Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2011 Innviðaráðuneytið

Ræddu fyrirkomulag og aukna áherslu á almenningssamgöngur

Innanríkisráðuneytið boðaði til fundar um almenningssamgöngur  með landshlutasamtökum sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Strætó bs. og fleirum 14. febrúar. Tilgangurinn var að leiða saman þá sem sinna almenningssamgöngum og ræða mögulegt samstarf landshlutasamtaka og  Strætó bs.

Almenningssamgöngur - fundur 14. febrúar með landshlutasamtökum sveitarfélaga og fleiri aðilum.
Almenningssamgöngur - fundur 14. febrúar með landshlutasamtökum sveitarfélaga og fleiri aðilum.

Ráðuneytið hefur undanfarið unnið að stefnumörkun í almenningssamgöngumálum og meðal annars tekið saman upplýsingar um kostnað við almenningssamgöngur og nýtingu þeirra og hefur sett fram stefnumótun í málaflokknum. Er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarínnar, samgönguáætlun og sóknaráætlunina Ísland 20/20.

Í upphafi fundar ræddu þeir Hermann Sæmundsson, skrifstofstjóri í ráðuneytinu og Þorsteinn Hermannsson sérfræðingur um gerð samgönguáætlunar og tengsl höfuðborgarsvæðis við hana. Þá lýsti Ásmundur Friðriksson, sveitarstjóri í Garðinum, fyrirkomulagi almenningssamgangna á Suðurnesjum sem hafa verið samþættar fyrir nokkru með því að  bæjarfélögin eru nú tengd saman í eitt net sem einnig tengist höfuðborginni gegnum Flugrútuna og Keilisrútuna. Reynslan hefur verið góð og farþegum fjölgað.

Reynir Jónsson, forstjóri Strætó bs., kynnti starfsemi fyrirtækisins og þá þjónustu sem byggðasamlagið getur hugsanlega veitt sveitarfélögum og samtökum þeirra. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, lýsti reynslunni af samskiptunum við Strætó bs. sem hefur tengt Árborgarsvæðið og Hveragerði við höfuðborgarsvæðið.

Í umræðum kom meðal annars fram að vandi almenningssamgangna í hnotskurn er fámenni í stóru landi og að aðstæður væru mismunandi eftir landsvæðum. Rætt var um þá hugmyndafræði að reyna að fella hvert sæti á ferð, þ.e. einkabíla, atvinnubifreiðar í öðrum erindum auk strætisvagna og hópbifreiða, inní almenningssamgöngukerfið. Jafnframt að sameina hina ýmsu hópa sem þurfa að komast á milli staða svo sem framhaldsskólanema, grunnskólabörn, aldraða, fatlaða og svo framvegis. Bent var einnig á þær ólíku þarfir sem eru þegar bornar eru saman ferðir framhaldsskólanema annars vegar og grunnskólanema hins vegar.

Almenningssamgöngur - fundur 14. febrúar með landshlutasamtökum sveitarfélaga og fleiri aðilum.

Bent var einnig á ýmsar hindranir sem þar gætu verið í veginum svo sem trygginga- og atvinnuréttindamál. Aðrar hindranir eru til dæmis mismunandi eðli samgangna þar sem sum samgöngukerfi þurfa lítinn eða engan opinberan stuðning en annars staðar er verið að fjalla um tengingar við afskekkt byggðarlög eða eyjar þar sem sjá þarf íbúum fyrir grunnsamgönguþjónustu.

Fram kom að þar sem stórfyrirtæki reka eigin samgönguþjónustu, til dæmis í sambandi við stóriðjuver, væri unnt að koma á samvinnu um að tengja saman hið almennu kerfi og samgönguþjónustu fyrirtækjanna til hagsbóta fyrir báða.

Fjárveitingar til málaflokksins eru dreifðar og hjá nokkrum ráðuneytum. Þannig er  endurgreiðsla olíugjalds til dæmis á forræði fjármálaráðuneytis, kostnaður við akstur framhaldsskólanema hjá menntamálaráðuneytinu, styrkir til almenningssamgangna (ferjur, flug, rútuferðir) hjá innanríkisráðuneytinu og fjárveitingar til aksturs aldraðra og fatlaðra hjá sveitarfélögum.

Í máli fulltrúa landshlutasamtakanna kom fram fundurinn hefði verið gagnlegur og að alls staðar væri hugað að því að gera þessa þjónustu hagkvæmari og betri.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta