Fjölmenni á ráðstefnu um réttarstöðu og velferð barna við andlát foreldris
Kristín Haraldsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, flutti fundarmönnum kveðju Ólafar Nordal innanríkisráðherra og las ávarp í hennar nafni. Kom þar fram að ráðherra telur mikilvægt að opna umræðuna um þetta mikilvæga málefni þar sem bæði stjórnvöld og fagfólk gegni lykilhlutverki. Rétt viðbrögð vegna barna sem missa foreldri væru afar mikilvæg og talið að þau geti haft áhrif á vellíðan barns til framtíðar. Markmið ráðstefnunnar væri að miðla þekkingu um stöðu málefnisins, vekja umræðu og hafa áhrif til umbóta. Þakkaði hún sérstaklega frumkvæði þeirra Jóns Bjarnasonar og Sigrúnar Júlíusdóttur fyrir að standa að þessari umfjöllun.
Frá ráðstefnu um réttindi og velferð barna við andlát foreldris.
Fyrsta rannsókn sinnar tegundar hérlendis
Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, greindi frá rannsókn um stöðu barna við andlát móður úr krabbameini – raddir barnanna. Sagði hún rannsóknina þá fyrstu sinnar tegundar hér á landi. Kom m.a. fram í erindi hennar að börn gleymist í áföllum fullorðinna og lítill gaumur sé gefinn að líðan þeirra og aðstæðum. Einnig kom fram ósk hennar um að ráðstefnan yrði hvati að skýrari stefnumótun bæði í löggjöf og ekki síður í þjónustu sem snertir líðan og velferð barna sem verða fyrir áföllum, sorg og missi foreldris
Sigrún Júlíusdóttir kynnti rannsókn sína.
Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands, ræddi um íslenska löggjöf sem snertir rétt og velferð barna við andlát foreldris. Fram kom að eftir andlát foreldris reyni helst á barnalög, barnaverndarlög, ættleiðingarlög og erfðalög. Við andlát foreldris sé miðað að því að reyna að raska sem minnst stöðu barns til að tryggja öryggi þess en fyrst og fremst sé hugsað um það hvað sé líklegast að sé barninu fyrir bestu.
Þá greindu þær Edda Jóhannsdóttir og Elfa María Geirsdóttir frá niðurstöðum lokaritgerða sinna og Sólveigar Bjargar Arnarsdóttur við félagsráðgjafardeildina sem fjölluðu um stöðu barna við andlát foreldris. Kom m.a. fram hjá þeim að auka þurfi umræðu og þekkingu á sorg og sorgarviðbrögðum barna í samfélaginu og auka og efla þurfi markvissa þjónustu við börn sem missa foreldri sitt og aðstandendur þeirra. Jafnframt kom fram að 75% skóla eru með skriflega áfallaáætlun sem þeir fara eftir þegar andlát verður hjá nemanda.
Hægt að grípa fyrr til aðgerða
Síðustu tvö erindin fluttu Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur á Landspítala, sem fjallaði um sjálfstæðan rétt barna í sjúkdómsferli og við andlát foreldris og Gunnlaug Thorlacius, formaður Geðverndarfélags Íslands og félagsráðgjafi á Landspítala, sem sagði frá tilraunaverkefni í forvörnum á Landspítala sem tengist Fjölskyldubrúnni. Í erindi Vigfúsar Bjarna kom m.a. fram að hægt sé að grípa fyrr til aðgerða varðandi börn en oft séu börn komin í áfallameðferð eftir andlát foreldris þegar hægt hafi verið að undirbúa þau fyrr. Í erindi Gunnlaugar kom fram að meginmarkmið Fjölskyldubrúarinnar sé m.a. að koma auga á verndandi þætti, að efla samskipti og skilning innan fjölskyldunnar og hvetja til opinnar umræðu. Einnig kom fram að til þess að festa verklag í sessi þurfi ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna og réttur barna að vera færður í lög líkt og þekkist í nágrannalöndum, upplýsingar um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna þurfa að vera aðgengilegar auk þess sem öflug fræðsla þarf að vera til staðar fyrir opinbera starfsmenn um mikilvægi þess að huga að börnum.
Að loknum erindunum voru pallborðsumræður. Þátttakendur voru Séra Bragi Skúlason, Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur, Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur hjá umboðsmanni barna, Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri hjúkrunar krabbameinsdeildar Landspítalans, Sigurður Rafn Levy, sálfræðingur á barna- og unglingageðdeild, Valgerður Sigurðardóttir, yfirlæknir á líknardeild Landspítalans og Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.
Lokaorðin átti Jón Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, sem þakkaði fyrir góða ráðstefnu. Sagði hann umfjöllunarefnið brýnt og þarft að fjalla um það út frá öllum sjónarhornum er sneru að velferð barna og mikilvægt að fylgja málinu eftir.