Nr. 625/2017 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 14. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 625/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17100055
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 23. október 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2017, um að synja honum um dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi haft dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi með gildistíma frá 26. maí 2016 til 10. mars 2017. Þann 6. mars sl. hafi Útlendingastofnun móttekið umsókn kæranda um endurnýjun á leyfinu. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2017, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðun Útlendingastofnunar þann 9. október 2017 og kærði hana til kærunefndar útlendingamála þann 23. október 2017. Með kæru fylgdu athugasemdir kæranda og fylgögn.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi hafi ekki verið studd fullnægjandi gögnum. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 22. mars 2017, hafi stofnunin óskað eftir gögnum og skýringum frá honum vegna umsóknarinnar, þ.e. umsókn um atvinnuleyfi, ráðningarsamning og skýringum vegna staðgreiðsluskila. Engin gögn hafi hins vegar borist. Útlendingastofnun hafi ítrekað beiðni sína með bréfi til kæranda, dags. 31. maí 2017. Engin gögn hafi borist og hafi stofnunin því tekið ákvörðun í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann uppfyllti skilyrði 61. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Var umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru kæranda segir að bréf Útlendingastofnunar til kæranda, þar sem óskað var eftir gögnum vegna umsóknar hans um endurnýjun á dvalarleyfi, hafi verið send á rangt heimilisfang. Þau gögn sem stofnunin hafi óskað eftir séu meðfylgjandi kæru til kærunefndar. Með vísan til framangreinds krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga.
Í 1. og 2. mgr. 61. gr. laga um útlendinga segir m.a. að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar séu að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. og að tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hafi verið veitt á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga.
Með kæru kæranda fylgdu gögn sem Útlendingastofnun óskaði eftir með bréfum til hans, dags. 22. mars og 31. maí 2017, svo sem umsókn um tímabundið atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar og ráðningarsamningur. Þá koma fram í kæru skýringar á staðgreiðsluskilum kæranda, sem jafnframt var óskað eftir í bréfum Útlendingastofnunar. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi til meðferðar á ný.
Í 57. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um endurnýjun dvalarleyfis. Í 2. mgr. 57. gr. er kveðið á um að útlendingur sem óskar eftir endurnýjun skuli sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Sé sótt um endurnýjun innan tilskilins frests er útlendingi heimilt að dvelja hér á landi samkvæmt fyrra dvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans. Að öðrum kosti skal útlendingur yfirgefa landið áður en gildistími fyrra dvalarleyfis hans rennur út. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. getur Útlendingastofnun heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi fengið útgefið dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi með gildistíma frá 26. maí 2016 til 10. mars 2017. Þá greinir að stofnunin hafi móttekið umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfisins þann 6. mars 2017. Liggur því fyrir að kærandi lagði ekki fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi sínu innan þess frests sem lagður er til grundvallar í 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Var honum því ekki heimilt að dvelja hér á landi meðan umsókn hans um endurnýjun leyfisins var til meðferðar hjá Útlendingastofnun nema ríkar sanngirnisástæður mæltu með því, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Hins vegar fæst hvorki séð af gögnum málsins né hinni kærðu ákvörðun að Útlendingastofnun hafi, í ljósi ríkra sanngirnisástæðna, heimilað kæranda að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans um endurnýjun leyfisins. Þar sem Útlendingastofnun hefur ekki gert athugasemdir við dvöl kæranda hér á landi eftir að dvalarleyfi hans rann út verður að mati kærunefndar að líta svo á að stofnunin hafi heimilað kæranda að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans um endurnýjun leyfisins.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall reexamine the appellant‘s case.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason