hagsmuni af því að fá umbeðinn aðgang sem vegi þyngra en hagsmunir þeirra sem vilja ekki birta viðkomandi gögn.

 Það er alveg ljóst að kærandi í því máli sem hér er til skoðunar getur hvorki talist aðili máls í skilningi 9. gr. upplýsingalaga né sýnt fram á ótvíræða eða mikilsverða hagsmuni af því að fá aðgang að umræddum reikningi. Auk þess liggur það fyrir að kærandi hefur fengið allar upplýsingar um málið sem hann hefur óskað eftir.

 Með vísan til framangreinds er gerð krafa um að beiðni kærandi verði hafnað.“

 Kæranda var með bréfi, dags. 19. mars, veittur frestur til föstudagsins 26. mars til að koma að frekari athugasemdum í málinu í ljósi svarbréfs flugráðs við bréfi úrskurðarnefndarinnar.

 Með tölvubréfi, dags. 22. mars, ítrekaði kærandi kröfur sínar og hafnaði alfarið rökstuðningi formanns flugráðs.  

 

Niðurstöður

1.

Eins og fram hefur komið hér að framan má samkvæmt gögnum málsins afmarka kæruna við eftirfarandi gögn:

 

  1. Reikningur, dags. 18. desember 2009.
  2. Kassakvittun, dags. 17. desember 2009.
  3. Greiðsluseðill, dags. 18. desember 2009.

 

2.

Kærði hefur vísað til þess að þau gögn sem kæran lýtur að fall ekki undir upplýsingalög nr. 50/1996 heldur eldri lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989.

 Við setningu upplýsingalaga var gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum afmarkað þannig í 2. mgr. 2. gr. laganna að þau tækju ekki til aðgangs „... að upplýsingum samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga“, nr. 121/1989, svonefndum tölvulögum. Lög nr. 121/1989 voru felld úr gildi með lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samhliða var ákvæðum upplýsingalaga breytt með lögum nr. 83/2000. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 83/2000 er tilurð frumvarpsins rakin og afmörkun upplýsingalaga gagnvart lögum nr. 121/1989 skýrð með þeim hætti að gildissvið upplýsingalaga hafi í megindráttum oltið á því hvernig gildissvið laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga hefði verið afmarkað. Hefðu mörkin „... verið dregin á þann hátt að gildandi lög um persónuupplýsingar taki til aðgangs að persónuupplýsingum í skrám sem færðar eru kerfisbundið en upplýsingalögin til persónuupplýsinga sem varðveittar eru á annan hátt. Hvort leyst er úr beiðni um aðgang að persónuupplýsingum eftir upplýsingalögum eða lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga hefur því í raun oltið á því á hvaða formi slíkar upplýsingar eru varðveittar.“ Tekið er fram að megintilgangur frumvarpsins sé sá að „... varðveitt verði sömu lagaskil og verið hafa milli þeirra laga og nýrra laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“ Þýðingu þessarar breytinga hefur nánar verið lýst í úrskurðum nefndarinnar, sbr. meðal annars úrskurðum í málum A-263/2007, A-260/2007, A-259/2007.

 Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið þau gögn sem bárust frá flugráði með umsögn þess í málinu. Um er að ræða reikning, kassakvittun og greiðsluseðil. Umrædd gögn innihalda ekki upplýsingar sem flokkast geta sem persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, sbr. 1. tölul. 2. gr. Reynir því í máli þessu ekki á gildissvið upplýsingalaga gagnvart almennari ákvæðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hér koma því aðeins upplýsingalögin til skoðunar.

 

3.

Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Hefur ákvæðið verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-294/2009 og A-299/2009.

 Flugráð hefur bent á að kærandi geti ekki talist aðili máls í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Á það fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál enda teljast tengsl kæranda við þau gögn sem hann hefur óskað aðgangs að, ekki fela í sér sérstaka hagsmuni hans umfram aðra þannig að hér sé um að ræða upplýsingar um hann sjálfan í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Kemur af þeirri ástæðu ekki til álita að afgreiða beiðni kæranda á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Ber samkvæmt því að leysa úr máli þessu á grundvelli II. kafla þeirra laga.

 

4.

Í 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur  gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“ Ákvörðun flugráðs um að halda framangreinda jólaveislu verður að telja mál í skilningi 1. máls. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Að mati kærunefndarinnar er hér um að ræða gögn í því máli sem hafi verið lokið með þeim hætti að reikningur fyrir veitingar var greiddur af flugráði. Verður þannig ekki litið á að þessi gögn séu einungis hluti af skrá stjórnvalds, s.s. bókhaldi, sem því væri hugsanlega óskylt að veita aðgang að samkvæmt upplýsingalögum. Af þessum ástæðum ber að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum, nema það sé óheimilt vegna takmarkana sem kveðið er á um í 5. gr. upplýsingalaga sem flugráð hefur borið fyrir sig.

 Ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 hljóðar svo í heild sinni: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Með vísan til þess og þá jafnframt með vísan til þess hvernig atvikum málsins er að öðru leyti háttað reynir í máli þessu einvörðungu á það álitaefni hvort kærða hafi verið heimilt að hafna afhendingu umbeðinna gagna með vísan til fyrrnefnds ákvæðis 5. gr. upplýsingalaga.

 Kærði hefur vísað til þess að framkvæmdarstjóri veitingarstaðarins [A] hafi lagst gegn því að kæranda yrðu afhent umrædd gögn. Þau gögn sem um ræðir er reikningur og greiðsluseðill þar sem fram koma upplýsingar um heildarverð jólaveislu flugráðs. Upplýsingar um heildarverð fyrir jólaveisluna hafa áður verið afhentar kæranda. Þá er um að ræða kasskvittun þar sem verð á einstökum vörum er sundurliðað, s.s. verð á jólahlaðborði, gosi, pilsner, léttvíni og kaffi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið umrædd gögn og fær ekki séð að þau geti varðað mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni veitingarstaðarins [A]. Af framangreindum ástæðum er ekki fallist á synjun flugráðs um afhendingu umræddra ganga.

 

 

Úrskurðarorð

Flugráði ber að afhenda kæranda,[...], afrit reiknings, dags. 18. desember 2009, kassakvittun, dags. 17. desember 2009 og greiðsluseðil, dags. 18. desember 2009.

 

 

 

 

Friðgeir Björnsson

formaður

 

 

 

 

            Sigurveig Jónsdóttir                                                                      Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta