Fjármálareglur, vistvænt flugvélaeldsneyti, launagagnsæi, netöryggi, lyfjalög o.fl.
Að þessu sinni er fjallað um:
- endurskoðun á fjármálareglum Evrópusambandsins (ESB)
- samkomulag um tillögu um vistvænt flugvélaeldsneyti
- tilskipun um launagagnsæi
- tillögur um aukna samstöðu á sviði netöryggismála
- endurskoðun lyfjalöggjafar
- nýjar tillögur á sviði hugverka- og einkaleyfisréttar
- aðgerðir gegn spillingu
- útvíkkun á regluverki um landfræðilega vernd vöruheita
- óformlegan fund félags- og vinnumarkaðsráðherra ESB
- skýrslu um netöryggisógnir sem steðja að samgöngum
Endurskoðun á fjármálareglum ESB
Eins og reglulega hefur verið fjallað um Vaktinni að undanförnu þá hafa fjármálareglur ESB (e. Fiscal rules of Growth and Stability Pact) og endurskoðun þeirra verið mjög til umræðu á vettvangi ESB á umliðnum misserum. Reglurnar voru teknar tímabundið úr sambandi þegar kórónuveirufaraldurinn skall á og var sú aftenging síðan framlengd til loka árs 2023 í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Hefur legið fyrir að ljúka þurfi endurskoðun reglnanna fyrir áramót, eða eftir atvikum að framlengja þær á ný, því ella munu núverandi reglur ganga í gildi að nýju. Í samræmi við framangreint hefur endurskoðun fjármálareglnanna verið meðal forgangsmála í tíð sænsku formennskunnar í ráðherraráði ESB og var málið m.a. til umfjöllunar á fyrsta fundi efnahags- og fjármálaráðherra ESB í byrjun ársins, sbr. umfjöllun í Vaktinni 27. janúar sl. Fyrir þeim fundi lá stefnumótunarskjal framkvæmdastjórnar ESB sem birt var með orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, Seðlabanka Evrópu, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar 9. nóvember sl. Meginmarkmið þeirrar stefnumótunar er að ríkisfjármálaregluverkið verði sveigjanlegra en verið hefur og að horfið verði frá fyrri stefnu um „one-size-fits-all“ sem ekki er talin eiga við lengur. Miðar stefnumótunin að því að tekið verði aukið tillit til efnahagslegrar stöðu hvers ríkis á grundvelli fjögurra ára aðgerðaáætlunar sem framkvæmdastjórnin mun hafa eftirlit með. Almenn ánægja hefur verið með breytta stefnumótun á meðal aðildarríkjanna en sú ánægja hefur þó ekki verið einhlít og lýstu Þjóðverjar m.a. strax efasemdum.
Þann 26. apríl sl. lagði framkvæmdastjórn ESB síðan fram formlegar löggjafartillögur um endurskoðun ríkisfjármálareglna ESB til framtíðar. Þar er megináhersla að styrkja sjálfbærni opinberra skulda og efla hagvöxt aðildarríkjanna með sjálfbærum hætti með endurskipulagningu og fjárfestingum, einkum á sviði grænna og stafrænna umskipta sem talið er að auka muni samkeppnishæfni ESB til lengri tíma. Í tillögunum er áhersla lögð á einfalda og gagnsæja efnahagsstjórn og áætlanagerð til meðal langs tíma (e. medium term).
Sérstök áætlanagerð fyrir einstök aðildarríki, til meðal langs tíma, er í raun hornsteinn tillagnanna nú. Samkvæmt þeim eiga aðildarríkin að leggja fram aðgerðaáætlun til fjögurra ára hið minnsta þar sem sett skulu fram markmið í opinberum rekstri, aðgerðir til að taka á efnahagslegu ójafnvægi og forgangsröðun þeirra verkefna sem þarfnast endurskipulagningar og fjárfestinga. Framkvæmdastjórnin metur síðan aðgerðaáætlanir ríkjanna samkvæmt sameiginlegum mælikvörðum ESB. Standist þær prófið gera tillögurnar ráð fyrir að þær verði lagðar fyrir ráðherraráð ESB til samþykktar. Með þessari aðferðafræði er stefnt að því að búa til ferli gagnvart aðildarríkjunum er tekur tillit til mismunandi efnahagsstöðu einstakra ríkja, en eftir því hefur mjög verið kallað. Jafnframt er gert ráð fyrir að hvert aðildarríki skili árlegri skýrslu um framgang áætlunarinnar til að auðvelda framkvæmdastjórninni að hafa virkt eftirlit með framkvæmdinni.
Efnahagsleg staða aðildarríkja ESB er afar mismunandi eins og kunnugt er og hefur sá munur aukist síðustu árin í kjölfar kórónaveirufaraldurins og árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu. Sú þróun hefur leitt til þess að „one-size-fits-all“ aðferðin, sem eldri reglur byggja á, er að margra mati talin nánast ónothæf. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er þó talið nauðsynlegt að viðhalda áfram því meginmarkmiði að opinberar skuldir séu sjálfbærar, á sama tíma og leitað er allra leiða til að efla hagvöxt. Samkvæmt tillögunum er aðildarríkjum ESB hins vegar ætlað að byggja aðgerðaáætlun sína á tilteknum útgjaldamarkmiðum fyrir umrætt fjögurra ára áætlunartímabil í nánu samráði við framkvæmdastjórn ESB. Útgjöldin verða þannig í raun eina beina viðmiðunin þegar kemur að eftirliti framkvæmdastjórnarinnar. Í því felst veruleg einföldun frá fyrri reglum.
Áfram verður horft á 60% viðmiðið fyrir skuldastöðuna og viðmið um 3% hámarkshalla við mat á aðgerðaáætlun aðildarríkjanna. Fari tiltekið aðildarríki yfir 3% í halla eða yfir 60% varðandi skuldastöðuna mun framkvæmdastjórnin senda viðkomandi ríki tæknilega áætlun eða leiðbeiningar (e. trajectory) yfir það hvernig það geti náð skuldunum niður í áföngum og hallanum sömuleiðis þegar horft er yfir fjögurra ára tímabil. Áfram er gengið út frá því viðmiði að árleg lágmarksleiðrétting á skuldastöðunni nemi 0,5% af vergri landsframleiðslu, VLF. Aðildarríkin sem eru undir 3% í halla og undir 60% hallamarkmiðinu munu einnig lúta eftirliti framkvæmdastjórnar ESB í formi tæknilegra leiðbeininga (e. technical information) um hvernig best sé að viðhalda þeirri stöðu út áætlunartímabilið. Frávik frá útgjaldamarkmiðum ríkjanna verða einungis veitt komi til alvarlegrar efnahagskreppu á evrusvæðinu eða innan ESB í heild, eða í þeim tilfellum þegar ESB-ríki verður fyrir höggi í ríkisbúskapnum af óviðráðanlegum ástæðum.
Í stuttu máli má segja að þótt fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun á fjármálareglunum feli í sér meiri sveigjanleika fyrir aðildarríki ESB, eins og að framan er lýst, fela þær á sama tíma í sér meira eftirlit og miðstýringu að hálfu framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðsins. Mikil pressa er á að löggjafarferlinu verði lokið á þessu ári, en umrætt endurskoðunarferli hefur verið á forgangslista framkvæmdastjórnar Ursulu von der Leyen enda kosningar til Evrópuþingsins framundan á næsta ári auk þess sem þá rennur út kjörtímabil núverandi framkvæmdastjórnar.
Framangreindar tillögur framkvæmdastjórnar ESB komu til umræðu á óformlegum fundi efnahags- og fjármálaráðherra ESB í Stokkhólmi undir lok síðustu viku. Eins og áður var það fjármálaráðherra Þýskalands, Christian Lindner, sem lýsti yfir andstöðu sinni gagnvart tillögunum gegn miklum meirihluta annarra ráðherra á fundinum. Auk Þýskalands settu Austurríki, Finnland, Svíþjóð og Tékkland einnig fyrirvara við tillögurnar og þá sérstaklega við útgjaldaviðmiðið (e. primary net expenditure). Athygli vakti að Hollendingar voru ekki í þessum hópi, en þeir fylgja gjarnan afstöðu Þjóðverja. Enda þótt hæpið sé að fyrirvari þessara ríkja mun ekki nægja til að stöðva framgang tillagnanna þá getur hann leitt til tafa á málinu en eins og áður segir þarf að ljúka málinu fyrir næstu áramót. Náist það ekki ganga eldri reglur í gildi á ný með ófyrirsjáanlegum afleiðingum Þannig er t.d. talið að Ítalía myndi þurfa að lækka opinberar skuldir sínar um 4% á ári, næstu tuttugu árin, til að ná markmiðum samkvæmt þeim reglum.
Álitið er að erfiðar samningaviðræður séu framundan meðal aðildarríkjanna á vettvangi ráðherraráðs ESB um tillögur framkvæmdastjórnarinnar og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvernig málinu vindur fram. Samningaviðræður munu hefjast strax í þessari viku og er formleg umræða um málið fyrirhuguð á júnífundi efnahags- og fjármálaráðherra ESB. Fyrir liggur að málið verður einnig á forgangslista Spánverja sem taka við formennskukeflinu í ráðherraráðinu seinni hluta þessa árs. Öllum aðildarríkjum ESB er ljóst að einhverra lagabreytinga er þörf, en tíminn til að ná þeim fram er orðinn afar naumur. Sá kostur að framlengja óvirkni fjármálareglnanna um eitt ár í viðbót, þ.e. til loka árs 2024, er þó einnig fyrir hendi eins og áður hefur verið vikið að.
Samkomulag um tillögu um vistvænt flugvélaeldsneyti
Þann 25. apríl sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni löggjafartillögu um vistvænt flugvélaeldsneyti (RefuelEU Aviation) en tillagan miðar að því að draga úr kolefnislosun frá flugstarfsemi og skapa jöfn samkeppnisskilyrði fyrir sjálfbærar flugsamgöngur til framtíðar. Málið er hluti af „Fit for 55“ aðgerðapakka ESB í loftslagsmálum en fjallað hefur verið um málið í Vaktinni m.a. 22. júlí sl. og 7. október sl. og þá í tengslum við umfjöllun um breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug en málin tvö eru nátengd. Þá var sagt frá því í Vaktinni 24. febrúar sl. að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefði skipað starfshóp til þess að skoða sérstaklega hvaða leiðir eru færar til að hraða orkuskiptum í flugi með notkun vistvæns eldsneytis í millilandaflugi og leggja fram tillögur þar að lútandi. Mun þessi gerð og þeir möguleikar sem kunna að felast í henni m.a. koma til skoðunar í þeirri nefnd. Tengt þessu eru einnig áform framkvæmdastjórnar ESB um stofnun svonefnds Vetnisbanka Evrópu, sbr. orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar. Er gert ráð fyrir að fyrstu styrkir til framleiðslu vetnis verði boðnir út á komandi hausti úr nýsköpunarsjóði ESB á sviði loftslagsmála (e. Innovation Fund) þar sem valin framleiðsluverkefni geti fengið framleiðslustyrk fyrir hvert framleitt kíló af vetni í allt að 10 ár, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 24. mars sl.
Í tillögunni eru settar fram kröfur um hvert skuli vera lágmarkshlutfall vistvæns eldsneytis í flugi og munu reglurnar gilda frá 2025 og munu kröfur um hlutfall vistvæns eldsneytis síðan fara stigvaxandi á fimm ára fresti. Þannig miðar tillagan jafnframt að því auka eftirspurn og framboð á vistvænu flugvélaeldsneyti (SAF) á sama tíma og leitast er við jafna samkeppnisskilyrði á þessu sviði. Um er að ræða mikilvægan hlekk í áformum og aðgerðum ESB til að ná loftslagsmarkmiðum sínum fyrir árið 2030 og 2050 þar sem notkun á SAF er meginleiðin til að draga úr kolefnislosun í flugi.
Málið gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Tilskipun um launagagnsæi
Ráðherraráð ESB samþykkti nýja tilskipun um launagagnsæi 24. apríl sl. og var gerðin þar með endanlega samþykkt sem lög í ESB. Evrópuþingið hafði áður samþykkt gerðina fyrir sitt leyti 30. mars sl. en fjallað var um tillögu framkvæmdastjórnar ESB að tilskipuninni í Vaktinni 18. mars sl. afstöðu þingnefnda Evrópuþingsins til hennar.
Samkvæmt tilskipuninni verður fyrirtækjum með fleiri en 250 starfmenn gert skylt að miðla upplýsingum árlega um hvað þau greiða konum annars vegar og körlum hins vegar fyrir jafnverðmæt störf. Fyrirtæki með fleiri en 150 starfsmenn þurfa að miðla slíkum upplýsingum á þriggja ára fresti og mun það fjöldatakmark lækka í 100 starfsmenn tveimur árum eftir að gerðin kemst til framkvæmda. Reynist óútskýrður launamunur kynjanna umfram 5% verða fyrirtækin að grípa til aðgerða.
Tilskipunin tryggir launafólki og umsækjendum um störf jafnframt rétt til að biðja vinnuveitanda um upplýsingar um meðallaun fyrir jafnverðmæt störf, sundurliðað eftir kyni.
Loks er í tilskipuninni kveðið á um rétt starfsmanns, sem telur að sér hafi verið mismunað um laun á grundvelli kyns, til að krefjast bóta og er sönnunarbyrði í slíkum málum lögð á vinnuveitanda.
Aðildarríkin hafa allt að þrjú ár til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar í landslög.
Tillögur um aukna samstöðu á sviði netöryggismála
Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu að nýrri reglugerð sem miðar að því að auka samstöðu innan ESB á sviði netöryggismála (e. Cyber Solidarity Act). Tillagan er viðbragð við vaxandi áhyggjum vegna aukins fjölda netárása sem ógna rekstrar- og starfsöryggi stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga. Samkvæmt nýlegum rannsóknum er talið að netglæpir kosti aðila innan ESB um 65 milljarða evra á hverju ári.
Löggjafartillögurnar miða að því að gera ESB betur í stakk búið til að takast á við þessar áskoranir með því að auka og bæta samhæfingu og samvinnu milli aðildarríkja og efla þannig sameiginlega viðbragðsgetu þeirra um leið og núverandi samskipta- og viðbragðskerfi eru efld. Tillögurnar miða jafnframt að því að styðja við fyrirbyggjandi aðgerðir í þágu netöryggis, m.a. með aukinni fjárfestingu í rannsóknum og þróun og upptöku háþróaðrar tækni eins og gervigreindar og vélanáms (e. machine learning).
Markmiðið er að koma á fót samevrópskum netöryggisskildi (e. European Cyber Shield) sem verði samsettur úr netöryggiskerfum aðildarríkjanna og sérstökum netöryggismiðstöðum (e. Security Operation Centers – SOC). Er samsettu kerfi ætlað að nema netárásir og verjast þeim. Eins og staðan er í dag getur tekið allt að 190 daga að nema fágaða netárás en með framangreindu kerfi og nýtingu gervigreindar er talið að hægt sé að draga verulega úr þeim tíma. Er gert ráð fyrir að hinar nýju netöryggismiðstöðvar geti verið tilbúnar til notkunar í byrjun árs 2024 en þegar hefur verið settur af stað undirbúningur á vegum samstarfsverkefnisins Stafræn Evrópa (e. Digital Europe) þar sem unnið er að uppsetningu þriggja netöryggismiðstöðva þvert á landamæri og er Ísland aðili að því verkefni ásamt 17 aðildarríkum ESB. ESB hefur ákveðið að leggja þessu verkefni til 1,1 milljarð evra og verður það fjármagnað að mestu úr sjóðum samstarfsverkefnisins Stafræn Evrópa.
Í þessu samhengi má geta þess að Ísland tók nýverið þátt, í fyrsta sinn, í netöryggisæfingunni Skjaldborg (e. Locked Shields) sem er stærsta netöryggis- og netvarnaræfing sem Ísland hefur tekið þátt í en öndvegissetur NATO í netöryggismálum í Tallinn stendur fyrir henni. Fyrir Íslands hönd tóku þátt starfsmenn frá netöryggissveit fjarskiptastofu (CERT-IS), Landhelgisgæslu Íslands, Ríkislögreglustjóra, Seðlabanka Íslands, Reiknistofu bankanna og utanríkisráðuneyti Íslands. Ísland var í liði með Svíþjóð og bar sigur úr býtum í æfingunni en teymið var leitt af fulltrúa netvarna sænska hersins og fulltrúa íslenska utanríkisráðuneytisins.
Þá gera löggjafartillögurnar ráð fyrir að sett verði á fót neyðarviðbragðsteymi netöryggissérfræðinga (e. Cyber Emergency Mechanism) sem geti komið til aðstoðar aðildarríkjum eða stofnunum ESB ef óskað er eftir í tengslum við netárás en einnig til að veita ráðgjöf vegna fyrirbyggjandi ráðstafana, álagsprófana o.fl.
Samkvæmt tillögunum verður aðildarríkjum ESB gert að setja sér netöryggisstefnu og tilnefna lögbært yfirvald sem ber ábyrgð á eftirliti og framkvæmd hennar. Þá verður einnig gerð krafa um að ríkin deili á milli sín upplýsingum um netöryggisatvik sbr. framangreint.
Tillögurnar miða einnig að því að stuðla að auknu gagnsæi og ábyrgð í netöryggisiðnaðinum með því að koma á fót vottunarramma fyrir vörur og þjónustu sem boðin er til sölu á þessu sviði. Slíkum vottunarramma er ætlað að tryggja að fyrirtæki sem bjóða upp á netöryggishugbúnað og -þjónustu fylgi ströngustu stöðlum og séu látin svara fyrir öryggisbrot sem upp koma.
Samhliða framangreindum tillögum birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um stofnun svonefndrar netöryggisakademíu (e. Cybersecurity Skills Academy). Er netöryggisakademíunni ætlað að samræma nálgun við menntun netöryggissérfræðinga og stuðla að fjölgun slíkra sérfræðinga. Er stofnsetning akademíunnar og sú stefnumótun sem felst í orðsendingunni um færniátak á þessu sviði jafnframt hluti af átakinu sem nefnt hefur verið Evrópska færniárið (e. European Year of Skills) en fjallað var um það verkefni í Vaktinni 10. febrúar sl. og 10. mars sl.
Framangreindum löggjafartillögum hefur verið fagnað af netöryggissérfræðingum og aðilum í netöryggisiðnaðinum sem líta á þær sem nauðsynlegt skref í átt að því að skapa öruggara netumhverfi fyrir alla borgara ESB.
Löggjafartillögurnar ganga nú til umfjöllunar í Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB.
Endurskoðun lyfjalöggjafar
Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögur um endurskoðun lyfjalöggjafar ESB. Um er að ræða víðtæka endurskoðun, þær mestu sem ráðist hefur verið í í meira en 20 ár.
Meginmarkmið endurskoðunarinnar er að bæta og jafna framboð og aðgengi að lyfjum á viðráðanlegu verði til hagbóta fyrir neytendur á innri markaði ESB, sem aftur muni styðja við nýsköpun og efla samkeppnishæfni evrópsks lyfjaiðnaðar á sama tíma og framleiðendum lyfja verður gert að lúta strangari umhverfiskröfum.
Hátt verð á nýjum hátæknilyfjum og skortur á framboði ýmissa mikilvægra lyfja hefur verið vaxandi áhyggjuefni í rekstri heilbrigðiskerfa á umliðnum árum og fyrir sjúklinga sem þurfa á lyfjunum að halda. Endurskoðaðri lyfjalöggjöf er ætlað að mæta þessum áskorunum um leið og leitast er við að bæta og einfalda rekstrarumhverfi lyfjaiðnaðarins innan ESB, m.a. með aukinni rafrænni stjórnsýslu á sviði lyfjamála.
Löggjafartillögurnar samanstanda af tveimur nýjum gerðum, nýrri lyfjatilskipun annars vegar og nýrri lyfjareglugerð hins vegar en auk þess er lögð fram tillaga til ráðherraráðs ESB um útgáfu tilmæla er miða að því að setja aukinn kraft í baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi.
Nánar verður fjallað um efni framangreindra tillagna í Vaktinni á næstunni.
Löggjafartillögurnar ásamt áhrifamati og fleiru hafa verið birtar í samráðsgátt ESB í opnu umsagnarferli og er umsagnarfrestur til 29. júní nk.
Nýjar tillögur á sviði hugverka- og einkaleyfisréttar
Framkvæmdastjórn ESB kynnti í síðustu viku löggjafartillögur á sviði hugverka- og einkaleyfisréttar sem ætlað er að hjálpa fyrirtækjum, sérstaklega litlum og meðalstórum, að nýta uppfinningar sínar og nýja tækni og stuðla að markmiðum sambandsins um samkeppnishæfni og svonefnt tæknilegt fullveldi eða sjálfræði (e. technological sovereignty).
Í tillögurnar samanstanda af þremur flokkum nýrra reglugerða, þ.e. tillögu að reglugerðum um stöðluð nauðsynleg einkaleyfi, um veitingu einkaleyfa í neyðartilvikum og um endurskoðun reglugerða um viðbótarverndarskírteini. Markmiðið með breytingunum er að skapa gagnsærri og skilvirkari ramma um hugverkaréttindi sem stenst framtíðaráskoranir.
Framangreindar tillögur framkvæmdastjórnarinnar fela í sér viðbót við evrópska einkaleyfakerfið (e. Unitary Patent System) sem tekið verður í notkun 1. júní nk. Þess má geta í þessu sambandi að Hugverkastofa mun standa fyrir málstofu um nýja evrópska einkaleyfakerfið 23. maí nk., sjá nánar hér.
Tillögurnar byggja á fyrirliggjandi ákvæðum og meginreglum alþjóðlegs og ESB-hugverkaréttar en þær miða að því að gera einkaleyfiskerfið skilvirkara með því að útrýma frekari uppskiptingu innri markaðarins, draga úr skriffinnsku og reglubyrði og auka skilvirkni. Umræddur einkaleyfisrammi muni styrkja rekstraraðila og lögbær yfirvöld, t.d. þegar kemur að því að vernda nýsköpun, á sama tíma og hann tryggir sanngjarnan aðgang, þ.m.t. í neyðartilvikum.
Vörumerki, hönnun, einkaleyfi og gögn eru sífellt mikilvægari í þekkingarhagkerfi nútímans. Hugverkaréttur er einn af lykildrifkröftum fyrir hagvöxt en hann hjálpar fyrirtækjum að fá verðmæti úr óáþreifanlegum eignum sínum. Iðnaðargeirar sem falla undir hugverkarétt ná t.a.m. utan um tæplega helming allrar vergrar landsframleiðslu ESB ríkja og yfir 90% alls útflutnings ESB.
Samhliða birtingu tillagnanna voru þær settar í opið samráð í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur til 30. júní nk.
Tillögurnar ganga nú jafnframt til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB til umræðu.
Aðgerðir gegn spillingu
Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni nýjar tillögur og aðgerðir til að sporna við spillingu innan ESB og á heimsvísu. Tillögurnar saman standa annars vegar af sameiginlegri orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB og utanríkismálastjóra ESB til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um baráttuna gegn spillingu og hins vegar af tillögu að nýrri tilskipun um sama efni.
Í orðsendingunni er stefnumótun ESB á málefnasviðinu krufin og sett fram skýr sýn á skuldbindingu sambandsins um að spilling verði ekki liðin. Þá eru siðareglur og starfsreglum sem ætlað er tryggja heilindi og gagnsæi raktar og minnt á mikilvægi þess að slíkum reglum sé tryggilega framfylgt og jafnframt að þær séu reglulega endurskoðaðar og uppfærðar. Jafnframt er boðað að settur verði á fót samstarfsvettvangur gegn spillingu þar sem saman komi fulltrúar frá löggæsluyfirvöldum, stjórnsýslu, hagsmunasamtökum sem og sérfræðingar til að vinna að forvörnum og þróa hagnýtar leiðbeiningar til að draga út hættu á spillingu.
Tillaga um nýja tilskipun um varnir gegn spillingu fellur í sér endurskoðun á núverandi lagaramma ESB um varnir gegn spillingu. Helstu atriði tillögunnar eru:
Að gripið sé til fyrirbyggjandi aðgerða til að draga úr líkum á spillingu:
- Með því að hlúa að menningu innan stofnana ESB og í aðildarríkjunum þar sem heilindi eru í hávegum höfð.
- Með því að leita leiða til að auka vitund um mögulega spillingu m.a. með fræðslu og rannsóknum.
- Með því að tryggja að hið opinbera lúti ströngustu reglum um varnir gegn spillingu, m.a. með því að leggja þær skyldur á aðildarríkin að þau setji skilvirkar reglur um opin aðgang að upplýsingum, um varnir gegn hagsmunaárekstrum, um hagsmunaskráningu opinberra starfsmanna og eftirlit með samskiptum og samspili á milli einkaaðila og opinberra aðila o.s.frv.
- Með því að koma á fót sérhæfðum stofnunum er hafi það hlutverk m.a. að veita yfirvöldum fræðslu og þjálfun á þessu sviði.
Að samræma reglur um refsiverð brot og viðurlög:
- Með því að samræma skilgreiningar á mismunandi tegundum spillingarbrota.
- Með því að samræma viðurlög við spillingarbrotum og sjónarmið við ákvörðun refsingar vegna þeirra.
Að tryggja skilvirkar sakamálarannsóknir vegna spillingarbrota og saksókn ef tilefni er til:
- Með því að tryggja lögreglu og saksóknaraembættum viðeigandi rannsóknarúrræði og burði til að sinna þessum málum.
- Með því að tryggja að unnt sé að aflétta hugsanlegri friðhelgi þeirra sem lúta rannsókn eða saksókn með skilvirkum og gagnsæjum hætti.
- Með því að setja lágmarks fyrningarfrest vegna spillingarbrota.
Loks er í tillögunni að finna útvíkkun á heimildum ESB til að beita refsiaðgerðum til bregðast við alvarlegum spillingarbrotum á heimsvísu.
Tillagan gengur nú til umfjöllunar í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Útvíkkun á regluverki um landfræðilega vernd vöruheita
Ráðherraráð ESB og Evrópuþingið náðu samkomulagi í vikunni um efni nýrrar reglugerðar um vernd landfræðilegra vöruheita fyrir handverk og iðnaðarvörur. Með reglugerðinni er regluverk ESB um landfræðilegar afurðamerkingar (e. Geographical indication), sem hingað til hafa eingöngu náð yfir afurðaheiti matvæla, útvíkkað þannig að einnig verði mögulegt að fá vöruheiti handverks- og iðnaðarvara skráð með þeirri vernd sem því fylgir. Meginskilyrði skráningar verður, líkt og með matvælin, að viðkomandi handverk eða vara séu nægjanlega tengd ákveðnu landi eða framleiðslusvæði, svo sem t.d. Bohemian-gler (kristall frá Tékklandi), Limoges-postulín (frá Frakklandi) eða Solingen-hnífapör (frá Þýskalandi).
Eins og fjallað var um í Vaktinni 24. mars sl. þá hlaut íslenskt lambakjöt nýverið vernd sem skráð afurðarheiti hjá ESB sem vísar til landfræðilegs uppruna og sérstöðu íslenska lambakjötsins. Áður hafði íslenskt lambakjöt fengið vernd sem afurðarheiti á Íslandi árið 2018.
Íslensk lopapeysa fékk vernd sem afurðarheiti á Íslandi árið 2020. Með framangreindri reglugerð ESB um vernd landfræðilegra vöruheita fyrir handverk og iðnaðarvörur kunna að skapast forsendur til að fá vöruheitið „íslensk lopapeysa“ skráð hjá ESB.
Óformlegur fundur félags- og vinnumarkaðsráðherra ESB
Þann 3. og 4. maí sl. fór fram óformlegur fundur félags- og vinnumarkaðsráðherra ESB í Stokkhólmi. Félags- og vinnumarkaðsráðherrum EES/EFTA-ríkjanna var boðin þátttaka á fundinum og sótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fundinn fyrir Íslands hönd.
Tvö meginviðfangsefni voru til umfjöllunar á fundinum
Hið fyrra laut að því hvernig unnt sé að mæta áskorunum á vinnumarkaði vegna misvægis í hæfni vinnuafls og þarfa atvinnulífsins og hvaða hlutverki stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins, aðrir haghafar geti gegnt í þeim efnum. Sérstaklega var fjallað um það með hvaða hætti megi nýta átakið sem nefnt er Evrópska færniárið (e. European Year of Skills) sem best til að ná fram betra jafnvægi á milli þarfa atvinnulífsins og hæfni vinnuafls á innri markaðinum.
Á fundinum kom fram mikill samhljómur um mikilvægi þess að fjárfesta í menntun, þar á meðal endurmenntun og símenntun til þess að bregðast við þeim áskorunum sem uppi eru. Mikil áhersla var lögð á samvinnu og samþættingu við stefnumörkun á sviði mennta- og vinnumarkaðsmála auk þess sem mikilvægt væri að hafa víðtækt samráð við haghafa við mótun stefnu og útfærslu aðgerða. Ráðherrar skýrðu frá aðgerðum sem ráðist hefur verið í eða eru fyrirhugaðar í löndum þeirra til þess að bregðast við þessum áskorunum. Mörg landanna hafa m.a. þegar gripið til aðgerða til að laða að vinnuafl frá löndum utan ESB. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags og vinnumarkaðsráðherra, vakti í ræðu sinni athygli á því að mikilvægt væri að stefnumörkun og aðgerðir á þessu sviði byggðu á upplýsingum og gögnum um það hvaða breytingar væru framundan á vinnumarkaði. Hann skýrði frá breytingum á fyrirkomulagi fullorðinsfræðslu sem unnið væri að á Íslandi og aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk. Þá gerði hann grein fyrir aðgerðum í því skyni að auka samfélagslega virkni ungmenna sem ekki hafa náð að fóta sig í námi eða á vinnumarkaði.
Hið seinna laut að því hvernig væri unnt að tryggja nægjanlega og sjálfbæra félagslega vernd í ljósi grænna og stafrænna umskipta og lýðfræðilegra breytinga sem eru að eiga sér stað í Evrópu. Til grundvallar umræðunum lá skýrsla sérfræðihóps sem var falið að skoða leiðir til að efla félagslega vernd bæði á landsvísu og samevrópskum vettvangi.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að hærri lífaldur og lækkuð fæðingartíðni leiði til þess að þörf er á aukinni atvinnuþátttöku fólks en verið hefur. Auk þess þarf að endurskoða félagsleg stuðningskerfi landanna og fjármögnun þeirra til þess að tryggja sjálfbærni þeirra og nægjanleika til framtíðar.
Fram kom að flest landanna séu að leita leiða til að bregðast við þessum áskorunum með því að hvetja sem flesta til atvinnuþátttöku og með því að endurskipuleggja þjónustu við eldra fólk. Mörg ríkjanna hafa einnig leitað leiða til að seinka starfslokum eldra fólks, bæði með því að hækka lögboðinn eftirlaunaaldur og með sveigjanlegum starfslokum og fjárhagslegum hvötum. Þá er leitast við að laða fleiri að umönnunarstörfum m.a. með því að bæta laun og starfsaðstæður en viðbúið er að hærri lífaldur muni leiða til aukinnar eftirspurnar eftir fólki í hjúkrunar- og umönnunarstörf.
Í framsögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kom m.a. fram að mikilvægt væri að huga að fjárfestingu í velferð á öllum æviskeiðum og skýrði hann m.a. frá nýlegum breytingum á lögum í þágu barna og fyrirhuguðum breytingu á örorkulífeyriskerfinu sem miða að því að auka virkni og þátttöku þeirra sem búa við örorku. Hann skýrði einnig frá aðgerðaáætlun í málefnum aldraðra sem er ætlað að bæta andlega heilsu og vellíðan eldra fólks auk þess að nýta betur hæfileika þeirra og reynslu, samfélaginu til heilla.
Skýrsla um netöryggisógnir sem steðja að samgöngum
Þann 21. mars sl. birti Netöryggisstofnun Evrópu, (e. European Union Agency for Cybersecurity – ENISA), skýrslu um netöryggisógnir sem samgöngukerfi Evrópu búa við. Í skýrslunni er gerð grein fyrir netárásum sem greindar voru á tímabilinu janúar 2021 til október 2022, hverjir stóðu að baki þeim, greining á gögnum og þróun netöryggisógna sem beinast að flugi, siglingum, járnbrautastarfsemi og umferð á vegum. Samkvæmt greiningunni má skipta netöryggisógnum sem beinast samgöngukerfum í eftirfarandi flokka:
- frysting upplýsinga og upplýsingakerfa þar sem krafist er fjármuna gegn lausn þeirra (ransomware attacks) (38%),
- ársásir þar sem öryggi gagna er ógnað (e. data related threats) (30%),
- plöntun vírushugbúnaðar af ýmsu tagi, (e. malware) (17%),
- lokun netkerfa með fjölþátta álagsárás (e. denial-of-service (DoS), distributed denial-of-service (DDoS) and ransom denial-of-service (RDoS) attacks) (16%),
- vefveiðar, þar sem reynt er að komast yfir persónuupplýsingar einstaklinga (e. phishing / spear phishing) (10%),
- árásir á aðfangakeðjur (e. supply-chain attacks) (10%)
Greining skýrslunnar leiðir í ljós að flestar netárásir beinast að upplýsingakerfum. Hins vegar er sjaldgæft að árásir beinist að rekstrarkerfum samgangna.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].