Frumvarp um breytingu á aldursfriðunarákvæði húsa í samráðsgátt
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sett til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um breytingu á aldursfriðunarákvæði húsa og annarra mannvirkja í lögum um menningarminjar, svokallaðri 100 ára reglu.
Í dag eru öll hús byggð árið 1922 eða fyrr aldurfriðuð samkvæmt 100 ára reglu. Verði frumvarpið að lögum árið 2023 verða hús sem byggð eru árið 1924 eða síðar ekki lengur sjálfkrafa friðuð.
Fái 100 ára reglan að standa áfram mun aldurfriðuðum húsum fjölga mikið á næstu árum og líkur aukast á að hús, sem ekki er þörf á að friða, verði sjálfkrafa friðuð. Í frumvarpinu er lagt til að öll hús byggð á árunum 1924-1930 falli undir umsagnarskyldu. Þá þarf að leita umsagnar Minjastofnunar standi til að ráðast í framkvæmdir sem geta haft áhrif á minjagildi húsanna. Getur þá stofnunin t.d. sett viss skilyrði til verndar húsunum og yfirbragði þeirra.
Þær breytingar hafa verið gerðar frá áformaskjali sem sett var í samráðsgátt í sumar að frumvarpsdrögin taka nú eingöngu til húsa og mannvirkja, ekki fornminja, sem eru annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir.
Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpsdrögin er til og með 6. október 2022.
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um menningarminjar - aldursfriðun