Yfirgnæfandi stuðningur í allsherjarþinginu við ályktun um mannúðarhlé á Gaza
Ályktun, þar sem kallað er eftir tafarlausu vopnahléi á Gaza af mannúðarástæðum, framfylgd alþjóðalaga, vernd óbreyttra borgara, tafarlausri lausnar gísla og tryggu mannúðaraðgengi, var samþykkt með yfirgnæfandi stuðningi á neyðarfundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Ísland kaus með ályktuninni og var meðflytjandi að henni.
Þá studdi Ísland sömuleiðis breytingartillögur Bandaríkjanna og Austurríkis, um að fordæma hryðjuverkaárás Hamas og gíslatökur hryðjuverkasamtakanna þann 7. október síðastliðinn, sem ekki náðu auknum meirihluta atkvæða til að ná fram að ganga.
„Þetta er mikilvægur áfangi og við hljótum að bera von í brjósti um að hann sé skref í átt að friði. Raunir almennra borgara eru óbærilegar og grundvallaratriði að sátt náist um vopnahlé af mannúðarástæðum, óhindrað aðgengi neyðaraðstoðar og tafarlausa lausn gísla Hamas. Afstaða Íslands á allsherjarþinginu í kvöld er í samræmi við skýran málflutning okkar frá upphafi í þessum efnum,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Í atkvæðaskýringu Íslands var harmað að ekki hafi náðst samstaða um að fordæma hrottalega hryðjuverkaárás Hamas, enda aldrei hægt að réttlæta hryðjuverk, og á það bent að fordæming á voðaverkunum og tilvísun í þau myndi ekki draga úr vægi ályktunarinnar. Þetta girti þó ekki fyrir meðflutning og stuðning Íslands við ályktunina, í ljósi átakanlegrar stöðu mannúðarmála á Gaza og óásættanlegs mannfalls meðal óbreyttra borgara.
Þá var ítrekuðu ákalli Íslands um tafarlaust og viðvarandi vopnahlé á Gaza af mannúðarástæðum, undantekningarlausa framfylgd deiluaðila við alþjóðalög, vernd óbreyttra borgara og tafarlausa lausn gísla komið skýrt á framfæri í atkvæðaskýringu Íslands, í samræmi við ályktun Alþingis frá 9. nóvember.
„Mannfall óbreyttra borgara er óásættanlegt. Allir aðilar að þessum átökum verða að fara að alþjóðlegum mannúðarlögum. Þessi hringrás ofbeldis verður að hætta,“ sagði Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í ræðu sinni í kvöld.
Loks ítrekuðu íslensk stjórnvöld nauðsyn þess að tryggja brýna og fullnægjandi mannúðaraðstoð og að brugðist verði við alvarlegum vanda Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) sem ber hitann og þungann af allri mannúðaraðstoð á Gaza.
Breytingartillögur náðu ekki auknum meirihluta og féllu
Neyðarfundur allsherjarþingsins kom saman í dag, öðru sinni frá því að átökin brutust út eftir hryðjuverkaárásina 7. október síðastliðinn. Ályktunin sem var samþykkt með 153 atkvæðum gegn 10, var lögð fram af Egyptalandi og Máritaníu fyrir hönd Araba- og múslimaríkja, en 23 ríki sátu hjá. Alls voru 104 ríki meðflytjendur að ályktuninni, þeirra á meðal líkt þenkjandi ríki á borð við Ísland, Noreg og Finnland, ásamt nokkrum ríkjum Evrópusambandsins.
Fyrrgreind breytingartillaga Bandaríkjanna, sem var nær samhljóða breytingartillögu Kanada sem lögð var fram við síðustu atkvæðagreiðslu neyðarfundarins, náði ekki auknum meirihluta sem þarf til að hljóta brautargengi í neyðarumræðu allsherjarþingsins. 84 ríki studdu hana en 62 kusu gegn.
Breytingartillaga Austurríkis, þar sem gengið var lengra í að draga fram ábyrgð Hamas á gíslatökunum 7. október, náði sömuleiðis ekki tilskildum fjölda atkvæða. 89 ríki studdu en 61 kusu gegn henni.
Í liðinni viku sendi Ísland ásamt hinum Norðurlöndunum bréf til stuðnings aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þar sem kallað var eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza í ljósi alvarlegrar stöðu mannúðarmála. Þá var Ísland meðflytjandi ályktunar sama efnis sem lögð var fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þann 8. desember síðastliðinn en náði ekki fram að ganga.
Hægt er að lesa ræðu fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hér.