Nýr áfangi verkefnisins „Vandað, hagkvæmt, hratt“
Þrír ráðherrar hafa undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu um næsta skref verkefnisins „Vandað, hagkvæmt, hratt“ sem hefur það meginmarkmið að skoða í víðu samhengi leiðir sem aukið geta fjölbreytni og framboð á hagkvæmu húsnæði, ekki síst í þágu ungs fólks og tekjulágs.
Verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ byggist á samþykkt ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála, í tengslum við gerð kjarasamninga síðastliðið vor. Markmiðið er að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, styðja við leigumarkað og kaup á fyrstu íbúð og tryggja aukið framboð á íbúðarhúsnæði. Meðal tilgreindra aðgerða í samþykkt ríkisstjórnar er endurskoðun á regluverki skipulags- og byggingarmála sem unnið er að af hálfu starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði sl. vor, með það að markmiði að lækka byggingarkostnað.
Fyrsta skrefið var stigið með upphafsfundi verkefnisins sem félags- og húsnæðismálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra boðuðu til og haldinn var 21. október sl. Til fundarins var boðið fulltrúum helstu hagsmunaaðila sem málefnið snertir. Fundurinn var vel sóttur og umræður frjóar. Niðurstöður fundarins hafa verið teknar saman og sendar öllum þátttakendum til frekari umfjöllunar og umsagnar.
Næsta skref hjá nýstofnuðum Byggingarvettvangi (BVV)
Að undanförnu hefur verið unnið að stofnun sérstaks samstarfsvettvangs fyrirtækja, stofnana, ráðuneyta og annarra aðila sem starfa á þessu sviði sem hlotið hefur heitið „Byggingarvettvangur.“ Fyrir liggja samþykktir þessa vettvangs, undirritaðar af fulltrúum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Mannvirkjastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Samtaka iðnaðarins. Í samþykktunum eru jafnframt tilgreindir samstarfsaðilar vettvangsins sem eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Hönnunarmiðstöð Íslands, IKEA, Listaháskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og velferðarráðuneytið.
Árleg framlög stofnaðila til BVV nema 22 milljónum króna
Samkvæmt samþykktum BVV greiða stofnaðilar árlega samtals 22 milljónir króna til rekstursins. Þar af greiða velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður 6 milljónir kr., umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Mannvirkjastofnun 4 milljónir kr., atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið 6 milljónir kr. og Samtök iðnaðarins 6 milljónir kr.
Með yfirlýsingunni sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirrituðu í dag, staðfesta þær tillögu sem lögð hefur verið fram um að verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ verði fyrsta verkefni BVV í samræmi við samþykktir hans, þar á meðal með áherslu á eflingu nýsköpunar, tækniþekkingar og samkeppnishæfni.
Í yfirlýsingu ráðherranna segir orðrétt:
„Við lýsum hér með yfir samþykki okkar fyrir því að verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ verði fyrsta verkefni Byggingarvettvangsins og erum þess fullvissar að hann eigi eftir að leiða til þess að Íslendingar muni eiga kost á hagkvæmara og ódýrara húsnæði í framtíðinni með faglega mannvirkjagerð að leiðarljósi“.