Ríkisreikningur 2017
Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2017 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Samkvæmt ríkisreikningi var rekstrarafkoman jákvæð um 39 ma.kr. sem lýsir sterkri stöðu ríkisfjármálanna. Tekjur námu samtals 783 ma.kr. og rekstrargjöld 711 ma.kr. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 74 ma.kr. en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins jákvæð um 40 ma.kr.
„Efnahagslíf undanfarinna ára hefur einkennst af þróttmiklum vexti og verulega bættum rekstri ríkissjóðs. Nú eru hins vegar vísbendingar um að hámarki vaxtar sé náð og að þjóðarbúskapurinn leiti nýs jafnvægis eftir miklar sveiflur undangenginna ára. Staða ríkissjóðs er sterk og viðnámsþróttur ríkisfjármálanna hefur aukist í kjölfar markvissrar skuldalækkunar og hagvaxtar. Þrátt fyrir góða stöðu ríkissjóðs er mikilvægt að áfram verði festa og varfærni í stjórn opinberra fjármála. Útgjöld ríkisins hafa aukist nokkuð á liðnum árum í takt við bættan hag ríkissjóðs en ljóst er að útgjaldavöxturinn getur til framtíðar ekki orðið eins mikill og hann hefur verið undanfarin ár,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings.
Birtur í fyrsta sinn samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál
Ríkisreikningur 2017 er nú birtur í fyrsta sinn samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál. Unnið er að innleiðingu nýrra reikningsskila eftir sérstakri þriggja ára áætlun sem miðar við að ríkisreikningur fyrir árið 2019 uppfylli að fullu skilyrði alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila.
Í ríkisreikningnum kemur fram stofnefnahagsreikningur í ársbyrjun 2017, þar sem gerðar eru umtalsverðar breytingar á framsetningu og innihaldi frá ríkisreikningi 2016. Meðferð varanlegra rekstrarfjármuna er breytt, með þeim hætti að þeir eru eignfærðir og afskrifaðir í samræmi við endingartíma í stað þess að gjaldfærast við kaup. Eign ríkissjóðs í félögum er metin samkvæmt hlutdeildaraðferð, þ.e. ríkið eignfærir hlutdeild sína í eigin fé þeirra. Skuldbindingar sem ríkissjóður hefur stofnað til og þarf að standa undir í framtíðinni, s.s. vegna áfallinna launatengdra réttinda eru færðar í efnahagsreikning. Með þessum breytingum gefur efnahagsreikningur ríkissjóðs mun betri heildarmynd af eignum og skuldum ríkissjóðs. Heildareignir í árslok 2017 eru 2.137 ma.kr., skuldir 1.639 ma.kr og eigið fé 498 ma.kr.
Þess ber að geta að rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt samkvæmt reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila (IPSAS) en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli (GFS). Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er því ekki sambærileg við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var GFS heildarafkoma fyrir árið 2017 jákvæð um 31 ma.kr. og því tæpum 6 ma.kr. betri en fjárlög gerðu ráð fyrir sem undirstrikar sterka stöðu ríkissjóðs.
„Miklu skiptir að fjármálastefna hins opinbera einkennist af varfærni og festu og til mikils að vinna að gera það sem hægt er til að styrkja félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Í því sambandi má nefna endurskoðun á ramma peningastefnunnar auk þess sem búið hefur verið í haginn fyrir framtíðina með endurfjármögnun og uppgreiðslu skulda, segir fjármála- og efnahagsráðherra.
„Áfram þarf að tryggja ábyrga meðferð fjármuna ríkisins en með því skapast svigrúm til umbóta og úrbóta í þjónustu fyrir almenning og til þess að styrkja stoðir efnahagslífs og lífskjara þjóðarinnar,“ segir ráðherra enn fremur.
Staðfestur með rafrænum undirritunum
Fjármála- og efnahagsráðherra, fjársýslustjóri og ríkisendurskoðandi staðfestu ríkisreikning með rafrænum undirritunum.
Reikninginn í heild sinni með þeim sundurliðunum og skýringum sem honum fylgja má finna á vef Fjársýslunnar, fjs.is