Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 434/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 434/2018

Miðvikudaginn 27. febrúar 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. desember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. september 2018, á umsókn hennar um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna (foreldragreiðslur).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. ágúst 2018, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna sonar síns sem fæddist árið X. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. september 2018, á þeirri forsendu að sonur hennar félli ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind væru í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Auk þess lægi ekki fyrir að kærandi hefði lagt niður launað starf vegna umönnunar barns. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. desember 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 4. janúar 2019, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 7. janúar 2019 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá Tryggingastofnun 18. janúar 2019 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. janúar 2019. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. janúar 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé ekki sátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar. Sonur hennar sé mjög veikur andlega og krefjist mikillar umönnunar og aðhalds. Kærandi sé að berjast við hann alla daga í daglegu lífi til þess að hann eigi einhverja von um að vegna vel í framtíðinni. Sonur hennar væri hvorki í skóla né í samskiptum við fólk almennt væri hún ekki 100% til staðar. Þetta sé barátta upp á hvern dag og margt fleira en greining geti sagt til um ástandið á honum. Eins og fram komi í upplýsingum frá barna- og unglingageðdeild sé hvorki nein meðferð til staðar þannig séð né lyf sem geti hjálpað syni hennar.

Í athugasemdum kæranda er bent á að veikindi sonar hennar séu ekki smávægileg. Hann sé með talsverða þroskaskerðingu, mikinn kvíða og félagsfælni. Það sé mikil vinna að sjá um hann dags daglega þannig hann lifi eðlilegu lífi og geti séð um sig sjálfur í framtíðinni. Það sé hennar aðalmarkmið en hún hafi barist fyrir syni sínum allt hans líf. Varðandi vinnumál þá hafi henni verið boðin dagvinna sem hún hafi þurft að afþakka, enda vitað mál að hún gæti ekki unnið venjulegan vinnudag vegna umönnunar drengsins. Kærandi hafi ekki vitað af tilvist foreldragreiðslnanna og því sótt um atvinnuleysisbætur. Í ágúst 2018 hafi hún byrjað í stuttri vinnu, enda ekki mögulegt að vera tekjulaus lengur. Sú vinna henti eins og er þar sem hún sé ekki með fastan vinnutíma en ástandið sé mjög erfitt. Kærandi væri ekki að sækja um foreldragreiðslur teldi hún sig ekki eiga rétt á þeim. Hún vilji syni sínum allt hið besta og verði að geta annast hann að fullu. Kærandi sæki því allavega um foreldragreiðslur fyrir tímabilið janúar til enda júlí 2018. Verði mögulegt að hætta þeirri vinnu sem hún sé í og fá foreldragreiðslur sæki hún um það. Kærandi bendir á breyta þurfi reglum um foreldragreiðslur því þetta fyrirkomulag hjálpi engum og hræði fólk frá því að nýta sinn rétt.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að við mat á umsóknum um foreldragreiðslur sé byggt á lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna með síðari breytingum. Lögin útlisti réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar börn hafi greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun og foreldrar geti hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar, auk þess sem vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila verði ekki við komið. Í V. kafla laganna sé farið yfir sameiginleg skilyrði sem þurfi að uppfylla til að réttur til greiðslna myndist. Í 26. og 27. gr. laganna standi að foreldri geti átt rétt á greiðslum þegar barn þess hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun sem falli undir eitthvert þeirra þriggja sjúkdóms- eða fötlunarstiga sem tiltekin séu.

Tryggingastofnun tekur fram að samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 sé ekki heimilt að veita aðstoð þegar skilyrði um alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun séu ekki uppfyllt. Í samræmi við áðurnefnda lagagrein hafi verið álitið að veikindi barns féllu ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind séu í 26. og 27. gr. laganna, en slíkt sé skilyrði fyrir greiðslum. Kærandi hafi sótt um launatengdar greiðslur frá því að allur réttur hafi verið nýttur hjá B til ótilgreinds tíma. Í öðrum gögnum komi fram að kærandi hafi misst vinnu árið 2015 vegna skipulagsbreytinga. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi kærandi síðast fengið greiðslur frá B í febrúar 2016. Í framhaldi af því hafi hún fengið greiðslur frá Vinnumálastofnun út desember 2017. Einnig hafi kærandi gefið upp reiknað endurgjald vegna eigin atvinnureksturs frá maí 2016 og allt til desember 2018. Að auki hafi hún þegið laun frá tilteknu einkahlutafélagi á tímabilinu ágúst til desember 2018. Ljóst sé að kærandi hafi verið með tekjur allt það tímabil sem hún hafi sótt um foreldragreiðslur. Ekki sé heimilt að veita aðstoð þar sem ekki liggi fyrir að foreldri hafi lagt niður launað starf vegna umönnunar barns. Í 11. gr. laganna segi að þegar um sé að ræða sjálfstætt starfandi einstakling þá teljist hann hafa lagt niður störf þegar ekki sé greitt reiknað endurgjald vegna starfa hans. Enn fremur komi fram að einstaklingur þurfi að hafa lokið rétti hjá sjúkrasjóði áður en til greiðslna geti komið. Þá komi einnig fram í 29. gr. að foreldri sem fái atvinnuleysisbætur eigi ekki rétt á foreldragreiðslum á sama tímabili. Í ljósi þessa hafi umsókn verið synjað þar sem skilyrði fyrir greiðslum væru ekki uppfyllt.

Í athugasemdum Tryggingastofnunar er tekið fram að til að öðlast rétt til foreldragreiðslna þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði. Foreldri þurfi að hafa lagt niður vinnu vegna vanda barns, vandi barns þurfi að falla undir sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind séu í lögum nr. 22/2006 og barn megi ekki vera í vistun á vegum opinberra aðila (s.s. ekki skóla eða leikskóla). Þrátt fyrir að hluti skilyrða séu uppfyllt veiti það ekki rétt til foreldragreiðslna. Samkvæmt þeim gögnum sem hafi fylgt umsókn uppfylli vandi barnsins ekki þau sjúkdóms- eða fötlunarstig sem tilgreind séu í 26. og 27. gr. laganna og þar með sé skilyrði fyrir foreldragreiðslum ekki uppfyllt. Þá hafi kærandi verið með reiknað endurgjald vegna sjálfstæðs reksturs á tímabilinu janúar til júlí 2018 og því ekki uppfyllt það skilyrði að foreldri hafi lagt niður störf vegna vanda barnsins. Synjun Tryggingastofnunar hafi þannig verið tvíþætt.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Með lögum nr. 22/2006 er kveðið á um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laganna. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. laganna, samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Þá eru önnur skilyrði ákvæðisins þau að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi. Þessi skilyrði eru í senn ströng og óundanþæg og miða í raun við að foreldri sé að fullu bundið yfir barni.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 22/2006 segir að undir 1. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma. Undir 2. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem þurfi innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Í 1. mgr. 27. gr. laganna um fötlunarstig segir að undir 1. stig falli börn sem vegna alvarlegrar fötlunar séu algjörlega háð öðrum með hreyfifærni eða flestar athafnir daglegs lífs og undir 2. stig falli börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi mjög víðtæka aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar þroskahömlunar eða alvarlegrar einhverfu. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi töluverða aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar sem krefjist notkunar hjólastóls eða verulegrar einhverfu.

Í læknisvottorði C, dags. 28. júní 2018, kemur fram að sjúkdómsgreiningar sonar kæranda séu:

„Aðrar geðbrigðaraskanir í bernsku

Blandin röskun á námshæfni

Skilningsmálröskun

Tourettesheilkenni“

Í vottorðinu segir svo um heilsufars- og sjúkrasögu barnsins:

„Stefnir á nám í D í haust. Gengur illa í daglegu lífi, er ekki í vinnu. Er mikið einn, framtaksleysi ofl.

Móðir þarf mikið að sinna honum. Færi t.d. ekki í skólann ef móðir væri ekki að sinna honum. Fór í uppvinnslu hjá göngudeildarteymi BUGL í febrúar 2017, sjá læknabréf frá 15/2/17.“

Í gögnum málsins liggur fyrir greinargerð félagsráðgjafa, dags. 21. ágúst 2018, þar sem greint er frá aðstæðum kæranda og sonar hennar. Þar segir meðal annars:

„E er f. X og er greindur með þroskaröskun, tourettesheilkenni og fleiri geðbrigðisraskanir sem skerða getu hans verulega til athafna daglegs lífs. Hann er með veikleikar varðandi skipulag, óyrtu minni, athygli og áverkni sem gerir það að verkum að hann þarf mikinn stuðning dags daglega frá morgni til kvölds. Miklir námsörðugleikar hrjá hann [...] og fær stuðning í skóla. Hann á stundum erfitt með að lesa í félagslega samskipti og misskilur eða mistúlkar oft skilaboð til sín. E hefur lengi glímt við kvíða, sem má rekja til [...], sem hefur m.a. leitt af sér [...]. E á sögu um [...] sem hefur leitt til þess að hann hefur enn frekar einangrast félagslega.

Allt þetta hefur haft veruleg áhrif á getu móður til vinnu og hefur hún átt erfitt með að stunda vinnu auk þess sem álag á heimilinu vegna drengsins er verulegt. Þetta hefur haft áhrif á framfærslugetu fjölskyldunnar. Auk þess sem útlagður kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar hefur verið umtalsverður í gegnum tíðina.“

Að mati úrskurðarnefndar á lýsing 26. gr. laga nr. 22/2006 á 1. og 2. sjúkdómsstigi, um að barn þurfi annars vegar langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og hins vegar tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi, ekki við um þann sjúkdóm sem barn kæranda hefur greinst með samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Þá er það mat nefndarinnar að fötlun sonar kæranda sé ekki svo mikil að hann falli undir 1. og 2. fötlunarstig 27. gr. laganna. 

Þar sem sonur kæranda fellur samkvæmt framangreindu hvorki undir 1. og 2. sjúkdómsstig 26. gr. laga nr. 22/2006, né 1. og 2. fötlunarstig 27. gr. þeirra, er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til greiðslna samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna. Svo sem fyrr greinir eru framangreind skilyrði laganna ströng og engar undantekningar á þeim þar að finna. Þá er ekkert í lögskýringargögnum með þessum ákvæðum sem bendir til þess að mati úrskurðarnefndarinnar að hægt sé að fella ástand barns kæranda undir tilgreind lagaákvæði. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. september 2018, um að synja umsókn A, um foreldragreiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta