Hoppa yfir valmynd
1. september 2010 Forsætisráðuneytið

A-343/2010. Úrskurður frá 1. september 2010

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 1. september 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-343/2010.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 6. júlí 2010, kærði [X] hrl., f.h. dætra [Y], fæddur 28. desember 1939 og látinn 21. júní 1988, ákvörðun Reykjavíkurborgar, Borgarskjalasafns Reykjavíkur, að synja um aðgang að gögnum er varða barnaverndarmál föður þeirra og vistun hans á vistheimilinu [A].

 

Í synjun Reykjavíkurborgar, dags. 5. júlí, kemur fram að í ljósi laga nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 sé talið rétt að veita aðgang að upplýsingum um hvort og hvenær umræddur einstaklingur var vistaður á vistheimilinu [A]. Þá kemur eftirfarandi m.a. fram í bréfinu:

 

„Í gögnum máls [Y] kemur fram í fundargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur að hann fór á vistheimilið [A] 29. mars 1954. Í fundargerð nefndarinnar 21. september 1955 óska foreldrar [Y] eftir að fá hann heim og átti hann þá að fara í iðnnám. Í fundargerð kemur ekki fram hvernig málið er afgreitt en í spjaldskrá nefndarinnar kemur fram að barnaverndarnefnd sé því ekki samþykk. Engar frekari færslur finnast um hann eftir þennan tíma en fram kemur í íbúaskrá Reykjavíkur 1. desember 1955 að [Y] er þá skráður til heimilis hjá foreldrum sínum.“

 

Hins vegar var því hafnað af hálfu borgarinnar að veita aðgang að gögnum málsins. Byggist sú afstaða f.o.f. á 5. gr. upplýsingalaga þar sem gögnin voru talin lúta að einkamálefnum [Y] sjálfs. Ekki var talið að fyrir hendi væru hagsmunir umbjóðenda kæranda sem réttlætt gætu aðgang að umbeðnum gögnum. 

 

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 6. júlí 2010. 

 

Kæran var send Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 7. júlí. Var Reykjavíkurborg veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 16. þess mánaðar og bárust þær þann dag. Í athugasemdunum kemur m.a. fram að um sé að ræða viðkvæman málaflokk. Meta þurfi hvort vegi þyngra fjárhagslegir hagsmunir lögerfingja að fá afhent barnaverndarmál viðkomandi til að nýta sem rökstuðning fyrir kröfu um sanngirnisbætur eða þagnarskylda yfirvalda við hinn látna um viðkvæm einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Þá kemur fram að í bréfi kæranda séu engar röksemdir færðar fyrir því að umbjóðendur hans þurfi að fá afhent öll gögn um barnaverndarmál föður þeirra. Ef ástæðan sé umsókn um sanngirnisbætur, ættu þær upplýsingar sem kærandi fékk varðandi vistheimilisdvöl að nægja til að lýsa kröfum fyrir sýslumanni. Það sé síðan sýslumanns að kalla eftir nauðsynlegum gögnum. Hafa verði í huga að ekkert í gögnum málsins varpi ljósi á það hvort skilyrði fyrir greiðslu sanngirnisbóta séu fyrir hendi. Hafi þau skjöl sem hér um ræðir enga úrslitaþýðingu fyrir kæranda hvað erfðarétt varði. Ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta, umfram aðra, sem gæti mögulega réttlætt aðgang þeirra að gögnum málsins s.s. vegna aðilastöðu á grundvelli 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Einnig kemur fram í athugasemdunum að telji úrskurðarnefndin að leysa eigi úr málinu á grundvelli III. kafla upplýsingalaga, um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan, beri að hafna aðgangi á grundvelli 3. mgr. 9. gr. laganna.

 

Með bréfi sínu afhenti Reykjavíkurborg nefndinni fundargerðir barnaverndarnefndar Reykjavíkur, afrit spjaldskrár barnaverndarnefndarinnar, lögregluskýrslur sendar barnaverndarnefnd af Sakadómaranum í Reykjavík og yfirlit yfir vistmenn á vistheimilinu [A] tímabilið 1952-1954.  

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júlí, voru kæranda afhentar athugasemdir Reykjavíkurborgar og þess óskað að teldi hann tilefni til að koma að frekari athugasemdum við kæruna yrði það gert fyrir 26. júlí. Bárust athugasemdir hans 22. þess sama mánaðar. Í athugasemdum kæranda kemur m.a. fram að dætur [Y] teljist aðilar máls í skilningi III. kafla upplýsingalaga og eigi því rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varði föður þeirra, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Þá kemur einnig fram að þótt sýslumaður geti sjálfstætt kallað eftir gögnum eigi það ekki að koma í veg fyrir að aðili geti sjálfur kallað eftir gögnum er málið varði.

 

Niðurstöður

1.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita aðila aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Samkvæmt 3. gr. sömu laga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna.

 

Sé litið til orðalags 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga virðist í ákvæðinu gert ráð fyrir að þau gögn sem um er beðið þurfi að innihalda upplýsingar sem beinlínis lúta að viðkomandi aðila sjálfum. Að túlkun þessa ákvæðis hefur verið vikið í nokkrum úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. úrskurði í málum A-21/1997, A-56/1998, A-106/2000, A-182/2004, A-283/2008 og A-294/2009. Í athugasemdum með 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að ákvæðið sé byggt á áður óskráðri meginreglu um rétt einstaklinga til aðgangs að gögnum sem  séu í vörslu stjórnvalda og varði þá sérstaklega, enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Með vísan til þessa hefur úrskurðarnefndin skýrt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi einstaklega hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum. Ber þó að hafa í huga, sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. október 2000, í máli nr. 330/2000, að mikilvægt er að gera skýran greinarmun á upplýsingarétti almennings skv. II. kafla upplýsingalaga og upplýsingarétti aðila skv. III. kafla laganna. Hinn ríki réttur aðila sjálfs til aðgangs að gögnum samkvæmt III. kafla laganna er undantekning frá hinni almennu reglu í II. kafla þeirra um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Því verður að vera hafið yfir vafa að sá sem fer fram á aðgang að gögnum teljist aðili í skilningi 9. gr. upplýsingalaga svo að leyst verði úr beiðni hans á grundvelli þeirrar greinar.

 

2.

Kærandi hefur lýst því að umbjóðendur hans séu lögerfingjar [Y] sbr. 2. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og þurfi á umræddum gögnum að halda vegna kröfu um bætur á grundvelli laga nr. 47/2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. Í 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 47/2010 kemur fram að hafi tjónþoli fallið frá áður en honum var unnt að lýsa kröfu erfist krafan til eftirlifandi barna sem geta hvert um sig eða sameiginlega framfylgt henni.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þau gögn sem Reykjavíkurborg hefur afhent nefndinni. Um er að ræða fundargerðir barnaverndarnefndar Reykjavíkur, afrit spjaldskrár barnaverndarnefndarinnar, lögregluskýrslur sendar barnaverndarnefnd af Sakadómaranum í Reykjavík og yfirlit yfir vistmenn á vistheimilinu [A] tímabilið 1952-1954. Gögnin innihalda upplýsingar um föður umbjóðenda kæranda ásamt upplýsingum um aðra drengi sem bæði lögregla og barnaverndaryfirvöld höfðu afskipti af.   

 

Úrskurðarnefndin telur að líta verði svo á að umbjóðendur kæranda hafi sem lögerfingjar föður síns, [Y], lögvarða hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að gögnum sem varpað geta ljósi á dvöl hans á vistheimilinu [A]. Um aðgang þeirra að þeim gögnum málsins sem innihalda slíkar upplýsingar fer því að ákvæði 9. gr. upplýsingalaga. Að öðru leyti fer um aðgang umbjóðenda kærenda að umbeðnum gögnum eftir ákvæði 3. gr. sömu laga, um rétt almennings til aðgangs að gögnum.

 

Þrjú af þeim gögnum sem Reykjavíkurborg hefur afhent úrskurðarnefndinni geta talist varpa ljósi, eða mögulegu ljósi, á dvöl [Y] á vistheimilinu [A]. Í fyrsta lagi er það fundargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur, dags. 31. mars 1954. Þar kemur fram að [Y] hafi farið til [A] 29. mars sama ár. Í öðru lagi fundargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 21. september 1955, þar sem fram kemur ósk foreldra hans um heimkomu [Y]. Í fundargerðinni kemur ekki fram afgreiðsla erindisins. Í þriðja lagi afrit af spjaldi úr spjaldskrá sömu nefndar þar sem fram kemur að barnaverndarnefnd sé ekki samþykk heimkomunni og vísun til gerðabókar nefndarinnar nr. VI 128.

 

Þessi gögn varpa ljósi á tímalengd dvalar [Y] að [A]. Af þeirri ástæðu hafa umbjóðendur kærða beina og sérstaka hagsmuni, umfram aðra, af því að kynna sér þær upplýsingar sem í þeim koma fram.

 

Í 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum. Í 5. mgr. ákvæðisins segir ennfremur að ákvæði 3., 7. og 8. gr. gildi, eftir  því sem við getur átt um aðgang aðila að gögnum skv. 9. gr. laganna.

 

Þegar litið er til fyrrnefndra þriggja gagna er ljóst að megininnihald þeirra, að undanskildu afriti úr spjaldskrá, lýtur að einkahögum annarra en [Y]. Upplýsingar sem þar er um að ræða lúta að afskiptum barnaverndaryfirvalda af tilgreindum einstaklingum. Í ljósi þess að umbjóðendur kæranda hafa þegar fengið í hendur upplýsingar sem fram koma í umræddum gögnum og varða dvöl [Y] á dvalarheimilinu að [A], telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að það beri að hafna aðgangi kæranda að gögnunum með vísan til einkahagsmuna annarra, sbr. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Upplýsingar um [Y] koma að auki fram í svo litlum hluta umræddra skjala að ekki verður talin ástæða til að veita aðgang að hluta þeirra á grundvelli ákvæðis 7. gr. upplýsingalaga. Hins vegar ber að afhenda kæranda afrit af spjaldi úr spjaldskrá barnaverndarnefndar Reykjavíkur, og nefnt var hér að framan.

 

Önnur gögn málsins sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur undir höndum lúta ekki að dvöl [Y] á vistheimilinu [A] heldur að aðdraganda þess að hann var sendur á vistheimilið [A] auk yfirlita yfir vistmenn á vistheimilinu [A] árin 1952-1954. Þau gögn skipta því ekki máli um bótarétt samkvæmt lögum nr. 47/2010. Um aðgang umbjóðenda kærðu að þeim fer því eftir ákvæði 3. gr. upplýsingalaga, um rétt almennings til aðgangs að gögnum.

 

Réttur almennings til aðgangs að gögnum sætir ákveðnum takmörkunum. Í 5. gr. upplýsingalaga kemur þannig fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið gögn málsins með ítarlegum hætti. Þar er að finna upplýsingar um afskipti lögreglu annars vegar og barnarverndarnefndar Reykjavíkur hins vegar af málefnum [Y], auk upplýsinga um sambærileg afskipti stjórnvalda af nokkrum fjölda annarra einstaklinga. Þessar upplýsingar eru þess eðlis að það telst sanngjarnt og eðlilegt að þær fari leynt gagnvart almenningi, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Ber því að staðfesta synjun Reykjavíkurborgar á aðgangi að gögnum að því leyti.

 

Tekið skal fram að í 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 47/2010 kemur fram að um aðgang að gögnum í vörslu vistheimilisnefndar og annarra stjórnvalda varðandi kröfu um bætur á grundvelli erfðaréttar fari samkvæmt ákvæðum 5. og 8. gr. sömu laga. Þau tvö lagaákvæði fjalla um gagnaöflun og upplýsingarétt sýslumanns annars vegar og úrskurðarnefndar um bætur samkvæmt lögum nr. 47/2010 hins vegar. Það er fyrst þegar viðkomandi stjórnvöld hafa aflað þeirra gagna sem um getur verið að ræða sem aðgangsréttur samkvæmt þessu ákvæði verður virkur, og þá í tengslum við meðferð þeirra á einstökum bótamálum. Í máli þessu er ekki deilt um skyldu sýslumanns, eða úrskurðarnefndar til afhendingar gagna samkvæmt lögum nr. 47/2010. Umrædd ákvæði hafa því ekki þýðingu um niðurstöðu þessa máls.

 

3.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er að staðfest er synjun Reykjavíkurborgar, Borgarskjalasafns Reykjavíkur, á afhendingu ganga í fórum safnsins sem varða barnaverndarmál og vistun [Y] á vistheimilinu [A], að því undanskildu að Reykjavíkurborg ber að afhenda kæranda afrit af áðurnefndu spjaldi úr spjaldskrá barnaverndarnefndar Reykjavíkur, þar sem fram kemur nafn [Y] og vísun til gerðarbókar nr. VI 128.

 

 

 

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Reykjavíkurborgar, Borgarskjalasafns Reykjavíkur, um aðgang [X] hrl. f.h. dætra [Y] að gögnum er varða barnaverndarmál hans og vistun hans á vistheimilinu [A], að því undanskildu að Reykjavíkurborg ber að afhenda kæranda afrit af spjaldi úr spjaldskrá barnaverndarnefndar Reykjavíkur, þar sem fram kemur nafn [Y] og vísun til gerðabókar nefndarinnar nr. VI 128.

 

 

 Friðgeir Björnsson

formaður

 

               Sigurveig Jónsdóttir                                                                   Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta