Hoppa yfir valmynd
6. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Niðurstöður úr jafningjarýni á þróunarsamvinnu Íslands kynntar

Elín R. Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Carsten Staur, formaður Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC). - myndGSal

Jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands hefur verið birt. Carsten Staur, formaður nefndarinnar kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar og fór yfir styrkleika og áskoranir í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands á kynningarfundi á mánudag. Hann benti á að niðurstöður rýninnar væru jákvæðar og að Ísland hafi sýnt í verki hvernig lítið framlagsríki getur náð umtalsverðum árangri með skýrri og einbeittri nálgun. 

„Niðurstöðurnar undirstrika að þrátt fyrir smæð hefur Ísland náð að hámarka framlag sitt með því að nýta styrkleika sína og sérþekkingu, til dæmis á sviði jafnréttismála. Í nýrri þróunarsamvinnustefnu sem ég mun leggja fram á Alþingi í haust legg ég áherslu á að við höldum áfram þessari vegferð og nýtum okkur þær nytsamlegu ábendingar sem fram koma í skýrslunni,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Í skýrslunni koma fram tíu tilmæli til Íslands og er ætlað að leiða til umbóta. Má þar nefna framlög til þróunarsamvinnu sem hlutfall af vergum þjóðartekjum, samráð um nýja þróunarsamvinnustefnu og samræmingu stefnumála í þágu sjálfbærrar þróunar. Þá sé rými til að gera árangursstjórnun heildstæðari, bæta samstarfsáætlanir við tvíhliða samstarfslönd og tryggja að stefnumótun í umhverfis- og loftslagsmálum nái yfir allt þróunarstarf Íslands. Utanríkisráðuneytið mun vinna úr tilmælunum og gera áætlun um að koma þeim til framkvæmdar. 

Jafningjarýni er fastur liður í störfum DAC og undirgangast öll aðildarríki slíka rýni reglulega. Þetta er í annað sinn sem þróunarsamvinna Íslands er rýnd með þessum hætti. Jafningjarýni er framkvæmd af sérfræðingum OECD og fulltrúum tveggja aðildarríkja nefndarinnar, en í þetta sinn tóku Slóvakía og Kórea þátt í rýni Íslands. 

Hver jafningjarýni felur í sér mikilvægan lærdóm fyrir öll aðildarríki nefndarinnar. Því eru teknar saman stuttar samantektir um aðferðir sem reynst hafa framlagsríkjum vel í að bæta starf sitt. Gerðar voru fimm samantektir fyrir starf Íslands, meðal annars um úttekt sem Ísland lét gera á kostnaði við móttöku flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hluti af þróunarsamvinnu. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta