Hoppa yfir valmynd
23. mars 2013 Utanríkisráðuneytið

EFTA-ríkin vilja aðkomu að fríverslunarsamningi ESB og Bandaríkjanna

Espen Barth Eide og Össur Skarphéðinsson undirrita samstarfssamkomulag.

Hætta er á að samkeppnisstaða fyrirtækja í EFTA-ríkjunum versni gagnvart fyrirtækjum innan Evrópusambandsins ef Bandaríkin og ESB ljúka gerð fríverslunarsamnings sín á milli eins og nú er fyrirhugað án þátttöku EFTA ríkjanna. Þetta var rætt á fundi Össur Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra með Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Norð,-manna og Trond Giske, utanríkisviðskiptaráðherra, í opinberri heimsókn Össurar í Noregi síðustu daga.
 
Norsku ráðherrarnir voru sammála íslenska utanríkisráðherranum um að nauðsynlegt væri fyrir EFTA ríkin að freista aðkomu að samningnum, annaðhvort með tvíhliða samningum eða gegnum EFTA,  og hafa aðkomu að samningagerðinni frá upphafi. Samþykkt var að ræða leiðir í þessum efnum frekar á vorfundi EFTA-ráðherranna. Fagnaði Trond Giske frumkvæði íslenska ráðherrans í málinu, en Össur hafði áður óskað formlega eftir að EFTA-ríkin ræddu málið hið fyrsta, í kjölfar samskipta hans við John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir skömmu. 
 
Auk fundanna með utanríkisráðherranum og utanríkisviðskiptaráðherranum átti Össur í heimsókninni fundi með Ola Borten Moe, olíumálaráðherra, og einnig með Jonas Gahr Störe, heilbrigðisráðherra Norðmanna. Ráðherra heimsótti Stórþingið og hitti þar Dag Terje Andersen, forseta þingsins, og átti fund með utanríkis- og varnarmálanefnd þingsins. Þá gekk ráðherra á fund Haraldar V Noregskonungs. 
 
Á fundi utanríkisráðherranna var sjónum einkum beint að norðurslóðum og undirrituðu ráðherrarnir af því tilefni samkomulag um aukið samráð um þróun olíuiðnaðar, efnahagsþróun, ferðamannaiðnað, samgöngumál og almenn pólitísk málefni á norðurslóðum. Utanríkisráðherra ræddi um þau tækifæri sem felast í því að byggja upp þjónustu á Íslandi vegna olíuleitar, ekki eingöngu fyrir Drekasvæðið og svæðin við austurströnd Grænlands, heldur einnig fyrir Jan Mayen svæðið, ákveði norsk stjórnvöld að ráðast í olíuleit þar eins og útlit er fyrir. Lega Íslands, hérlend tækni- og verkþekking, sem og hafnaraðstaða og innviðir á Norður- og Austurlandi gera landið að ákjósanlegri þjónustumiðstöð vegna þróunar olíuiðnaðar á svæðinu norður af Íslandi.     
 
Ráðherrarnir lýstu ánægju með vísindasamstarf Noregs og Íslands byggt á samkomulagi ríkjanna frá því í september 2011. Prófessorsstaða við Háskólann á Akureyri hefur nú verið sett á fót og 37 styrkjum hefur þegar verið úthlutað til rannsókna og fræðistarfa á málefnum norðurslóða. Ísland og Noregur leggja áherslu á öflugt starf Norðurskautsráðsins og ræddu ráðherrarnir helstu málefni sem verða á dagskrá næsta ráðherrafundar ráðsins í maí næstkomandi. Ráðherrarnir ræddu Evrópumál, málefni EES-samningsins, samstarf ríkjanna innan Atlantshafsbandalagsins, norræna samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og málefni Palestínu. Þá fór ráðherra ítarlega yfir stöðu aðildarviðræðna Íslands við ESB og makríldeiluna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta