Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2022
Fjármálastöðugleikaráð hélt fyrsta fund ársins 2022 mánudaginn 21. mars. Á fundinum var farið yfir helstu áhættuþætti er varða fjármálamarkað. Þær stærðir sem horft er til þegar fjármálastöðugleiki er metinn benda til þess að staðan sé góð. Lausafjár- og eiginfjárstaða bankanna er sem fyrr sterk, heimilin búa yfir töluverðum viðnámsþrótti og staða fyrirtækja er heilt yfir ágæt, þó að fyrirtæki í ákveðnum atvinnugreinum standi verr en önnur.
Töluverð óvissa er um áhrif innrásarinnar í Úkraínu á efnahagsþróun. Lítill hluti viðskipta hér á landi er við Rússland, Hvíta-Rússland og Úkraínu og hið sama má segja um hlutdeild innlendra aðila í fjármálastarfsemi í þessum löndum. Bein áhrif átakanna eru því enn sem komið er ekki mikil hér á landi. Innrásin hefur nú þegar haft áhrif á olíuverð og þar með verðlag og líklegt er að hún muni trufla aðfangakeðjur og hafa áhrif á eftirspurn eftir íslenskum útflutningi. Áhrif á fjármálakerfið eru fyrst og fremst lækkun á eignamörkuðum og hærri fjármagnskostnaður á erlendum lánsfjármörkuðum auk þess sem netárásum gæti fjölgað. Á fundinum hélt Seðlabankinn kynningu á netöryggi og rekstraröryggi fjármálainnviða, einkum með tilliti til viðbúnaðar við fjölgun netárása í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.