Mál nr. 3/2005
Álit kærunefndar jafnréttismála
í máli nr. 3/2005:
Jafnréttisstofa
gegn
Sælgætisgerðinni Freyju ehf. og Auglýsingastofu Guðrúnar Önnu ehf.
--------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 5. apríl 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I
Inngangur
Með bréfi, dags. 28. september 2004, ritaði Jafnréttisstofa erindi til Freyju Sælgætisgerðar ehf. í tilefni af sjónvarpsauglýsingum sem þá höfðu birst í ljósvakamiðlum varðandi svokallað Freyjudraumssúkkulaði. Í erindi Jafnréttisstofu var vísað til kvartana sem stofunni höfðu borist en talið var að umræddar auglýsingar kynnu að fela í sér brot á 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, en þar komi fram að í auglýsingum skuli ekkert vera sem sé öðru kyninu til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt. Með tilvísuðu bréfi gaf Jafnréttisstofa fyrirtækinu kost á að tjá sig um framangreint auk þess sem óskað var eftir að umrædd auglýsing yrði send stofunni.
Með bréfi Freyju ehf., ódags., en sem var svar við framangreindu erindi Jafnréttisstofu, var stofunni sent myndband með tilvísaðri auglýsingu, auk þess sem tiltekið var að hugmyndin á bak við auglýsinguna hafi verið tilvísun til kvikmynda um James Bond, auglýsingin sé myndræn tilvísun til hugarheims „ofurtöffarans“, sem sé þema sem sýnt hafi verið í mörgum kvikmyndum. Í auglýsingunni sjáist berar konur en þó sjáist ekkert af „helgustu stöðum líkamans“. Konurnar séu fagrar og að ekkert sé þar þeim til minnkunar. Auglýsingin sé jafnframt glaðleg og ofbeldislaus.
Með bréfi, dags. 6. desember 2004, sendi Jafnréttisstofa erindi til Lögreglunnar í Kópavogi þar sem farið var fram á opinbera rannsókn vegna meints brots á 18. gr. laga nr. 96/2000, þar sem meðal annars yrði rannsakað hver hannað hafi umrædda auglýsingu og hvar hún hefði birst. Í niðurlagi bréfsins var tiltekið að ef lögin hefðu verið brotin var farið fram á að hlutaðeigandi aðilar yrðu sektaðir með vísan til heimildar í lögunum.
Með bréfi, dags. 31. maí 2005, fór Jafnréttisstofa þess á leit við Lögregluna í Kópavogi að myndbandsspóla sem hafði að geyma umrædda auglýsingu yrði send til kærunefndar jafnréttismála, en að fengnu áliti kærunefndar yrði tekin ákvörðun um frekari aðgerðir ef þurfa þætti.
Með bréfi, dags. 6. júní 2005, fór Jafnréttisstofa þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að nefndin tæki til meðferðar kæru á hendur Sælgætisgerðinni Freyju ehf. og Auglýsingastofu Guðrúnar Önnu ehf. vegna birtingar framangreindra auglýsinga og meintra brota á lögum nr. 96/2000 af því tilefni. Kæruefninu var nánar lýst í kæru til nefndarinnar, ásamt fylgigögnum.
Í tilvísaðri kæru kemur meðal annars fram að Jafnréttisstofa telji að framangreindar auglýsingar, sem birst höfðu um skeið í ljósvakamiðlum, væru meiðandi fyrir konur og þeim til minnkunar. Er meðal annars vísað til þess að auglýsingarnar gangi út á að selja kvenfólk sem kynverur þar sem þær séu hlutgerðar sem leikföng. Naktir kvenlíkamar komi fram, og sjáist naktar konur skýla kynfærum og brjóstum, og sé bifreið, sem ekið sé af karlmanni ekið á milli þeirra eða á þeim.
Kærunefnd jafnréttismála barst hinn 21. júní 2005 bréf sýslumannsins í Kópavogi, en því fylgdi meðal annars myndbandsspóla og gögn frá Jafnréttisstofu, samanber hér að framan.
Með bréfi, dags. 5. september sl., leitaði kærunefnd jafnréttismála eftir umsögn Sælgætisgerðarinnar Freyju ehf. við kæru Jafnréttisstofu. Með bréfi lögmanns fyrirtækisins, dags. 25. október sl., var óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum vegna kæru þessarar. Með bréfi sama, dags. 14. nóvember 2005, var gerð grein fyrir sjónarmiðum Sælgætisgerðarinnar Freyju ehf. í máli þessu og þær kröfur gerðar aðallega að málinu yrði vísað frá kærunefndinni en til vara að nefndin staðfesti að hin kærða auglýsing bryti ekki gegn ákvæði 18. gr. laga nr. 96/2000. Að því er frávísunarkröfuna varðaði vísaði lögmaðurinn til þess að umrædd auglýsing hefði birst í fjölmiðlum af og til í tvö ár og að Jafnréttisstofu hafi verið um það kunnugt. Er sérstaklega bent á að auglýsingin hafi birst í fyrsta sinn þann 3. október 2003. Vísar lögmaðurinn í því sambandi til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000 sem kveður á um að erindi skuli berast kærunefndinni innan árs frá því að ætlað brot á lögunum lá fyrir. Í öðru lagi styður lögmaðurinn frávísunarkröfu með því að Jafnréttisstofa eigi ekki aðild að máli þessu. Að því er varakröfuna varðar er á því byggt að umrædd auglýsing teljist ekki meiðandi fyrir konur og er talið að túlkun Jafnréttisstofu eigi sér ekki stoð í auglýsingunni sjálfri, myndmáli hennar eða texta.
Ofangreint erindi Sælgætisgerðarinnar Freyju ehf. var sent til umsagnar Jafnréttisstofu og barst umsögn stofunnar með bréfi dags. 21. desember 2005. Að því er varðar frávísunarkröfu í málinu vísaði Jafnréttisstofa til þess að umrædd auglýsing hefði ekki birst um hríð í fjölmiðlum og því hefði verið talið að ekki yrði um frekari birtingar að ræða. Umrædd auglýsing hefði síðan á ný birst í sjónvarpi á vormánuðum 2005 og telur Jafnréttisstofa að kærufrestir geti ekki byrjað að líða fyrr en frá síðustu birtingu. Þá mótmælir Jafnréttisstofa sérstaklega að hún eigi ekki aðild að máli þessu. Að öðru leyti ítrekar Jafnréttisstofa sjónarmið sem áður hafa komið fram varðandi efnisatriði umræddrar auglýsingar.
Erindi þetta var kynnt lögmanni Sælgætisgerðarinnar Freyju ehf. með bréfi, dags. 22. desember sl.
Eins og mál þetta er vaxið telur kærunefnd ekki ástæðu til frekari gagnaöflunar eða álitsumleitunar. Af sérstökum ástæðum hefur úrlausn máls þessa dregist hjá kærunefnd jafnréttismála.
II
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, geta einstaklingar og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála telji viðkomandi að ákvæði laganna hafi verið brotin. Þá getur kærunefnd jafnréttismála einnig þegar sérstaklega stendur á tekið mál til meðferðar samkvæmt ábendingum annarra. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar getur Jafnréttisstofa, þegar sérstaklega stendur á, óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki erindi til umfjöllunar. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan árs frá því að ætlað brot á lögunum lá fyrir eða frá því að sá sem málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Að áliti kærunefndar jafnréttismála getur Jafnréttisstofa þannig við ákveðnar aðstæður átt aðild að málum hjá kærunefnd jafnréttismála, svo sem í málum sem varða almenna hagsmuni og einnig í öðrum tilfellum þar sem einstaklingar eða félagasamtök teljast ekki eiga beina aðild.
Fyrir liggur í máli þessu, samanber meðal annars erindi Jafnréttisstofu til kærunefndar jafnréttismála, dags. 21. desember 2005, samanber og erindi til kærunefndar jafnréttismála, dags. 6. júní 2005, að Jafnréttisstofa hafði fengið ítrekaðar athugasemdir vegna birtingar umræddra auglýsinga meðal annars á fyrra birtingartímabili auglýsinganna, þ.e. frá október 2003, samanber og bréf lögmanns Sælgætisgerðarinnar Freyju o.fl., dags. 14. nóvember sl.
Þegar svo stendur á sem hér segir og með vísan til atvika málsins að öðru leyti er það álit kærunefndar jafnréttismála að kæra til kærunefndarinnar hafi ekki borist innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000 og er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá kærunefnd jafnréttismála.
Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
Andri Árnason
Ása Ólafsdóttir
Ragna Árnadóttir