Fyrsti leiðtogafundurinn um upplýsingasamfélagið
"Nauðsynlegt er að stuðla að menningarlegri fjölbreytni í upplýsingasamfélaginu" sagði Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra á fyrsta leiðtogafundinum um upplýsingasamfélagið sem nú stendur yfir í Genf.
Í aðalræðu sinni á fundinum varpaði ráðherra m.a. fram þeirri spurningu hvernig hægt er að varðveita gæði í upplýsingaflaumi nútímans. Í máli hans kom fram að líta má á öll lönd heimsins sem þróunarlönd með sameiginlega hagsmuni af því að viðhalda þeirri menningarlegu fjölbreytni sem mótast hefur í aldanna rás.
Fyrsti leiðtogafundurinn um upplýsingasamfélagið stendur nú yfir í Genf. Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða fjarskiptasambandið ásamt ríkisstjórn Sviss hafa undirbúið fundinn. Um 10.000 manns frá 191 landi sækja fundinn og eru í þeim hópi 44 þjóðarleiðtogar ásamt fjölda ráðherra, forstjóra tæknifyrirtækja og alþjóðasamtaka.
Auk aðalræðunnar tók Tómas Ingi þátt í málþingi um fjölmiðlun (World Electronic Media Forum) sem haldið er í tengslum við leiðtogafundinn. Í máli sínu varaði hann við hættum sem fylgja þeirri samþjöppun sem er að verða í alþjóðlegri fjölmiðlun. Hættan er sú að þessi samþjöppun leiði til einsleitni í fréttaflutningi. Mælti hann með að menn fylgdust vel með þeirri þróun sem á sér stað á Internetinu því þar fer nú fram umfangsmikil frétta- og upplýsingamiðlun sem segja má að sé mótvægi við einsleitni alþjóðlegra fjölmiðla.
Sjá upplýsingar um WEMF: www.wemfmedia.org/
Í dagskrá um rafræn tækifæri (Digital opportunities) fjallaði Tómas Ingi m.a. um hvert væri hlutverk opinberra aðila við að mæta þörfum almennings fyrir fjarskiptaþjónustu. Lagði hann áherslu á að hlutverk hins opinbera eigi að vera að móta ramma fyrir samkeppni fyrirtækja á fjarskiptamarkaði. Í fámennum byggðum virðist víða vera erfitt að koma á virkri samkeppni. Þar geta stjórnvöld, að mati ráðherra, stuðlað að uppbyggingu dreifikerfis með útboðum á háhraðanetum fyrir opinberar stofnanir. Nefndi hann sem dæmi FS-netið á Íslandi en það er háhraðanet sem tengir saman framhaldsskóla, símenntunarmiðstöðvar og útstöðvar þeirra víða um land.
Sjá upplýsingar um leiðtogafundinn á www.itu.int/wsis/