Fjölga náms- og starfstækifærum fyrir ungt fólk með fötlun
„Nemendur sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskóla eru fjölbreyttur hópur og það er mikilvægt að þeirra bíði fjölbreytt tækifæri til þess að halda áfram að læra og þroskast í starfi, skóla og/eða tómstundum. Hópurinn beindi sjónum sínum að þeim úrræðum sem þegar eru til staðar og sóknarfærum sem liggja í aukinni samvinnu, sýnileika og markmiðasetningu fyrir þá fjölmörgu sem koma að því verkefni að tryggja samfellu í þjónustu við ungt fólk með fötlun,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Verkefnishópinn skipuðu fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landsamtökunum Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, aðstandendum og fulltrúum Átaks, félags fólks með þroskahömlun.
Fulltrúar í verkefnishópnum öfluðu nauðsynlegra gagna, s.s. um þjónustu sveitarfélaga við markhópinn, námskeiðsframboð hjá Fjölmennt og símenntunarmiðstöðvum, starfstengt diplómanám í Háskóla Íslands fyrir fólk með þroskahömlun, þjónustu Vinnumálastofnunar, fjölda nemenda sem um ræðir í framhaldsskólum og framboð íþrótta- og æskulýðsfélaga. Hópurinn bauð fulltrúum frá Fjölmennt, Vinnumálastofnun og Háskóla Íslands til samráðs og samstarfs. Einnig var rætt við aðra hagsmunaaðila sem allir voru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að gera betur í þessum málaflokki.
Hópurinn skilaði fyrri skýrslu sinni í júní 2019 en til að auka vægi tillagna hópsins ákvað ráðherra að gerð yrði úttekt á afdrifum nemenda sem höfðu útskrifast af starfsbrautum árin 2015-2019. Tillögur hópsins voru endurskoðaðar í ljósi niðurstaðna úttektarinnar, sem leiddu í ljós að staða nemenda var ívið betri en við hafði verið búist. Þær leiddu í ljós að um 50% nemenda eru komnir í einhverja virkni strax eftir útskrift úr framhaldsskóla, 75% eftir fjóra mánuði, 85% eftir eitt ár og 90% eftir tvö ár. Hafa skal í huga að ekki var lagt mat á hvort viðkomandi stundaði fulla vinnu eða hlutavinnu, eða hvort viðkomandi væri í vinnu sem uppfylltu óskir og væntingar viðkomandi. Full ástæða þykir þó til að beina sérstakri athygli að þeim sem ekki eru í neinni virkni og því taka tillögur hópsins mið af þeirri stöðu.
Tillögur hópsins eru:
• Ráðinn verði samhæfingaraðili upplýsinga um námsframboð og atvinnutækifæri sem heldur utan um gagnaöflun, umsýslu og kynningu á því efni sem fyrir liggur hverju sinni. Starfsmaðurinn verði einnig samhæfingaraðili fyrir framhaldsskóla og atvinnulífið til að koma á auknu samstarfi.
• Að styrkja verkefnið „Ráðning með stuðningi“ sem Vinnumálastofnun hefur haft sem tilraunaverkefni frá árinu 2016. Áherslan í verkefninu er að fjölga starfstækifærum og auka fjölbreytni í úrræðum fyrir fólk með fötlun.
• Að auka samfélagslega vitund fyrirtækja að bjóða einstaklingum með fötlun starf við hæfi, og vinna gegn fordómum í þeirra garð. Samtök atvinnulífsins hafa þegar riðið á vaðið með hvatningarátak til fyrirtækja til þess að ráða til sín fólk með skerta starfsgetu.
• Fjölga námstækifærum m.a. hjá símenntunarmiðstöðvum og háskólum þar sem færri komast að en vilja. Myndlistarskólinn í Reykjavík hefur þegar fengið styrk til að opna á sérstaka námsleið sem gefist hefur mjög vel.
• Auka aðgengi fólks með fötlun að tómstunda- og íþróttastarfi þannig að fleiri einstaklingar hafi greiðari aðgang að ástundun á sínu áhugasviði, t.d. með sértækum styrkjum til íþrótta- og æskulýðsfélaga.
Sjá nánar í skýrslu hópsins.