Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2010 Forsætisráðuneytið

A 335/2010. Úrskurður frá 29. apríl 2010

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 29. apríl 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-335/2010.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 7. apríl sl., kærði [...] þá ákvörðun Sambands íslenskra sveitarfélaga að synja henni um upplýsingar um nöfn umsækjanda um starf sérfræðings í félagsþjónustu sveitarfélaga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og nöfn þeirra umsækjenda sem boðaðir voru í viðtal vegna starfsins.

 

Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fór fram á það með tölvubréfi til Sambands íslenskra sveitarfélaga að fá afrit þeirra gagna sem kæran lýtur að. Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði afhendingu gagnanna með bréfi, dags. 29. mars sl., þar sem eftirfarandi kemur meðal annars fram:

 „Í tölvubréfi þínu vísar þú til þess að þú sért að nýta þér lögbundin réttindi til aðgangs að þessum upplýsingum. Gerir undirritaður ráð fyrir að þú sért að vísa til ákvæða stjórnsýslulaga um aðgang aðila máls að upplýsingum, sbr. einkum 15. gr. laganna. Samband íslenskra sveitarfélaga er hins vegar ekki stjórnvald. Af þeirri ástæðu gilda ákvæði stjórnsýslulaga ekki um ráðningar í störf hjá sambandinu. Af sömu ástæðu eiga ákvæði upplýsingalaga um rétt almennings að upplýsingum ekki við um sambandið.

 Af framangreindum ástæðum er erindi þínu um upplýsingar um nöfn umsækjenda, hafnað.“

 Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki þörf á því að kynna Sambandi íslenskra sveitarfélagana kæruna sérstaklega þar sem röksemdir sambandsins voru taldar vera fyrir hendi í bréfi því sem laut að synjun afhendingar upplýsinganna, dags. 29. mars sl.

 

Niðurstöður

Eins og fram hefur komið lýtur kæra máls þess að synjun Sambands íslenskra sveitarfélaga á afhendingu upplýsinga um nöfn umsækjanda um starf sérfræðings í félagsþjónustu sveitarfélaga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og nöfn þeirra umsækjenda sem boðaðir voru í viðtal vegna starfsins. Kærandi var meðal umsækjenda um starfið.

 Í 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá taki lögin einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um réttindi eða skyldur manna.

 Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. laganna segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en þau lög taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

 Í 1. málslið 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þegar um er að ræða gögn sem varða ákvarðanir stjórnvalds um rétt eða skyldu manna, s.s. ákvarðanir þess um starfsumsóknir, fer um aðgang að þeim samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.

 Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til að taka til þess afstöðu hvort Samband íslenskra sveitarfélaga sé stjórnvald í skilningi upplýsingalaga nr. 50/1996 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nægilegt er, vegna þessa máls, að benda á að teljist sambandið stjórnvald þá lýtur réttur kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum 15. gr. stjórnsýslulaga. Málið teldist því ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, jafnvel þótt litið yrði á sambandið sem stjórnvald í skilningi upplýsingalaga. Kæru máls þessa ber því að vísa frá úrskurðarnefndinni.

 

 

Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [...] á hendur Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

 

 Friðgeir Björnsson

formaður

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta