Íslendingar fá aðgengi að rafrænum ritum um Afríku
Norræna Afríkustofnunin (NAI) hefur opnað Íslendingum aðgang að hartnær fimm þúsund ritum um Afríku sem hlaða má ókeypis niður frá bókasafni stofnunarinnar í Uppsölum gegnum íslenska leitarvefinn, Leitir. Samkvæmt frétt Norrænu Afríkustofnunarinnar geta ritin gagnast fræðafólki, fréttamönnum, þingmönnum og almenningi.
Aðgengi að safninu til allra norrænu þjóðanna hefur verið langtímamarkmið Åsu Lund Moberg forstöðumanns Norrænu Afríkustofnunarinnar. Hún segir að innlendir vefir bókasafna séu lykillinn að því að ná þessu markmiði.
"Safnið okkar er aðgengilegt í gegnum margar mismunandi leiðir á Netinu, þar á meðal auðvitað okkar eigin leitarvél, Africalitplus, sem er opin öllum. Hver sem er getur skoðað efni frá okkur og hlaðið niður rafrænum ritum úr gagnagrunninum. En þótt möguleikarnir til að sækja efnið séu margir hefur það lítil raunveruleg áhrif þar sem fólk þekkir ekki til leitarvélanna. Þess vegna förum þá leið að bjóða efnið á leitarvélum í hverju landi sem fólk þekkir,” segir Åsa Lund Moberg.
Hún nefnir sem dæmi að millisafnalán til danskra notenda hafi verið 25 talsins á ári fram til ársins 2007 þegar safnið varð aðgengilegt í gegnum danska bókasafnsvefinn “bibliotek.dk”. Næsta árið hafi notendur verið eitt þúsund og frá þeim tíma hafi svipaður fjöldi sótt efni til Norrænu Afríkustofnunarinnar.
Í fréttinni er haft eftir Pétri Waldorff rannsakanda við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) að aðgengi að rafrænum ritum Norrænu Afríkustofnunarinnar á Íslandi í gegnum Leitir sé afar mikilvægt fyrir rannsóknir um Afríku á Íslandi. „Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi fjölgunar alþjóðlegra nemenda á síðustu árum, meðal þeirra nema frá Afríkuþjóðum, en það er einnig vaxandi áhugi á rannsóknum um Afríku og á alþjóðlegum þróunarrannsóknum við Háskóla Íslands."
Norræna Afríkustofnunin í Uppsölum í Svíþjóð er norræn stofnun sem sér um rannsóknir, skráningar- og upplýsingastarf um Afríku nútímans. Íslendingar eru aðilar að stofnuninni.