250 manns á fundi með landbúnaðarráðherra í Þingborg
Um 250 manns sóttu opinn fund Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í félagsheimilinu Þingborg í Hraungerðishreppi í gærkvöldi. Tilefni fundarins var frumvarp sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda varðandi innflutning á m.a. ófrystu kjöti til að bregðast við dómum Hæstaréttar Íslands og EFTA-dómstólsins. Á fundinum fór ráðherra ítarlega yfir sögu málsins og viðbrögð stjórnvalda en í kjölfarið gafst fundarmönnum tækifæri til að beina spurningum til ráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Ég er virkilega ánægður með kröftugan og málefnalegan fund. Mér finnst vera að skapast meiri skilningur á þeirri staðreynd að stjórnvöld þurfa að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er. Jafnframt að allir aðilar - hvort sem það eru bændur, stjórnvöld eða aðrir – sameinist í því verkefni að setja upp öflugar varnir til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Um leið þurfum við að sameina krafta okkar í því að draga fram óumdeilda kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er þannig að íslenskar vörur verði fyrsti kostur allra neytenda. Ég er sannfærður um að þetta mun takast.“
Kristján Þór mun á næstu dögum halda fleiri fundi um allt land og er fundardagskráin eftirfarandi:
- Mánudagur 25. febrúar kl. 20:00 Félagsheimilið Þingborg, Hraungerðishreppi
- Fimmtudagur 28. feb. kl. 12:00 Þjóðminjasafnið, Reykjavík
- Fimmtudagur 28. feb. kl. 20:00 Félagsheimilið Hlíðarbær, Hörgársveit
- Mánudagur 4. mars kl. 20:30 Hótel Hamar, Borgarnesi
- Þriðjudagur 5. mars kl. 20:00 Hótel Valaskjálf, Egilsstöðum
Hér getur þú skilað inn umsögn um frumvarpið á SAMRÁÐSGÁTT STJÓRNVALDA. Umsagnarfrestur rennur út miðvikudaginn 6. mars nk.