Þriggja ára dvalarleyfi erlendra háskólanema á Íslandi að námi loknu
Nýtt og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES felur meðal annars í sér stóraukin réttindi erlendra háskólanema hér á landi. Tillögur um hið nýja kerfi voru kynntar á dögunum og eru þær stórt og mikilvægt skref í auknu aðgengi Íslands að alþjóðlegri sérfræðiþekkingu. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á þennan málaflokk undanfarin misseri, enda er greiður aðgangur að sérhæfðri þekkingu ein mikilvægasta forsenda þess að áform um vöxt fyrirtækja í hugverkaiðnaði og sprotafyrirtækja verði að veruleika.
Meðal helstu breytinga sem felast í nýju kerfi er að erlendir nemendur við íslenska háskóla fá þriggja ára dvalarleyfi að námi loknu. Hingað til hefur rammi þessa hóps til að leita atvinnu á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar aðeins verið sex mánuðir að loknu háskólanámi á Íslandi. Mikilvægt er að lengja þennan tíma í því skyni að laða fleiri námsmenn hingað til lands og um leið gera íslenska háskóla að eftirsóknarverðum og samkeppnishæfum valkosti á alþjóðavísu. Þá er lengra dvalarleyfi einnig til þess fallið að koma í veg fyrir að vel menntað fólk og sérfræðingar framtíðarinnar fari úr landi með þekkingu sem aflað hefur verið í háskólum sem fjármagnaðir eru af íslenska ríkinu.
„Það er mikið fagnaðarefni að við séum að stíga stór skref í að auðvelda alþjóðlegum sérfræðingum og nemendum að koma hingað til lands svo íslenskt samfélag fái notið sérfræðiþekkingar þeirra og þeir miðli áfram sinni reynslu og þekkingu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Það er forsenda þess að vaxtartækifæri landsins verði að veruleika að við séum samkeppnishæf og bjóðum sérfræðinga velkomna."