Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2020

Aðgerðir vegna COVID-19

Stefnumótun hjá Evrópusambandinu og starf fastanefndarinnar í Brussel við að gæta hagsmuna Íslands.

Tekist á um fjármögnun efnahagsaðgerða

Leiðtogafundur ESB var haldinn með fjarfundabúnaði 26. mars síðastliðinn. Ekki fékkst niðurstaða um aðgerðir til stuðnings þeim ríkjum sem hafa orðið verst úti af völdum COVID-19 farsóttarinnar. Samkvæmt fréttatilkynningu var Evru-hópnum svokallaða (fjármálaráðherrar þeirra 19 ríkja sem hafa tekið upp evruna) falið að útfæra nánar innan tveggja vikna mögulegar ráðstafanir.

Samkvæmt fjölmiðlum vilja ítölsk stjórnvöld að gefin verði út skuldabréf í evrum sem ríkin standi saman á bak við til að fjármagna endurreisn efnahagslífsins og njóta þar stuðnings Frakka, Spánverja og fleiri á meðan Hollendingar, Þjóðverjar, Finnar og Austurríkismenn hafi miklar efasemdir.

Lagt til að auka slaka í ríkisfjármálum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði til 20. mars sl. að aukinn slaki verði gefinn í ríkisfjármálum aðildarríkja og að virkjað verði varúðarákvæði í Stöðugleika- og vaxtarsamningnum. Fallist ráðherraráðið á þessa tillögu mun það gera aðildarríkjunum kleift að takast á við afleiðingar farsóttarinnar á efnahagslíf án þess að vera bundin af skorðum sem venjulega eru við hallarekstri ríkissjóðs.

Samhæfð efnahagsleg viðbrögð

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf 13. mars út orðsendingu um samhæfð efnahagsleg viðbrögð við farsóttinni (Communication on a Coordinated economic response to the COVID-19 outbreak). Þar eru nefndar aðgerðir sem heimilt er að grípa til án þess að fari í bága við ríkisaðstoðarreglur. Þannig geti aðildarríkin breytt reglum almennt í þágu fyrirtækja (frestað innheimtu opinberra gjalda, niðurgreitt skammtímaverkefni á öllum sviðum til dæmis). Þá geti stjórnvöld greitt bætur vegna tjóns sem fyrirtæki verða fyrir með beinum hætti vegna farsóttarinnar. Það geti sérstaklega átt við um ferðaþjónustu, samgöngur, verslun og gisti- og veitingahúsageirann.

Lögð er áhersla á samstöðu ESB-ríkja þannig að áfram sé hægt að flytja nauðsynjavörur milli landa. Sama eigi við um lyf og lækningavörur.

Sveigjanlegar reglur um ríkisaðstoð

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti 19. mars tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til að styðja við efnahagslífið andspænis COVID-19 farsóttinni (Temporary Framework). Þar eru sérstaklega nefndar fimm leyfilegar aðgerðir og skilyrði fyrir þeim útlistuð: 1. Beinir styrkir, skattaívilnanir á afmörkuðum sviðum og lán, 2. Ríkisábyrgð á lánum fyrirtækja, 3. Niðurgreidd lán á hagstæðum vöxtum, 4. Opinber stuðningur við fyrirtæki í gegnum bankakerfi, 5. Skammtímagreiðsluvátrygging vegna útflutnings. Aðgerðum af þessu tagi hefur verið markaður tímarammi út árið 2020.

Þá hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sett upp teymi til að aðstoða Ísland, Noreg og Liechtenstein við túlkun ríkisstyrkjareglna og til að bregðast skjótt við fyrirspurnum stjórnvalda.

Hömlur á útflutningi hlífðarbúnaðar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað 14. mars síðastliðinn að leggja hömlur á útflutning hlífðarbúnaðar sem nýst gæti til að takast á við farsóttina af völdum COVID-19. Var það gert með reglugerð (ESB) 2020/402. Sjá fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.

EFTA-ríkin mótmæltu því að við þessa ákvörðun væri ekki tekið tillit til náinna tengsla við þau. Í framhaldinu breytti framkvæmdastjórnin ákvörðun sinni þannig að EFTA-ríkin skyldu undanskilin, með reglugerð (ESB) 2020/426. Sjá fréttatilkynningu frá EFTA-skrifstofunni.

EFTA-ríkin hafa hvert fyrir sig haft til skoðunar að fyrir vikið verði hömlur lagðar á útflutning á sambærilegum búnaði frá þeim og hafa reglur þess efnis þegar verið settar í hinum EFTA-ríkjunum.

Aðgengi að hlífðarbúnaði og lækningavörum

Framkvæmdastjórn ESB hefur staðið fyrir útboðum vegna kaupa aðildarríkjanna á hlífðarbúnaði og lækningavörum sem þörf er á í viðureigninni við farsóttina. Er þetta gert á grundvelli samkomulags aðildarríkjanna um sameiginleg útboð sem Noregur og Bretland hafa átt aðild að. Í vikunni var tilkynnt að Ísland væri nú einnig orðið aðili að samkomulaginu.

Framkvæmdastjórnin gaf út tilmæli 13 mars sl.. til aðildarríkjanna um að eftirlitsaðilar gerðu það sem í þeirra valdi stæði til að umsóknir um markaðssetningu á nýjum vörum og búnaði á þessu sviði gætu hlotið skjóta afgreiðslu. Eftirlitsstofnun EFTA gaf í kjölfarið úr sambærileg tilmæli

Þá var ákveðið 20. mars sl. að evrópskir staðlar á þessu sviði yrðu gerðir aðgengilegir án endurgjalds þeim fyrirtækjum sem hefðu áhuga á. Þannig mætti stuðla að aukinni framleiðslu á nauðsynlegum vörum án tafa og að uppfylltum heilbrigðis- og öryggisstöðlum.

Staðlar á þessu sviði voru líka uppfærðir 24. mars samkvæmt tilkynningu frá framkvæmdastjórninni. Þá hefur verið ákveðið að framkvæmdastjórnin komi upp varabirgðum af ýmsum búnaði sem nýst geti þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Takmörkun á ónauðsynlegum ferðum yfir ytri landamæri ESB og Schengen-svæðisins

Í því skyni að hefta útbreiðslu COVID-19 mælti framkvæmdastjórn ESB með því 16. mars sl. að aðildarríkin myndu í 30 daga setja hömlur á ferðir frá þriðju ríkjum. Eftir að þessi tillaga var samþykkt af leiðtogum ESB eru þessar hömlur nú í gildi í öllum aðildarríkjum ESB (nema Írlandi) og samstarfsríkjum Schengen (Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss). Í kjölfarið gaf framkvæmdarstjórnin út leiðbeiningar um innleiðingu og framkvæmd á framangreindum ferðatakmörkunum, hvernig megi aðstoða ríkisborgara aðildarríkjanna við að komast aftur til síns heima og fyrirkomulag við útgáfu vegabréfsáritana. Þá gaf framkvæmdarstjórnin jafnframt út leiðbeiningar um frjálsa för vinnuafls, þ.e. þeirra sem vinna þvert á landamæri.

Umferð um innri landamæri ESB og Schengen-svæðisins

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt áherslu á að aðildarríkin verði að stilla saman strengi þegar kemur að takmörkun umferðar um landamæri milli ríkjanna. Ef tafir verði á vöruflutningum þá geti það valdið alvarlegum vandræðum. Þetta eigi ekki hvað síst við um flutning á lyfjum, hlífðarbúnaði og annarri vöru til sjúkrahúsa, læknastofa og hjúkrunarheimila.

Í þessu ljósi gaf framkvæmdastjórnin 16. mars sl. út leiðbeiningar um landamæraeftirlit á innri landamærum ESB og Schengen-svæðisins. Í kjölfarið fylgdu leiðbeiningar 20. mars sl. um grænar akreinar (green lanes) þar sem allir vöruflutningar ættu að geta farið í gegn með að hámarki 15 mínútna töf.

Vannýttar heimildir til flugtaks eða lendingar

Farsóttin hefur leitt til þess að flugumferð hefur dregist stórlega saman. Gildandi reglur kveða á um að við úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum skuli tekið tillit til nýtingarreynslu viðkomandi flugfélags. Hafa flugfélög þurft að nýta 80% af heimildum sínum til að halda rétti sínum við endurúthlutun. Undanþágur hafa einungis verið leyfðar ef flug hafa fallið niður vegna lokunar flugvalla, flugbanns á tilteknar gerðir flugfélaga eða af hliðstæðum orsökum. Þetta hefur haft þær afleiðingar að flugfélög hafa í sumum tilvikum séð sig knúin til að viðhalda flugi án þess að það svaraði kostnaði og afgreiðslutímar hafa ekki verið lausir fyrir aðra sem hefðu viljað nýta þá. Evrópusambandið samþykkti því 30. mars sl. breytingu á reglum um þetta efni og er kveðið á um að á tilteknu tímabili á þessu ári skuli horft fram hjá áhrifum farsóttarinnar þegar nýtingarreynsla flugfélaga verður skoðuð við endurúthlutun heimilda. Sjá Regulation (EU) 2020/459 of the European Parliament and of the Council of 30 March 2020 amending Council Regulation (EEC) No 95/93 on common rules for the allocation of slots at Community airports.

Gert er ráð fyrir að þessi nýja gerð verði tekin uppi í EES-samninginn innan tíðar.

Réttindi flugfarþega

Stórfelld röskun á flugi gerir það að verkum að fyrirhuguð ferðalög almennings hafa farið úr skorðum. Um þetta efni gilda ítarlegar reglur um réttindi flugfarþega. Framkvæmdastjórn ESB gaf 18. mars sl. út leiðbeiningar um túlkun gildandi reglna þar sem meðal annars er tekið á því að hvaða marki flugfélög geta boðið upp á inneignarnótu í stað endurgreiðslu.

Leiðbeiningar um erlendar fjárfestingar

Undanfarnar vikur hafa fjölmiðar flutt fréttir af því að kínverskir aðilar kunni að vilja nýta sér kreppu í Evrópu í tengslum við COVID-19 til að hasla sér enn frekar völl í heilbrigðisgeiranum. Þá vakti einnig athygli að Trump Bandaríkjaforseti hefði að sögn freistað þess að ná sérleyfissamningum við danskt fyrirtæki sem hygðist framleiða bóluefni gegn veirunni.

Framkvæmdastjórn ESB gaf 25. mars 2020 út leiðbeiningar (guidelines) um erlendar fjárfestingar á tímum lýðheilsukreppu og viðkvæmrar stöðu í efnahagsmálum. Markmiðið er að vernda fyrirtæki innan sambandsins og mikilvægar eignir sem tengjast heilbrigðismálum, rannsóknum í læknavísindum, líftækni og innviðum sem eru ómissandi fyrir öryggi og allsherjarreglu, án þess þó að grafa undan almennt jákvæðu viðhorfi til erlendrar fjárfestingar.

Fram kemur í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar að tryggja verði að erlendar fjárfestingar dragi ekki úr getu sambandsins til að mæta þörfum borgara sinna fyrir heilbrigðisþjónustu. Sú staða kunni að vera uppi að eftirspurn fyrirtækja eftir fjármagni og lágt hlutabréfaverð bjóði hættunni heim.

Þá er minnt á reglugerð Evrópusambandsins um skimun erlendra fjárfestinga sem samþykkt var í mars 2019. Þar er mælt fyrir um að aðildarríkin og framkvæmdastjórn ESB skiptist á upplýsingum um erlendar fjárfestingar með það fyrir augum að hægt sé að grípa inn í og leggja til varnaraðgerðir. Reglugerðin tekur að fullu gildi 11. október næstkomandi. Í nýju leiðbeiningunum eru aðildarríkin hvött til að bíða ekki boðanna heldur hefja nú þegar innleiðingu reglugerðarinnar.

Þess má geta að reglugerðin er utan við gildissvið EES-samningsins þar sem hún fellur undir öryggis- og varnarmál.

Matvælaöryggi

Landbúnaður hefur orðið fyrir skakkaföllum vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar COVID-19 farsóttarinnar. Til að styðja við bændur hefur framkvæmdastjórnin framlengt umsóknarfrest vegna styrkja innan ramma sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar. Þá hefur verið vakin athygli á því að sveigjanlegar reglur um ríkisaðstoð geti nýst bændum og öðrum matvælaframleiðendum.

Áhrifin á sjávarútveg, fiskvinnslu og fiskeldi eru síst minni. Fyrir utan sveigjanlegu ríkisstyrkjareglurnar geta fyrirtæki á þessu sviði notið góðs af fjárfestingarátaki sem kennt er við kórónuveiruna og styrkja úr sjávarútvegs- og fiskveiðisjóði ESB.

Þá hefur framkvæmdastjórnin verið með til skoðunar að liðka fyrir flutningi matvæla milli landa, mögulega með breytingum á reglum í því augnamiði meðal annars að hraða og einfalda afgreiðslu hjá stjórnvöldum sem framfylgja heilbrigðiskröfum.

Samstarf um rannsóknir

Mikill þrýstingur er nú á rannsóknasamfélagið að koma með lausnir sem duga í viðureign við farsóttina. Skjót upplýsingamiðlun er lykilatriði til að auka skilning á líffræði, faraldursfræði, smitleiðum og þróun COVID-19 veirunnar.

Lífupplýsingastofnun Evrópu (EBI), Evrópska rannsóknarstofnunin í sameindalíffræði (EMBL), framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og fleiri vinna nú að því að koma á laggirnar evrópsku gagnamiðlunarkerfi sem yrði tengt við Evrópska opna vísindaskýið (EOSC).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta