Undirbúningur að smíði bráðabirgðabrúar yfir Múlakvísl hafinn
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fór í dag að Múlakvísl skammt austan við Vík þar sem Hringvegurinn er rofinn vegna flóðs í Múlakvísl í nótt. Vegagerðin hefur þegar hafið undirbúning að byggingu bráðabirgðabrúar sem gæti tekið allt að þremur vikum.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Kjartan Þorkelsson sýslumaður á Hvolsvelli, fulltrúar sveitarfélagsins og fleiri áttu fund í Vík um kvöldmatarleytið þar sem farið var yfir stöðu mála. Ljóst er að hringvegurinn verður lokaður meðan bygging bráðabirgðabrúar stendur yfir en hægt er að komast um Suðurland um Fjallabaksleið nyrðri. Sú leið er hins vegar ekki fær öllum bílum og rétt er að vara við að fólk fari þar um nema á traustum bílum.
Vegagerðin hóf strax í morgun undirbúning að smíði bráðabirgðabrúar en hún á þegar efni í slíka brú og brúargerðarflokkar hafa verið kallaðir úr fríi til að hefja verkið. Tjónið á hringveginum er umtalsvert en smíði nýrrar varanlegrar brúar auk lagfæringa á veginum og varnargörðum gæti kostað 400-500 milljónir. Óljóst er hvenær slík brú verður komin í gagnið.
Ögmundur Jónasson segir að ríkisstjórnin muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að stuðla að því að vegasamband komist á sem fyrst enda þýðingarmikið fyrir ferðaþjónustu og annað atvinnulíf og byggðarlögin á svæðinu.