Hoppa yfir valmynd
15. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. september 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 50/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, var samþykktur af Vinnumálastofnun með 83% bótarétt í kjölfar þess að hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. desember 2008. Hann fór þess á leit við Vinnumálastofnun þann 1. mars 2010 að bótaréttur hans yrði endurmetinn á grundvelli gagna vegna fyrirtækisins X ehf. Bótaréttur kæranda var samþykktur í 100% frá þeim degi. Kærandi óskaði ekki formlega eftir leiðréttingu aftur í tímann hjá Vinnumálastofnun en kom slíkri beiðni fyrst á framfæri í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hann óskar að fá greiddan mismuninn á bótunum upp að 100% frá 1. desember 2008. Vinnumálastofnun hafnar kröfu kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. desember 2008. Umsókn kæranda var samþykkt með 83% bótarétti í samræmi við gögn málsins og fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt því. Kærandi gerði engar athugasemdir við reiknað atvinnuleysisbótahlutfall sitt fyrr en 1. mars 2010 þegar hann kom með gögn vegna fyrirtækisins X ehf. og vildi láta endurmeta bótarétt sinn. Bótaréttur hans var þá samþykktur í 100% frá þeim degi er gögn bárust Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun kveðst, í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, leiðrétta bótahlutfall atvinnuleitenda aftur til dagsetningar umsókna ef beiðni um hækkun á bótarétti berst innan þriggja mánaða frá umsókn. Berist slíkt ekki innan þess tíma sé miðað við þann dag er beiðni um endurskoðun er móttekin. Það hafi verið gert í máli þessu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er bent á að í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að með umsókn um atvinnuleysisbætur skuli fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda. Enn fremur sé ítrekað í 3. mgr. 9. gr. laganna að skylda hvíli á þeim sem teljist tryggðir að upplýsa Vinnumálastofnun um allt það sem kunni að hafa áhrif á réttinn til atvinnuleysisbóta. Í 15. og 16. gr. laganna komi skýrt fram nauðsyn þess að skila inn áðurnefndum upplýsingum. Forsenda fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að umsækjandi skili viðeigandi gögnum og af 9. gr. laganna megi draga þá ályktun að nauðsynlegt sé að þessar upplýsingar berist sem fyrst samhliða umsókninni sjálfri.

Vinnumálastofnun bendir á að á umsækjanda um atvinnuleysisbætur hvíli rík skylda til að upplýsa Vinnumálastofnun um allt það sem geti komið til greina við ákvörðun á rétti hans til atvinnuleysisbóta og sé skýrt kveðið á um þessa skyldu í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af gögnum málsins megi ráða að kærandi bjó yfir þeim upplýsingum að hann hafi unnið hjá fyrirtækinu X ehf. á tímabilinu frá mars 2007 til janúar 2008 áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Hafi hann átt auðvelt með að nálgast til dæmis iðgjaldaupplýsingar eða önnur sambærileg gögn til að sýna fram á starfið sem hann hafi gegnt á tímabilinu og hefðu þessar upplýsingar því átt að fylgja með umsókn hans til atvinnuleysisbóta. Það sé á ábyrgð kæranda að gæta þess að réttar upplýsingar berist stofnuninni og tómlæti í þeim efnum geti haft í för með sér hlutfallsleg missi réttinda þann tíma.

Frestur aðila til að krefja stjórnvald um endurupptöku máls sé þrír mánuðir frá því að ákvörðun var kynnt aðila eða frá því að aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun var byggð á. Af þessu megi sjá að beiðni aðila hefði átt að koma fram 1. mars 2009. Ársfresturinn sem veittur sé ef veigamiklar ástæður mæli með því reiknist frá sama tíma, þ.e. þegar aðili sótti um atvinnuleysisbætur. Tímafrestir þeir sem veittir séu í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, séu því liðnir.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. ágúst 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. ágúst 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. desember 2008 og var umsóknin samþykkt. Á grundvelli þeirra gagna sem kærandi lagði fram, sbr. 9. og 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, var bótahlutfall hans ákveðið 83%. Hinn 1. mars 2010 gerði kærandi athugasemdir við bótahlutfall sitt og hefur hann síðan þá fengið greiddar 100% atvinnuleysisbætur. Í máli þessu krefst hann þess að hann fái greiddar 100% atvinnuleysisbætur frá og með 1. desember 2008 til loka febrúar 2010 en þessu hafnaði Vinnumálastofnun með hinni kærðu ákvörðun. Hin kærða ákvörðun er reist á að Vinnumálastofnun telur sig hvorki geta afturkallað ákvörðun sína frá því í desember 2008 né heldur tekið málið upp.

Stjórnvald getur afturkallað mál að eigin frumkvæði, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Almenna reglan er sú að afturköllun máls getur ekki orðið að veruleika fyrir frumkvæði annarra en stjórnvalda. Frá þessu er hægt að víkja með sérlagaákvæðum eða á grundvelli ólögfestra reglna. Slíkt á ekki við í þessu máli. Því gildir 25. gr. stjórnsýslulaga við úrlausn á því hvort að afturkalla eigi þá ákvörðun sem tekin var í desember 2008 í máli kæranda.

Ljóst er að Vinnumálastofnun telur ekki forsendur til að afturkalla hina fyrri ákvörðun sína í máli kæranda. Ekki er ástæða til að gera athugasemdir við þá afstöðu Vinnumálastofnunar, meðal annars vegna þess að það er umsækjanda um atvinnuleysisbætur að sjá til þess að upplýsingar um fyrri störf þeirra liggi fyrir áður en afstaða er tekin til umsókna þeirra. Því standa ekki rök til þess að úrskurðarnefndin afturkalli ákvörðun Vinnumálastofnunar frá því í desember 2008.

Að vissum skilyrðum uppfylltum getur stjórnvald tekið mál upp aftur, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þessi regla á þó ekki við tilteknar aðstæður, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í því ákvæði er meðal annars kveðið á um að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að stjórnvaldsákvörðun var tekin nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þessi regla á auðsýnilega við um mál kæranda.

Með vísan til þeirra röksemda sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir afstöðu sinni þá verður að fallast á að ekki séu veigamiklar ástæður fyrir hendi að taka upp mál kæranda. Því verður hin kærða ákvörðun staðfest að þessu leyti, þ.e. kröfu kæranda er hafnað um að hann eigi 100% bótarétt frá 1. desember 2008 til febrúarloka 2010.

 

Úrskurðarorð

Staðfestur er sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar að hafna greiðslu 100% atvinnuleysisbóta til A fyrir tímabilið 1. desember 2008 til 28. febrúar 2010.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta