Opinber stuðningur við vísindarannsóknir – lagabreytingar í Samráðsgátt
Frumvarp um breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir hefur verið sett í Samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum er varða þátttöku Rannsóknasjóðs í samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana og að sjálfstæð stjórn verði sett yfir Innviðasjóð.
Sameiginleg stjórn hefur verið yfir Rannsóknasjóði og Innviðasjóði þrátt fyrir að eðli sjóðanna sé talsvert ólíkt. Rannsóknarsjóður veitir styrki til einstakra rannsóknarverkefna án þess að sjóðurinn leggi áherslu á tiltekin fræðasvið eða rannsóknarefni. Hlutverk Innviðasjóðs er hins vegar að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi en þeir eru nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að stunda vísindarannsóknir. Verkefnahópur Vísinda- og tækniráðs um rannsóknarinnviði og vöktun lagði til í skýrslu sinni „Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar“ frá árinu 2017 að tenging Innviðasjóðs við stefnumörkun stjórnvalda yrði styrkt og er skipun sjálfstæðrar stjórnar sjóðsins mikilvægur liður í því.
Með frumvarpinu verður einnig sú breyting að Rannsóknasjóði verður gert kleift að taka þátt í verkefnum sem krefjast alþjóðlegrar samfjármögnunar. Í slíkum samstarfsverkefnum rannsóknasjóða verður stjórn Rannsóknasjóðs heimilt að taka ákvarðanir um styrki á grundvelli umsagna fagráða sem skipuð eru sameiginlega af samstarfsaðilum.
Sjá kynningu frumvarps í Samráðsgátt.
Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda þar inn umsagnir eða ábendingar.