Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar
Niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar um menntun án aðgreiningar á Íslandi var kynnt í Safnahúsinu í dag. Úttektin nær til leik-, grunn-, og framhaldsskólastiga þar sem kannað er hvernig til hefur tekist við innleiðingu hugmyndafræðinnar um menntun án aðgreiningar. Aldrei hefur áður verið gerð jafn heildstæð úttekt sameiginlega fyrir þessi þrjú skólastig.
Úttektin náði til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins, þ.e. til nemenda og fjölskyldna þeirra, starfsfólks skóla, skólaþjónustu og stoðþjónustu hvers konar, rekstraraðila skóla, samtaka kennara, kennaramenntunarstofnana og ráðuneyta.
Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.
Núverandi löggjöf og stefnumótun felur í sér stuðning við markmið og áherslur stefnu um menntun án aðgreiningar
Í úttektinni koma fram athyglisverðar niðurstöður, t.d. að núverandi löggjöf og stefnumótun fræðsluyfirvalda felur í sér stuðning við markmið og áherslur skólakerfis án aðgreiningar og eru í samræmi við alþjóðlega sáttmála og samninga sem Íslendingar hafa undirgengist. Samstaða er um þessi markmið og áherslur meðal þeirra sem sinna menntamálum og á öllum stigum skólakerfisins en þörf sé á skýrari leiðsögn um hvernig standa ber að því að hrinda stefnunni í framkvæmd. Af öðrum niðurstöðum má nefna að nokkuð er um að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar. Þá kemur fram að flestir þeirra sem sinna menntamálum, á hvaða skólastigi sem þeir starfa, telja núverandi tilhögun fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðum né hugmyndum um skilvirkni og styðji ekki við skóla án aðgreiningar. Einnig talar margt starfsfólk skóla um ófullnægjandi stuðning með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Auk þess efast margir starfsmenn skóla um að grunnmenntun þeirra og/eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar.
Mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sagði við þetta tækifæri: „Það er ánægjulegt að sjá að samstaða er um markmið menntunar án aðgreiningar og að löggjöf okkar og stefna styðji þau. Við viljum ekki láta staðar numið við útkomu skýrslunnar heldur nota niðurstöður hennar sem vettvang og tækifæri til að halda áfram. Að því sögðu hafa sömu aðilar og undirrituðu viljayfirlýsingu í nóvember 2015 um að vinna saman að undirbúningi og framkvæmd úttektarinnar, tekið ákvörðun um að undirrita samstarfsyfirlýsingu um að fylgja niðurstöðunum eftir með það að markmiði að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.“
Menntakerfið almennt vel fjármagnað en úthlutun fjármagns þarfnist endurskoðunar við
Cor Meijer, framkvæmdastjóri Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir, sagði Ísland standa mjög sterkt hvað varðar löggjöf og stefnumótun um menntun án aðgreiningar og í samræmi við alþjóðlega sáttmála. Hlutfallslega færri nemendur væru í sérskólum og sérúrræðum í skólum á Íslandi en víðast í Evrópu. Hins vegar væru formlegar greiningar á sérþörfum nemenda á Íslandi langt yfir meðallagi. Hann telur að menntakerfið í heild sé almennt vel fjármagnað en að endurhugsa þurfi úthlutun fjármagnsins þannig að það styði betur við stefnuna um menntun án aðgreiningar. Það komi fram í úttektinni að þetta skipti höfuðmáli þegar horft er til umbóta í menntakerfinu þegar til lengri tíma er litið.
Í úttektinni er lagt til að byrjað verði á að skoða þrjár forgangsaðgerðir eða lyftistangir (Critical Levers) sem útfærðar verða í nánu samstarfi við samstarfsaðila en með því eru sköpuð mikilvæg skilyrði fyrir frekari þróun á menntun án aðgreiningar hér á landi.
Í fyrsta lagi er að hvatt er til umræðna meðal þeirra sem vinna að menntamálum um það hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar. Í öðru lagi að fram fari athugun og endurskoðun á núverandi reglum um fjárveitingar til skólakerfisins. Í þriðja lagi að gert verði samkomulag um viðmið um lágmarksþjónustu til stuðnings menntunar án aðgreiningar í öllum skólum.
Næstu skref
Næstu skref sem mennta- og menningarmálaráðuneyti leggur til eru að stofna stýrihóp samstarfsaðila um vinnu að aðgerðaáætlun sem afhent verði ráðherra með vorinu. Í byrjun júní verði haldið málþing með öllum hlutaðeigandi aðilum til samtals og samráðs um hvernig best verði unnið með tillögur í úttektinni og þær tillögur sem gerðar verða í aðgerðaáætluninni, í bráð og lengd.
Með samstarfsyfirlýsingunni sem undirrituð var í dag lýsa mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og Heimili og skóli yfir vilja til samstarfs við að fylgja eftir niðurstöðum úttektar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Með henni lýsa þessir aðilar yfir vilja til samstarfs við að fylgja eftir því markmiði úttektarinnar að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.
Hér fyrir neðan má finna samantekt um helstu atriði lokaskýrslunnar, lokaskýrsluna sjálfa og viðauka hennar.
Final-report_External-Audit-of-the-Icelandic-System-for-Inclusive-Education
Samantekt_Úttekt á stefnu um menntun án aðgreiningar
Samstarfsyfirlysing
The results of the External Audit of the Icelandic System for Inclusive Education
Annex-1.-External-Audit-Methodology
Annex-2.-Critical-Reflection-Document
Annex-3.-Desk-Research-Report
Annex-4.-Fieldwork-Illustrative-Evidence-Report--2-
Annex-5.-Eco-Maps-Analysis-Report--1-
Annex-6.-On-line-Survey-Analysis-Report--1-
UPPTÖKUR FRÁ FUNDI 2. MARS 2017 Í MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI UM MENNTUN ÁN AÐGREININGAR
Nánar um úttektina:
Haustið 2013 var samþykkt að mennta- og menningarmálaráðuneytið tæki þátt í samstarfi um greiningu á framkvæmd skóla án aðgreiningar á grunnskólastigi. Skipaður var starfshópur með fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi grunnskólakennara, Skólastjórafélags Íslands og velferðarráðuneyti. Niðurstaða starfshópsins var að þörf væri á enn frekari greiningu á stöðu og framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar og áhrifum hennar á skólastarf, þ.m.t. á líðan og árangur nemenda.
Í kjölfarið var ákveðið að ganga til samninga við Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir um víðtæka ytri úttekt á menntun án aðgreiningar á Íslandi. Evrópumiðstöðin gerði úttektina í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Heimili og skóla, landssamtök foreldra, Skólameistarafélag Íslands og aðra sem málið varðar.
Markmið úttektarinnar var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.
Áhersla var lögð á að kanna hve árangursrík innleiðing menntastefnu um skóla án aðgreiningar hefur verið í skólakerfinu á Íslandi, á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, meðal annars í samanburði við önnur lönd. Einnig var rýnt í fjármögnum vegna skóla án aðgreiningar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Úttektin fór fram frá nóvember 2015 til ársbyrjunar 2017.
Í upphafi úttektar stóðu allir helstu aðilar menntamála hér á landi að gagnrýnu sjálfsmati á stöðu menntunar án aðgreiningar hér á landi og niðurstaða þess var að mótuð voru sjö áherslusvið. Á grundvelli þessara sjö sviða voru skilgreind viðmið og vísbendingar sem aðilar telja rétt að stefna að í skólakerfinu.
Niðurstöður úttektarinnar eru teknar saman í sjö meginköflum skýrslunnar á þann hátt að einn kafli er helgaður hverju þeirra sjö viðmiða og flokka vísbendinga sem um er fjallað. Einnig eru lagðar fram sjö megintillögur um æskilegar ráðstafanir, ein fyrir hvert þeirra sjö viðmiða sem lögð voru til grundvallar í úttektarvinnunni.
Ítarlegar upplýsingar um úttektina eru í samantekt sem er aðgengileg á hlekk hér fyrir ofan, þar eru teknar saman meginniðurstöður verkefnisins og raktar þær tillögur um ráðstafanir og mikilvægar lyftistangir til framtíðar sem fram koma í lokaskýrslunni Menntun fyrir alla: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi.