Hoppa yfir valmynd
9. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2020 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 9. júní 2020

í máli nr. 28/2020

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila hafa borið að endurgreiða tryggingarfé þegar eftir riftun leigusamningsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með rafrænni kæru, sendri 13. mars 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 20. mars 2020, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila barst með tölvubréfi, sendu 1. apríl 2020, ásamt staðfestingu á því að tryggingarféð hafi verið endurgreitt. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 2. apríl 2020, til upplýsingar og var óskað eftir afstöðu hennar til upplýsinga varnaraðila, þ.e. hvort hún óskaði eftir því að málið yrði fellt niður þar sem tryggingarféð hefði verið endurgreitt. Með tölvubréfi sóknaraðila, sendu sama dag, fór hún fram á að málið yrði tekið fyrir efnislega og gerði frekari athugasemdir. Athugasemdir sóknaraðila voru sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 17. apríl 2020. Athugasemdir varnaraðila bárust með tölvubréfi, sendu 21. apríl 2020, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Með tölvubréfi sóknaraðila, sendu 21. apríl 2020, bárust frekari athugasemdir og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 22. apríl 2020. Athugasemdir bárust frá varnaraðila með tölvubréfi, sendu 27. apríl 2020, og voru þær sendar sóknaraðila til kynningar með bréfi kærunefndar, dags. 28. apríl 2020. Frekari gögn bárust frá sóknaraðila með tölvubréfi, sendu 4. maí 2020, og voru þær kynntar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 2. júní 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. mars 2020 til 31. ágúst 2020 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Ekki kom til þess að sóknaraðili flutti í íbúðina og var leigusamningnum rift 6. mars 2020. Ágreiningur er um hvort varnaraðila hafi borið að endurgreiða sóknaraðila tryggingarféð við riftun leigusamningsins.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að hún hafi aldrei flutt inn í íbúðina vegna ástands hennar en ekki hafi verið búið að tæma hana er hún hafi fengið hana afhenta og veggir, gólf og heimilistæki hafi verið óhrein.  Hafi hún sent varnaraðila skriflega riftunaryfirlýsingu með tölvupósti 6. mars 2020. Varnaraðili hafi ekki viljað endurgreiða tryggingarféð að fjárhæð 345.000 kr. fyrr en eftir næstu mánaðamót.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að tryggingarféð hafi verið endurgreitt 1. apríl 2020.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að það hafi verið kostnaðarsamt fyrir hana að hafa ekki fengið tryggingarféð þegar endurgreitt við riftun þar sem hún hafi þurft að ráða lögfræðing sem hafi verið kostnaðarsamt.

 

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila segir að tryggingarféð hafi verið endurgreitt 1. apríl 2020 eins og sóknaraðili hafi verið upplýst um. Reikningar hjá varnaraðila séu greiddir út einu sinni í mánuði og eftir að samningi hafi verið rift hafi tryggingarféð farið í greiðsluferli hjá honum og verið greitt út samkvæmt því. Þess megi geta að sá sem annist greiðslurnar hafi ekki verið við frá því að riftunin hafi verið samþykkt í kringum 10. mars 2020 og fram til greiðsludags 1. apríl 2020.

VI. Frekari athugasemdir sóknaraðila      

Sóknaraðili segir að útskýrt hafi verið fyrir henni að tryggingarféð yrði ekki endurgreitt fyrr en næstu mánaðamót en hún hafi ávallt mótmælt því og krafist útskýringa á hvaða lagalega grundvelli það væri í lagi að halda því eftir.

Sóknaraðili hafi óskað eftir riftun leigusamningsins 2. mars 2020 en varnaraðili neitað því. Hún hafi því ráðið lögfræðing til að skoða samninginn. Þann 5. mars 2020 hafi hún aftur farið í íbúðina til að taka myndir þar sem hún hafi átt viðtalstíma með lögfræðingi sínum næsta dag en þann dag hafi riftun sóknaraðila verið samþykkt. Lögfræðingur sóknaraðila hafi sent kröfu 9. mars 2020 um að tryggingarfénu yrði skilað. Sóknaraðili hafi ítrekað beiðnina 12. mars 2020. Varnaraðili hafi þá sagt að enginn yrði við vinnu í bókhaldinu fyrr en um mánaðamótin en þó hafi verið unnt að senda sóknaraðila greiðsluáskorun í heimabanka hennar. Sú greiðslukrafa hafi verið fjarlægð.

VI. Frekari athugasemdir varnaraðila      

Varnaraðili upplýsir að hann skilji ekki hvert sóknaraðili sé að fara með þessari kæru og vísi til þess að rangfærslur séu í tölvubréfum sóknaraðila sem séu ekki svaraverðar. 

VI. Niðurstaða             

Óumdeilt er að ekki kom til þess að sóknaraðili flutti í hið leigða og að varnaraðili samþykkti riftun sóknaraðila á leigusamningi aðila 9. mars 2020. Deilt er um hvort varnaraðila hafi borið að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 345.000 kr. þegar við riftunina.

Samkvæmt 1. málsl. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, skal leigusali svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingarfé samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Hafi leigusali ekki gert kröfu samkvæmt 1. málsl. skal hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu.

Sóknaraðili lýsti yfir riftun á samningi aðila 6. mars 2020 og frá þeim tíma hafði varnaraðili fjórar vikur til þess að gera kröfu í tryggingarféð samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þá liggur fyrir að varnaraðili endurgreiddi tryggingarféð inn á reikning sóknaraðila innan fjögurra vikna frestsins, eða 1. apríl 2020. Að því virtu telur kærunefnd að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þegar af þeirri ástæðu er málinu vísað frá kærunefnd.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er vísað frá.

 

Reykjavík, 9. júní 2020

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta