Sveitarfélög geti gert kröfu um að hagkvæmar íbúðir verði allt að 25% af byggingarmagni
Drög að frumvarpi um breytingar á skipulagslögum hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 23. október 2022. Markmiðið með breytingunum er að stuðla að aukinni uppbyggingu íbúða á viðráðanlegu verði í samræmi við þörf.
Í frumvarpsdrögunum er lagt til að innleiða svokallað „Carlsberg-ákvæði“ inn í íslenskan rétt að danskri fyrirmynd. Ákvæðið myndi veita sveitarfélögum heimildir til að gera kröfu um allt að 25% af byggingarmagni, samkvæmt nýju deiliskipulagi fyrir tilgreint svæði, skuli vera fyrir hagkvæmar íbúðir, leiguíbúðir eða aðrar íbúðir sem njóta stuðnings ríkis og/eða sveitarfélaga, hvort sem eigandi lands er sveitarfélag, ríki eða einkaaðili. Þrátt fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða auðveldar það sveitarfélögum að geta sett þetta skilyrði í deiliskipulag í stað þess að þurfa að semja um skilyrðið.
Frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun fyrir árin 2022 til 2026 í tengslum við rammasamning innviðaráðuneytisins fyrir hönd ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um húsnæðisuppbyggingu, sem undirritaður var 12. júlí sl.
- Skoða drög að frumvarpi í samráðsgátt
- Frétt ráðuneytisins um rammasamning ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu (12. júlí 2022)