Hoppa yfir valmynd
1. júní 2010 Forsætisráðuneytið

A-336/2010. Úrskurður frá 1. júní 2010

 ÚRSKURÐUR

 

Hinn 1.  júní 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-336/2010.

 

Kæruefni og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 11. janúar 2010 kærði [X] héraðsdómslögmaður, fyrir hönd [...], [bænum A] í Flóahreppi, synjun Landsvirkjunar á afhendingu afrita af öllum samningum sem Landsvirkjun hefur gert við eigendur landareigna við neðrihluta Þjórsár á áhrifasvæði þeirra þriggja virkjana sem þar eru fyrirhugaðar, og tengjast virkjunaráformunum með einum eða öðrum hætti.

 

Með bréfi til Landsvirkjunar, dags. 8. desember 2009, fór kærandi fram á afhendingu ofangreindra gagna. Í beiðninni kom fram að gagnanna væri óskað með vísan til ákvæða laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál.

 

Landsvirkjun synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 22. desember. Byggist synjunin fyrst og fremst á þeirri forsendu að Landsvirkjun falli ekki undir gildissvið laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, þar sem fyrirtækið starfi á samkeppnismarkaði. Er til þess vísað að samkvæmt 2. gr. laga nr. 23/2006 taki lögin til lögaðila sem falið hafi verið opinbert hlutverk eða að veita almenningi opinbera þjónustu og lúti opinberri stjórn. Landsvirkjun sé sameignarfyrirtæki sem sé í meirihlutaeigu ríkisins. Eftir gildistöku raforkulaga nr. 65/2003 starfi Landsvirkjun á samkeppnismarkaði og gegni þar af leiðandi ekki opinberu hlutverki né veiti opinbera þjónustu.

 

Í kæru málsins er áréttuð sú afstaða kæranda að Landsvirkjun falli undir gildissvið umræddra laga. Um þetta atriði segir þar m.a. svo:

 

„Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 gilda lögin um „lögaðila sem gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir 1. tölul. Lögaðili er talinn lúta opinberri stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. 1. tölul. tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum.“

 

Eins og sjá má í ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir árið 2008 gegnir Landsvirkjun mikilvægu opinberu hlutverki. Sér fyrirtækið m.a. um rekstur aflstöðva, undirbýr virkjunarframkvæmdir um allt land, borunarverkefni o.s.frv. Ríkissjóður á 99,9% eignarhluta í fyrirtækinu og skipar fjármálaráðherra alla fimm stjórnarmenn fyrirtækisins, sbr. 5. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun. Af framansögðu er ljóst að Landsvirkjun fellur undir gildissvið laga nr. 23/2006. Breytir engu um þá niðurstöðu að hluti af starfsemi Landsvirkjunar sé á samkeppnismarkaði eins og haldið er fram í fyrrgreindu bréfi Landsvirkjunar, dags. 22. desember 2009.“

 

Með bréfi, dags. 13. janúar 2010, var Landsvirkjun kynnt fram komin kæra. Greinargerð Landsvirkjunar vegna málsins barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 22. sama mánaðar. Þar krefst fyrirtækið þess aðallega að kröfu kæranda verði vísað frá. Um rökstuðning þeirrar kröfu er vísað til sömu röksemda og fram koma í upphaflegri synjun á kröfu kæranda.

 

Með bréfi, dags. 27. janúar 2010, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna greinargerðar Landsvirkjunar í málinu. Athugasemdir hans bárust með bréfi, dags. 5. febrúar. Þar segir m.a. svo:

 

„Landsvirkjun heldur því fram að hún falli ekki undir gildissvið laga nr. 23/2006, eins og það er markað í 1. mgr. 2. gr. laganna. Þetta stenst ekki að mati undirritaðs sé texti ákvæðisins skoðaður. Þannig gilda lögin í fyrsta lagi um „öll stjórnvöld sem falla undir gildissvið upplýsingalaga“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þau taka því til allra stjórnvalda í skilningi stjórnsýsluréttarins, hvort sem þau eru á vegum ríkis eða sveitarfélaga, sbr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þetta er vitaskuld stórt mengi aðila. Þar við bætist að lög nr. 23/2006 gilda ennfremur um tvo aðra flokka lögaðila, þ.e. sem falla utan hins stóra mengis 1. gr. upplýsingalaga. Hér er um að ræða:

 

1. „lögaðilar sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir 1. tölul.“, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, og

 

2. „lögaðila sem gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir 1. tölul. Lögaðili er talinn lúta opinberi stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. 1. tölul. tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum“, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna.

 

Ljóst er að samkvæmt orðanna hljóðan hlýtur Landsvirkjun að falla a.m.k. í þann flokk lögaðila sem greinir í 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þar nægir að annaðhvort gegni lögaðilinn „opinberu hlutverki“ eða veitir „opinbera þjónustu sem varðar umhverfið“. Þá þarf lögaðilinn í öllum tilvikum að „lúta stjórn“ þeirra stjórnvalda sem heyra til stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga. Ljóst liggur fyrir að Landsvirkjun gegnir „opinberu hlutverki“, enda er henni komið á fót með lögum frá Alþingi, sbr. lög nr. 42/1983 um Landsvirkjun með síðari breytingum, og markaður ákveðinn tilgangur, sbr. 2. gr. laganna. Þá liggur ennfremur ljóst fyrir að Landsvirkjun lýtur „stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir 1. tölul.“, enda skipar fjármálaráðherra alla fimm stjórnarmenn í Landsvirkjun, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 42/1983, þ.e. „meira en helming stjórnarmanna“, eins og töluliðurinn áskilur. Samkvæmt þessu liggur ljóst fyrir að Landsvirkjun fellur undir að vera lögaðili samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 og heyrir þar með undir gildissvið laganna.

 

Í umsögn Landsvirkjunar er ennfremur vísað til athugasemda við 2. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 23/2006, en þar segir m.a. að undir ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna falli t.d. „ekki orkuframleiðsla eða sala til notenda raforku, en þessi starfsemi [hafi] verið flutt úr rekstrarumhverfi hins opinbera yfir á almennan samkeppnismarkað samkvæmt ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003. Þessar athugasemdir geta engu breytt í málinu:

 

1. Í fyrsta lagi beinist krafa umbj. míns um aðgang að gögnum að samningum sem Landsvirkjun hefur gert við eigendur landareigna við neðri hluta Þjórsár á áhrifasvæði þeirra þriggja virkjana sem þar eru fyrirhugaðar. Þessir samningar varða ekki „orkuframleiðslu“ eða „sölu til notenda raforku“, eins og áskilið er að þeir þurfi að gera samkvæmt athugasemdunum, heldur önnur atriði, þ.e. ráðstafanir er tengjast m.a. vatns- og landsréttindum á þessum slóðum og varða því umhverfið með beinum hætti. Samningarnir tengjast því ekki þeirri starfsemi Landsvirkjunar sem athugasemdirnar gætu átt við.

 

2. Auk þess er það svo að texti í athugasemdum með lagafrumvörpum getur aldrei vikið til hliðar skýrum texta lagaákvæðanna sjálfra, en eins og að framan er rakið leiðir texti ákvæðis 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, sé hann lesinn eðlilegri orðskýringu, ótvírætt til þess að Landsvirkjun falli þar undir. Skýr texti lagaákvæðisins þokar þannig til hliðar sjónarmiðum sem fram koma í athugasemdum með lagaákvæðinu og kunna að fara á svig við orðalag ákvæðisins sjálfs skýrt eftir orðanna hljóðan.“

 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir afstöðu sinni. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ekki þörf á að rekja þær frekar, en nefndin hefur haft þær til hliðsjónar við uppkvaðningu úrskurðarins.

 

Niðurstaða

 

1.

Eins og fram er komið fór kærandi fram á það við Landsvirkjun með bréfi, dags. 8. desember 2009, að fyrirtækið afhenti honum afrit nánar tilgreindra samninga sem gerðir hefðu verið við eigendur landareigna við neðrihluta Þjórsár. Var beiðnin lögð fram með vísan til laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál. Landsvirkjun synjaði beiðni kæranda, m.a. á þeim grundvelli að fyrirtækið félli ekki undir gildissvið þeirra laga.

 

Heimild til að beina kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál byggir kærandi á 15. gr. laga nr. 23/2006, en samkvæmt henni er heimilt að bera synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurða skal um ágreininginn. Um meðferð slíkra mála gilda ákvæði 14. – 19. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

2.

Eins og rakið er hér að framan er í 2. gr. laga nr. 23/2006 skilgreint um hvaða aðila lögin gilda og segir þar:

 

„Lög þessi gilda um:

1. öll stjórnvöld sem falla undir gildissvið upplýsingalaga,

2. lögaðila sem falið hefur verið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir 1. tölul.,

3. lögaðila sem gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir 1. tölul. Lögaðili er talinn lúta opinberri stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. 1. tölul. tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum.

 

Einvörðungu upplýsingar sem til verða eða aflað er í tilefni af hinu opinbera hlutverki eða þjónustu þeirra sem ákvæði 2. og 3. tölul. 1. mgr. taka til falla undir lögin.

 

Lögin gilda ekki um Alþingi, umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun eða dómstóla.“

 

3.

Samkvæmt lögum nr. 42/1983 er Landsvirkjun sameignarfyrirtæki. Landsvirkjun telst samkvæmt því vera félag einkaréttarlegs eðlis, þrátt fyrir að vera í eigu hins opinbera. Af því leiðir ennfremur að Landsvirkjun telst ekki til stjórnvalda sem falla undir ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. til hliðsjónar úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum nr. A-8/1997 og A-24/1997 og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2440/1998. Af þessu leiðir ennfremur að Landsvirkjun telst ekki falla undir gildissvið laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga. Virðist heldur ekki um það atriði deilt í máli þessu. Hins vegar er sérstakt athugunarefni hvort Landsvirkjun falli undir gildissvið laganna á grundvelli þeirra reglna sem fram koma í 2. eða 3. tölul. nefnds ákvæðis.

 

4.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 falla þeir lögaðilar, þar á meðal einkaréttarleg félög, undir gildissvið laganna sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veita almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir 1. tölul.

 

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun er það tilgangur fyrirtækisins að stunda starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Í 3. gr. sömu laga segir ennfremur að Landsvirkjun sé eigandi raforkuvera, annarra mannvirkja, vatnsréttinda og búnaðar sem fyrirtækið hefur eignast fyrir setningu laganna eða með sérlögum eða samningum.

 

Með vísan til þessara lagaákvæða, svo og með vísan til þeirrar starfsemi sem fyrirtækið sinnir, verður á því að byggja að Landsvirkjun fari tvímælalaust með verkefni sem geti varðað umhverfið í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006. Á hinn bóginn er það skilyrði þess að lögaðili falli undir gildissvið laganna samkvæmt tilvitnuðu ákvæði að honum hafi í þessu sambandi verið falið „opinbert hlutverk“ eða að hann „[veiti] almenningi opinbera þjónustu“. Það er því grundvallaratriði í þessu sambandi hvert hlutverk Landsvirkjunar er að þessu leyti.

 

Sama afmörkun á gildissviði laga nr. 23/2006 kemur fram í 3. tölul. umræddrar lagagreinar, en þar segir að undir gildissvið laganna falli lögaðilar sem gegna „opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir 1. tölul.“

 

Ljóst er að Landsvirkjun lýtur stjórn stjórnvalds sem fellur undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006. Það atriði eitt og sér er hins vegar ekki nægjanlegt til þess að fyrirtækið falli undir gildissvið laganna, enda er það einnig skilyrði að viðkomandi lögaðli gegni „opinberu hlutverki“ eða „[veiti] opinbera þjónustu“.

 

Þá skiptir hér einnig máli að samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 falla einvörðungu þær upplýsingar undir lögin sem til verða eða aflað er í tilefni af hinu opinbera hlutverki eða þjónustu þeirra sem ákvæði 2. og 3. tölul. 1. mgr. taka til.

 

Landsvirkjun hefur krafist frávísunar á kæru máls þessa. Til þess að leysa úr þeirri kröfu verður að taka afstöðu til þess hvort þeir samningar sem kærandi hefur krafist aðgangs að feli í sér upplýsingar sem til hafa orðið eða aflað hefur verið í tilefni af opinberu hlutverki eða opinberri þjónustu sem Landsvirkjun sinnir í skilningi 2. eða 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006, sbr. 3. mgr. sama lagákvæðis.

 

5.

Í frumvarpi því sem síðan varð að lögum nr. 23/2006 segir m.a. svo um skýringu 3. tölul. 1. mgr. 2. gr.

 

„Í 3. tölul. greinarinnar kemur fram að lögin taki til lögaðila sem bera opinbera ábyrgð, gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lúta opinberri stjórn. Ákvæðið er í samræmi við c-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2003/4/EB. Undir ákvæðið falla einvörðungu aðilar sem hafa á hendi hlutverk eða þjónustu sem talist getur til opinberrar stjórnsýslu. Undir þetta ákvæði fellur því t.d. ekki orkuframleiðsla eða sala til notenda á raforku, en þessi starfsemi hefur verið flutt úr rekstrarumhverfi hins opinbera yfir á almennan samkeppnismarkað samkvæmt ákvæðum raforkulaga, nr. 65/2003. Annað mál er að upplýsingar um umhverfismál sem berast frá slíkum fyrirtækjum til stjórnvalda falla hins vegar undir frumvarpið, ef að lögum verður, og eru þá aðgengilegar hjá stjórnvöldum að svo miklu leyti sem undantekningarákvæði frumvarpsins eiga ekki við.“


Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að leggja sömu sjónarmið til grundvallar við skýringu á því hvað felst í orðum 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 um „opinbert hlutverk“ og veitingu opinberrar þjónustu.

 

Við skýringu framangreindra töluliða 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006 ber að hafa í huga að samkvæmt 16. gr. laganna eru þau sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Af þessu leiðir að við skýringu ákvæða laga nr. 23/2006 verður að líta til efnis umræddrar tilskipunar.

 

Í 1. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að markmið hennar séu þau annars vegar að tryggja rétt til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál sem opinber yfirvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, og að tilgreina grundvallarskilmála og -skilyrði og fyrirkomulag í tengslum við beiting þess réttar og hins vegar að smám saman verði talið sjálfsagt að upplýsingar um umhverfismál séu aðgengilegar og þeim verði miðlað til almennings þannig að kerfisbundinn aðgangur að þeim verði sem greiðastur og miðlunin verði sem víðtækust. Í 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar er gildissvið hugtaksins „opinbert yfirvald“ skilgreint nánar. Segir í c-lið þeirrar málsgreinar að til opinberra yfirvalda teljist sérhver einstaklingur og lögaðili sem ber opinbera ábyrgð, gegnir opinberu hlutverki eða veitir opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og fellur undir stjórn aðila eða einstaklings sem um getur í a- eða b-lið sömu málsgreinar.

 

Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB er ekki með skýrum hætti tekið af skarið um hvað teljist opinbert hlutverk eða opinber þjónusta. Hins vegar verður ekki séð að sú leið við skýringu laga nr. 23/2006 sem byggt er á í tilvitnuðum athugasemdum með frumvarpinu, að til opinbers hlutverks eða opinberrar þjónustu teljist í reynd þau viðfangsefni sem teljast til opinberrar stjórnsýslu, sé í ósamræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

 

Í 1. tölul. 1. gr. raforkulaga nr. 65/2003 kemur fram að markmið laganna sé að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að samkeppnislög gildi um atvinnustarfsemi sem lögin taki til. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna kemur fram að frumvarpið byggist á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem rutt hafi sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. Meginefni þeirra felist í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins (flutning og dreifingu) og þá þætti þar sem samkeppni verið við komið (vinnslu og sölu). Í hinum almennu athugasemdum kemur ennfremur fram að frumvarpið byggi „á því að öll vinnsla, flutningur, dreifing og sala á raforku verði rekin á einkaréttarlegum grundvelli. Ætlunin [sé] að vinnsla og sala á raforku verði rekin á samkeppnisgrundvelli í markaðskerfi með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Aftur á móti verði starfsemi þeirra fyrirtækja er annast flutning og dreifingu á raforku byggð á sérleyfi enda um náttúrulega einokun að ræða.“

 

Samhliða setningu raforkulaga nr. 65/2003 voru sett lög nr. 64/2003, um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði. Með 9. gr. síðarnefndu laganna var lögum nr. 23/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum, breytt. Í þeim breytingum fólst m.a. að úr lögum voru felld ákvæði um ýmsar sérstakar skyldur sem á Landsvirkjun hvíldu, m.a. um skyldu til að tryggja með öryggi raforku til ákveðinna þarfa og um gjaldskrá fyrirtækisins. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðan varð að lögum nr. 64/2003 kemur m.a. fram að í frumvarpi til raforkulaga sé m.a. lagt til að skapaðar verði forsendur til samkeppni í vinnslu og sölu raforku og orkufyrirtækjum verði gert skylt að halda aðgreindum reikningum fyrir samkeppnisstarfsemi annars vegar og einokunarstarfsemi hins vegar. Sé því gert ráð fyrir að öllum skyldum verði aflétt af Landsvirkjun og forréttindi fyrirtækisins falli niður.

 

Af framangreindu verður ráðið að tilgangur raforkulaga hafi m.a. verið sá að koma á samkeppni hér á landi við vinnslu og sölu raforku. Þá verður ekki fram hjá því litið að í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 23/2006 er án fyrirvara vísað til raforkulaga og á því byggt að ákvæði þeirra leiði til þess að undir opinbert hlutverk eða þjónustu í skilningi 2. mgr. 2. gr. laganna falli ekki framleiðsla á raforku. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki fært að túlka ákvæði laga nr. 23/2006 svo rúmt að vikið verði frá þessari skýru afmörkun á gildissviði þeirra, enda verður að hennar mati ekki talið að hún sé í sjálfu sér í andstöðu við ákvæði laganna sjálfra, eða ákvæði þeirrar tilskipunar sem lögunum var ætlað að innleiða.

 

Með vísan til þessa verður ekki talið að upplýsingar sem fyrir liggja hjá fyrirtækinu Landsvirkjun og lúta með beinum hætti að raforkuvinnslu falli undir gildissvið laga nr. 23/2006, enda tengjast slíkar upplýsingar ekki opinberu hlutverki eða opinberri þjónustu í skilningi 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna.

 

 6.

Eins og fram er komið er kæra máls þessa byggð á 15. gr. laga nr. 23/2006. Þar kemur fram að heimilt sé að bera synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn.

 

Þeir samningar sem kærandi hefur óskað aðgangs að eru samningar Landsvirkjunar við eigendur landareigna við neðrihluta Þjórsár á áhrifasvæði þeirra þriggja virkjana sem þar eru fyrirhugaðar, og tengjast virkjunaráformum með einum eða öðrum hætti.

 

Fyrir liggur að þær virkjanir sem kærandi vísar til í kæru sinni eru vatnsaflsvirkjanir til framleiðslu á raforku. Eins og kærandi hefur afmarkað beiðni sína um aðgang að gögnum er henni því einvörðungu beint að upplýsingum sem með beinum hætti lúta að raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Eins og rakið hefur verið hér að framan teljast slíkar upplýsingar ekki til upplýsinga sem til verða eða aflað hefur verið í tilefni af opinberu hlutverki eða þjónustu fyrirtækisins. Með vísan til 2. gr. laga nr. 23/2006 fellur beiðni kæranda ekki undir ákvæði þeirra laga. Er því óhjákvæmilegt að vísa kæru máls þessa frá.

 

Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [X] héraðsdómslögmanns, fyrir hönd [...], [bænum A] í Flóahreppi, vegna synjunar Landsvirkjunar á afhendingu afrita af öllum samningum sem Landsvirkjun hefur gert við eigendur landareigna við neðrihluta Þjórsár á áhrifasvæði þeirra þriggja virkjana sem þar eru fyrirhugaðar, og tengjast virkjunaráformunum með einum eða öðrum hætti.

 

 Friðgeir Björnsson formaður

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                  Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta